Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Jæja!

Kæra dagbók þá er kominn mánudagur og síðasti dagur ágústmánaðar, sem segir að 1. september sé á morgun Wink.

Prinsessan fór ásamt sínum tveimur herramönnum í brunch í Hagparken í gær í góðu veðri og smá könnun var gerð á landareigninni svona í leiðinni Wink. Sir bróðir prinsessunnar var ekki eins undrandi á kopartjöldunum og kærustuparið var en hafð enga síður gaman af landareigninni Grin.

Kærastinn var orðinn óskaplega þreyttur Sick eftir þetta og var honum fylgt heim til leggingar en prinsessan fór í hjólatúr og skoðunarferð um miðborgina ásamt Sir-inum. Þegar heim kom og kvöldmatur var í undirbúningi þótti prinsessunni kærastinn ekki vera að sér eins og vera ber svo kærastinn var tekinn til gagngerrar athugunar þar sem hann hríðskalf eins og 7,5 á Ricter. Hann reyndist með 39,6° svo næst var að hringja á Sjúkrahúsið og fara uppeftir með manninn í skoðun. Reyndar hafði hann enginn einkenni nema hitann. Þau á sjúkrahúsinu voru svo ánægð með að endurheimta "sérstaka og einstaka" mannin að honum var haldið yfir nótt Woundering. Þrátt fyrir ýmsar athuganir hefur ekkert komið fram nema gamli "góði" vírusinn sem hann er með og hrellir ekki fullfríska en getur valdi hitaköstum hjá þeim sem ekki eru ekki með ónæmiskerfið í fullu lagi. Prinsessan er núna að bíða eftir að geta fylgt kærastanum heim í íbúðina en fyrst þurfa læknarnir aðeins að ræða málin Sideways og koma að kveðja kærustuparið.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur úr ríki Karls Gústavs Kissing.


Loksins Vasasafnið!

Kæra dagbók þá komst prinsessan og hennar hirð loksins að í Vasasafninu Smile. Kærastinn og Sir bróðir voru mjög áhugasamir og mynduðu í gríða og erg ásamt því að skoða, lesa, spá og spekulera. Reyndar hafði prinsessan einu sinni áður komið á safnið ásamt krónprinsessunni sinni en sá helling nýtt og áhugavert núna en eftir nærri tveggja tíma rölt var prinsessan orðín skrítin í augunum, með nefrennsli og var farin að hnerra. Var prinsessan að detta í flensu Sick ? Nei nú dró aðeins frá hjá prinsessunni, hún mundi allt í einu að hún var "prinsessan á bauninni" og það með renntum. Málið er að hitastigið í safninu er frekar lágt vegna varðveislu munanna en hitastigið var hins vegar um 23°C utandyra sem þýddi að þetta voru ofnæmisviðbrögð og eins gott að bregðast við í snarhasti Shocking. Ekki vildi prinsessan þurfa sprautu og sjúkrahúsdvöl, nóg komið af því með öðrum, svo hún dreif sig í snarhasti upp á restaurantinn, pantaði sér te og kaffi og rauk með það út í sólina og jafnaði sig á rúmum hálftíma Sideways. Hirðin fékk að borða á meðan prinsessan var að jafna sig og var nokkuð ánægð með sinn hlut Cool.

Síðan dreif hefðarfólkið sig á Skansen, skoðaði gömul hús og norræn dýr. Bjórarnir sáust ekki í búri sínu svo prinsessan brá á það ráð að bjóða herrunum upp á bjór í krús til að bæta fyrir skaðann og var það vel þegið Wink.

Á heimleiðinni hoppaði Sir-inn inn í H&M og verslaði sér buxur og tvenna boli á 6 mínútum, geri aðrir betur. Stefnan tekin á Hard Rock Cafe, þar var smá bið eftir borði inni svo hefðarfólkið skemmti sé yfir knattspyrnuleik og var ánægt með gang mála fyrstu 30 mínútur leiksins. Síðan var vísað til sætis og pantaðar steikur og rif. Þá var aðeins kíkt aftur á leikinn og þá urður sumir fúlir, staðan eitthvað breyst, svona er bara að halda með "asnanal" Blush. Maturinn var rosalega góður og hefðafólkið fór sælt og satt heim og var frekar snemma í rúminu, alla vega langt síðan sumir herramenn fóru svo snemma í rúmið á laugardagskvöldi en það er agi í húsum prinsessunnar Grin.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur til allra Kissing. Aðalmálin hjá sir-inum!Nauðsyn?Afslöppun


Laugardagur!

Kæra dagbók þá er upprunninn laugardagur og allir bregða sér í laugarnar nema prinsessan á bauninni og hennar hirð sem er að fara í Vasasafnið og nú á ekki að gefast upp Cool.

Gærdagurinn gékk vel prinsessubróðirinn lenti á fyrirfram ákveðnum flugvelli og prinsessan fylgdi honum til höfuðborgar Svíaveldis Wink. Byrjað var á því að fá síðbúin hádegisverð á neðri hæðinn og síðan var kærastinn sendur inn til að passa íbúðina og hálríginn. Prinsessan dreif bróðurinn hins vegar á hjól og í "túristasiglingu" á milli eyja hér í Stokkhólmi. Síðan var "Gamla Stan" tekin út, farið í nördabúð og á kaffihús Grin. Svo gerðist hið óvænta; prinsessunni datt í hug að kíkja í verslun sem hún hafði oft gengið framhjá, í glugga verslunarinnar voru kvenmannsföt og meðal annars flott prjónuð peysa sem þurfti nánari athugunar við. Þegar inn var komið týndist bróðirinn, sem reyndar er ekki óalgengt en þar sem prinsessan stóð við dyrnar vissu hún að hann hafði ekki farið út og fór því að litast um Woundering. Þá kom bróðirinn askvaðandi og dró prinsessun innar í búðina sem reyndist þá ótrúlega stór og var líka húsgagna- og húsbúnaðarverslun. Þarna á neðst hæðinni leyndist elsti veggur Stokkhólms og tilheyrði borgarmúrnum á 12. öld og þarna voru húsgögn til sölu, svona Tekk vöruhúsar stíll. Næst var kíkt aðeins á opinber heimkynni Svíkonungs og þar voru vaktaskipti hjá lífverði konungs og prinsessan uppgötvaði þá að hennar lífvörður er nú mun myndarlegri, herðabreiðari og líklegri til að standa sig í starfi en væskillinn hjá Karli Gústav, bara samanburður á mynd er lífverði prinsessunnar í hag Grin.Prinsessunnar og Karls Gústavs.

Nú var farið að síga á seinni hlutann í úthaldi bróðurins og því var skeiðað áleiðis heim og tekin hjól til að létta heimleiðina  Shocking. Góða afslöppun heima yfir tapasréttum og pönnukökum ío gærkvöldi mun örugglega auka úthalds dagsins.

Bless kæra dagbók og þá er bara fyrir norðurbæjarbúar að vera búnir að klippa tréin og taka til áður en prinsessan og hennar hirð mætir á svæðið Kissing.


Rosalega upptekin!!

Kæra dagbók nú er sko prinsessan upptekin Wink. Fyrst þarf hún að drífa sig upp á sjúkrahús með sinn merkilega kærasta sem á eftir smá athugangir og síðan á að taka á móti bróður prinsessunnarSmile og það er sko ekki leiðilegt.

Dagurinn í gær var erfiður og prinsessan er sko hundóánægð með apótekin hér Angry. Sjúkrahús apótekið á oft ekki þau lyf sem á þarf að halda og þá þarf að fara í annað apótek. Þær eru nú svo "liðlegar" í apóteki sjúkrahússins að hringja og taka frá það lyf sem vantar í því apóteki sem það er til í en áður hefur prinsessan beðið í svona klukkustund, fyrst eftir að fá afgreiðslu og svo tekur afgreiðslann sinn tíma. Prinsessan þarf svo að fara einhverja vegalengd í apótek sem á lyfið til og þar er búið að taka það frá á nafni kærastans og ætti því að ganga vel að fá lyfið, með miða úr sjúkrahúss apótekinu og skilríki.  Nei nú tekur við minnst 30 mínútna bið eftir afgreiðslu og svo 30-60 mínútur í afgreiðslu því það þarf að hringja hingað og þangað til að vera viss um að prinsessan eigi að fá lyfin, þrátt fyrir miða og skilríki, síðan tekur óratíma að merkja lyfið sem kærastinn hefur þó verið að taka síðan í maí og þekkir vel og.... "KRÆST" Angry Angry FrownCrying.

Bless kæra dagbók nú er að drífa sig í annríki dagsins Kissing.


Engar fréttir!!

Kæra dagbók enn er kærastinn að farast úr hálsríg Sick vonandi fær hann einhverja bót mála þegar sjúkrahúsið verður heimsótt á eftir,ómögulegt að hafa hann svona hallandi undir flatt og stífan í baki Pinch.

Gærdagurinn var sko enginn prinsessudagur, dagurinn for í þvotta og þrif ekki hægt annað þar sem von er á heiðursgesti frá Íslandi á morgun Smile. Reyndar komst kærustuparið í smá göngutúr út í Hagapark en hálsrígurinn kom í veg fyrir miklar æfingar. Hins vegar var "Miss Marble" í sjónvarpinu í gærkvöldi og mikið rosalega er þessi kona heppin, hún á vel stæða ættingja út um allt Bretland. Þessir ættingjar eru alltaf tibúnir að taka á móti henni og hafa hjá sér í ótilgreindan tíma eða allavega þar til hún hefur leyst morðgátuna en svo óheppilega vill til að morð eru alltaf framin í nágrenni við þann stað sem hún heimsækir einmitt þegar hún er í heimsókn Cool.

Bless kæra dagbók þá er bara að drífa kærastann í blóðprufu og fá bót í rígnum og halda svo áfram að bíða spennt eftir gestinum Kissing.


Rígur!!

Kæra dagbók hér er mikill rígur á heimilinu Sick. Kærastinn er með svo rosalegan hálsríg "hexeskud" að hann nær frá hálsi og langt upp á höfuð Frown. Það er sem sé alltaf eitthvað verið að hrekkja kærasta prinsessunnar og hún er alveg saklaus af öllu þessu veseni, alveg satt Pinch.

Þegar átti að útskýra fyrir lækninum hvað væri að hrjá kærastann vantaði orð á fyrirbærið og gripið var til orðs sem móðir prinsesssunnar notaði alltaf, móðirinn er fædd og uppalin á Siglufirði fyrir miðja síðustu öld og bærinn var þá svolítið dönskuskotinn enda stutt í Akureyra, sjóleiðis. Þetta orð skyldi sænski læknirnn vel, "hexeskud" eða nornaskot/bit er sem sé líka þekkt í Svíþjóð, svo eitthvað hlýtur að vera af nornum hér. Íslendingar eru nú ekki alltaf að kenna kvenfólki um það sem miður fer og því hefur þetta verið kallað "Þursabit" á íslensku, sem sé að vera bitinn af þurs(a). Þessi svæsni verkur sem kemur í vöðvafestur án haldbærrar skíringar nema þá snöggrar hreyfingar eða bara að vakna með verkinn er ekki manni sálfum að kenna heldur einhverjum þurs eða norni, og þá vitum við það Cool. Eyjólfur var ekki ferðafær í gær af völdum "galdra" og sat með "plástur", mjög stóran, á aftanverðu höfðinu og reyndi að liðka sig. Plásturinn er mjög sniðugur, hann hitar svæðið sem hann er á og eitthvað útfrá því og um leið er hann verkjastillandi og bólgueyðandi en verkar bara á takmarkað svæði, það svæði sem þarf að meðhöndla Smile.

Talandi um tungumál og vísanir í tungumálum þá er kærustuparið búin að komast að því að á einhverju tímabili hafa Sviar eitthvað ruglast í sínu tungumáli, verið kærulausir eða latir nema hvortveggja hafi komði til. Þetta sést á því að sterk stigbreyting lýsingaorða heyrist ekki, Svíar segja "godare" en ekki "bedre" eða betri. Kannski verður þetta svona í Íslenskunni einhverntíma, "who knows" Shocking.

Bless kæra dagbók, hér rignir í augnablikinu en það verður sko sól og blíða seinni partinn Kissing.


Þrír dagar!!

Kæra dagbók núna eru bara þrír dagar í bróður prinsessunnarSmile. Mikið rosalega verður gaman hjá okkur, það er svo margt að gera og sjá hér í Stokkhólmi og svo eru "NÖRDA" búðir hér FootinMouth. Áræðanlegar heimildir eru fyrir því að sonur kærustuparsnins sé búinn að fara vandlega yfir það með frænda sínum, hvar "NÖRDA" búðirnar þrjár eru og hvað er til í hverri þeirra. Sem betur fer eru veitingahús á hverju strái hér í borg svo prinsessan getur setið þar meðan karlkynið skoðar "NÖRDA" dótið Tounge.

Kærustuparið fór upp á sjúkrahús í gær og allt sem búið er að athuga er jákvætt og nú eiga bara að vera eftir tvær athuganir fyrir heimferð Wink. Á heimleiðinni var farið á veitingahús og snæddur hádegisverður og þar sem kærustuparið sat og var að kyngja síðustu bitunum, sitjandi utandyra, kemur þá ekki íslenskt par arkandi eftir sjávarsíðunni. Þar voru á ferð hjón sem eru hér í Stokkhólmi sömu erindagjörða og kærustuparið nema þau eru mánuði á eftir okkur í ferlinum. Það var mjög gaman að hitta þau og geta deilt reynslu og skipts á upplýsingum um góða matsölustaði og hvað þyrfti að skoða áður en heim væri haldið Happy. Nú þarf kærustuparið að vinna úr upplýsingunum og reyna að gera eitthvað sniðugt í dag og meðmælin með borginni verða eftlaust ekki minni eftir daginn.

Það sem helst veldur prinsessunni áhuggjum er að gengið verði fram á "skyndibitavagni" og kærastinn versli sér hálfan meter af lakkrís til að jappla á eða þá "munk" Frown. Prinsessan veit ekki hvort er hræðilegra. Í gær sá hún við honum og settist á kaffihús og fékk sér kaffibolla meðan kærastinn kom nær meter af lakkrís í lóg GetLost. Prinsessan hefur verið að velta  fyrir sér af því að sagt er að þeir sem fari í mergskipti séu eins og barn á fyrsta ári, fyrsta árið, mundi maður gefa þriggja mánaða barni lakkrís, "munk" eða bjór Pinch, þetta eru nú bara smá vangaveltur prinsessu.

 Fréttir berast að heiman um berjasprettu, fjallagrasatýnslu, börn að mæta í skólana og á meðan situr prinsessan úti í sólinni og prjónar eða fer léttklædd í göngutúra. Hún upplifir sumar en verður svo mætt í haustið eftir viku en þá er bara að vona að einhversstaðar verði til íslensk ber og fjallagrös, prinsessan treystir allavega á að Fjarðarkaup verði á sínum stað með sitt góða úrval Joyful.

Bless bless kæra dagbók spurningin sem brennur á prinsessunni núna er hvort hún geti nokkuð hætt að bulla í dagbókina þegar heim verður komið og hvað þá þegar hún verður "alein" á Spáni eftir áramót, hver veit hvað gerist!!!Kissing.


Vika og einn dagur!!

Kæra dagbók þá er nú sól og blíða hér í Stokkhólmi og veðrið til að vera úti Smile. Kennslukonuhjartað í prinsessunni slær nú enn þá þó að ekki sé hún við kennslu sem stendur, hún er með augun opin sjái hún unglinga- eða barnahóp á ferð með einn eða fleiri fullorðna í för Woundering. Það kveður svo rammt við að í byrjun júlí réðist hún að ungum sakleysislegum pilti á milli tvítugs og þrítugs þar sem hann tók á móti 8-10 ára krökkum við skólabyggingu í nágrenninu og spurði "drenginn"  hvað um væri að vera Shocking. Pilturinn var hinn kurteisasti við þessa hnýsnu kennslukonuprinsessu og fræddi hana um að Svíar væru gegnumgangandi með leikjanámskeið á sumrin í skólafríum fyrir yngri en 12 ára en algjört frí væri í vikum 28-31 eða frá því í byrjun júlí og fram í ágúst. Hér byrjaði svo skólinn 17. og 18. ágúst, bæði grunnskólar og framhaldsskólar. Alla síðustu viku var svo prinsessan að mæta skólakrökkum á ýmsum aldri á göngu úti í hóp með kennara, sjaldan tveimur Undecided. Þetta virtust að mestu skemmtiferðir, til dæmis farið í Hagaparken með nesti og leikið sér og slappað af í sólinni, líka menntaskólakrakkarnir. Einn hóp hitti prinsessan, frekar lágan í loftinu, og þar voru þrír fullorðnir með og allir með litla háfa, skriffæri og bækur, þetta var vísindaleiðangur. Prinsessan sagði kærastanum að þetta væru leikskólabörn að læra um fiðrildi og fleira. Kærastinn vildi vita hvernig hún vissi að þetta væru leikskólabörn þar sem skammt frá var annar hópur að leik og varla hærri í loftinu en jafnvel fleiri. Prinsessan sagðist vera alveg viss í sinni sök þar sem fiðrildahópurinn var með þrjá leiðbeinendur en hinn bara einn, alveig eins og á Íslandi Joyful.

Kærustuparið fór í fjallgöngu í gær, gékk upp á hólinn handan við hornið og gerði það í áföngum en upp komst parið og hóllinn er sko næstum jafnhár og Hamarinn í Hafnarfirði, útsýnið skemmtilegt og skilti á leiðinni sem sögðu sögu staðarins  Happy en hann heitir Vanadísarlundur. Eftir þetta erfiði átti nú að fá sér vöfflur með sultu og rjóma á mjög skemmtilegu kaffihúsin í Bellevuegarðinum sem er fremsti hluti Hagaparkens, þvílík vonbrigði, kaffihúsið var lokað CryingCrying. Kærustuparið ákvað þá að arka örlítið lengra og freista þess að fá sínar vöfflur, nei á næsta kaffihúsi voru ekki til vöfflur en við fengum kaffi Cool.

Bless kæra dagbók nú er að drífa sig í tékk upp á sjúkrahús Kissing.


Kaþólska kirkjan!!

Kæra dagbók kærustuparið náði að bregða sér í hjólatúr í gær Smile og hjólaði alveg niður að uppáhalds bar prinsessunnar. Þar er nefnilega hægt að sitja í mjúkum sætum við sjóinn og horfa á seglbáta, hraðbáta, ferjur, skemmtiferðaskip, bátana í útsýnisferðirnar og bara allavega skemmtibáta á ferðinni. Þarna er líka fullta af fólki, ferðafólki og annarskonar fólki, sem skeiðar hjá á mismiklum hraða og mismikið utan við sig Blush. Prinsessan fær sem sé ekki bara kakó með rjóma á uppáhalds veitingahúsinu heldur líka þverskurðinn af mannlífinu í stórborginni, þverskurðinn af ferðafólkinu í stórborginni svo ekki sé talað um þverskurðinn af tískunni í stórborginni, þannig að þetta eru sannkallaðar háskólastundir fyrir prinsessun Happy.

Eitt er þó að valda prinsessunni hugarangir og það snýr að kærastanum FootinMouth! Þegar að farið er í bæinn þá vill hann alltaf stoppa á svona götuveitingahúsum og versla sér "munka" einn eða tvo eða þrjá. Það sem gerist næst er að kærastinn gengur um götur höfuðborgar Svíaveldis snæðandi "munk" . Prinsessan lifir náttúrulega í þeirri von að kaþólska kirkjan og páfinn í Róm séu ekki með útsendara á hverju götuhorni í borginni því ekki liti það vel út í skýrslunum í Páfagarði að Íslenskur herramaður gangi um götur einnar af höfuðborgum Norðurlandanna étandi "munk" Frown

Prinsessan á bauninni er búin að athuga tímann "sinn" í 10 kílómetra hlaupinu í Reykjavík í gær og er hann að vonum stórglæsilegur, mun betri en á fyrri árum og er bætingin yfir 10 mínútur, sem er mjög gott Grin. Þetta var flott hjá krónprinsessu prinsessunnar á bauninni Cool.

Bless kæra dagbók og nú getur þú farið að telja niður þar til kærustuparið lendir á Íslandi, reyndar á að ferðast með leynd svo öryggiskerfið brenni ekki yfir um Kissing.


Vöðvar og ekki vöðvar!!

Kæra dagbók það var bara nokkuð erfiður dagur hjá kærustuparinu í gær Sick. Þar sem kærustuparið er nú svo samtaka í öllu og sameinast í áhugamálunum  þá tóku þau sig til og lögðu bæði gærdaginn í höfuðverk Frown eiginlega höfuðkvalir. Prinsessan herti sig upp og hjólaði í næsta apótek og keypti vöðvaslakandi verkjalyf þar sem lang algengasta ástæða höfuðverkja eru vöðvaverkir og það reyndist rétt þannig að kærustuparið er á bata vegi. Vöðvaverkirnir komu að sjálfsögðu á réttum tíma því það hefur verið rok síðan í gærmorgun og svo bættist við rigning síðdegis og svo styttir upp um hádegi og sólin fer að skína því þá verður kærustuparið komið í gott lag Wink.

Þar sem prinsessan notar leiguhjól frá Stokkhólmsborg, keypti kort sem sett er á skynjara sem svo úthlutar hjóli úr standi með fullt af hjólum. Hjólin eru gegnum gangandi í góðu standi og ekkert mál að skipta ef maður er ekki ánægður en í gær gerðist það að prinsessan fékk glænýtt hjól í frábæru standi Smile. Þetta varð til þess að prinsessan vildi bara hjóla endalaust en var ekki í standi til þess en ætlaði ekki að tíma að skila hjólinu í standinn meðan hún fór í apótekið og að sjálfsögðu var hjólið farið þegar hún kom út og það sem meira var standurinn var tómur. Þá var bara að bregða undir sig betri fætinum og arka að næsta standi og þar beið hennar annað glænýtt hjól, heppin LoL. Nú er bara að vona að þessi fínu hjól bíði eftir hádegi svo að gott verði að hjóla í hjólaferðinni í sólinni sem þá verður komin Cool.

Væri prinsessan heima núna færi hún í Reykjarvíkurmaraþonið og skokkaði sína 10 kílómetra en þar sem prinsessan er vant við látin í höfuðborg Svíaveldis þá reddar hún málum með því að senda krónprinsessuna sína í hlaupið og gerir ráð fyrir að hraðinn verði töluvert meiri fyrir vikið, alltaf séð þessi prinsessa Tounge. Annars saknar prinsessan helst kaffisins og félagsskaparins eftir hlaupið Frown.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur til hlaupara og menninganæturnjótenda, líka til þeirra sem eru bara í sveitinni Kissing.


Næsta síða »

Höfundur

Rannveig Vigfúsdóttir
Rannveig Vigfúsdóttir
Kennslulkona í leyfi frá störfum. Með mikla hreyfi þörf og ferðafíkill en sækist mest eftir hlýju loftslagi.

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • Kærustuparið!
  • Taka tvö af Kærustuparinu!
  • Prinsessan!
  • Jón Leifs!
  • myndir student 055

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1056

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband