6.6.2009 | 09:02
Þjóðhátíðardagur Svía.
Kæra dagbók í dag er þjóðhátíðardagur Svía ! Við heyrðum um það í sjónvarpinu, svona erum við orðin klár í sænsku.
Við morgunverðarborðið í morgun ákváðum við mæðgur að spurja Svíana um daginn og þeir voru nú ekki alveg með það á hreinu að það væri í dag . Sem betur fer var sjónvarpið á og verið var að sjónvarpa frá hátíðarhöldum á Skansen þannig að Svíarnir sáu að við mæðgur vorum ekki alveg kolruglaðar. Þeir vildu meina að þeir væru nú ekki að halda eins mikið upp á þetta og Norðmenn, semsé héldu að við værum norskar. Ég var fljót að leiðrétta það og sagði að við Íslendingar héldum jafnmikið upp á þjóðhátíðardaginn og Norðmenn og í öllum bæjum á Íslandi væru hátíðarhöld
.
Við mæðgur erum nú bara lukkulegar með það því við getum þá farið að versla niður í Huddinge centrum og það finnst okkur ekki verra, ég ætla meira að segja að fara með dótturina og kynna hana fyrir geðprúðu konunni í garnabúðinni, vonandi er ekki sú broshýra á vakt .
Seinna í dag er svo ætlunin að fara öll þrjú í bíltúr og skoða okkur um, viðvörun verður send út um hádegi.
Við mæðgur tókum til hlaupagallann í gærkvöldi því ég ætlaði að kynna "hlaupaleiðir" mínar fyrir dótturinn en vorum svo þreyttar í morgun að við sváfum yfir okkur svo við tökum alla hreyfingu út í verslunarleiðangrinum. Ég tek það fram að við erum mjög duglegar í "windowshopping" ef Íslenska þjóðin er farinn að hafa áhyggjur af gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins og svo er ég búin að gylla grænmetis og ávaxtamarkaðinn fyrir dömunni.
Jæja kæra dagbók við mæðgur megum nú ekki missa af lestinni í þessa löngu ferð sem tekur allavega eina og hálfa mínútu og það líða alveg 14 mínútur á milli ferða .
Bless bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2009 | 07:16
Komin til útlanda!
Kæra dagbók nú fengum við kærustuparið bara smá þef í gær, af því að vera í útlöndum . Við fengum lánaðann bílinn á Ronald McDonald og fórum í smá bíltúr. Þar sem ég er svo hlíðin og stillt stúlka þá fór ég í einu og öllu eftir tilmælum tengdamóður minnar og ók varlega og passaði mig að vera alltaf á löglegum hraða
. Við vorum ekki búin að aka lengi þegar við tókum eftir því að hver bifreiðin á fætur annarri hraðaði sér fram úr, hvar vorum við á Íslandi eða hvað var eiginlega að gerast. Ég ákvað í snarhasti að ég hefði lesið vitlaust á skiltið með hraðatakmörkunum og jók ferðina í 80 km á klst enn héldu bifreiðarnar áfram að fara fram úr. Þá sá ég nýtt skilti og það stóð 70 á því, hvað var eigninlega að gerast? Okkar kenning er sú að það sé alltaf verið að prófa Svíana í stærðfræði og að þeir eigi að bæta 20 við og aka á þeim hraða en samt sem áður komumst við að því að þeir eru misgóðir í samlagningu því einhverjir voru á 100 og jafnvel yfir. Við létum þetta ekki slá okkur út af laginu og höfðum orð hennar tengdamóður minnar í heiðri og héldum okkur á þeim hraða sem skiltin sögðu, enda gékk þessi bílferð mjög vel og var skemmtileg
.
Sömu sögu er ekki að segja af "út að borða" ferðinni . Við ákváðum nefnilega að frúin þyrfti nú eitthvað í svanginn áður en hún færi að urra og þá sáum við gult hús sem óneitanlega minnti á Emil nokkurn í Kattholti, því það líktist stórbýli úr þáttunum. Utan á húsinu stóð "Kök og pizza" sem gefur náttúrulega góð fyrirheit . Við skelltum okkur inn og ég pantaði mér pizzu og var boðið á salatborð á undan. Í salatfötunum voru tangir sem áttu að auðvelda manni að færa salatið á eigin disk en þetta hentaði henni mér ekki sérlega vel því "blobbs" tönginn hrökk upp og opnaðist og salatið fór út um allt, nú er búið að setja upp skilti á veitingastaðnum og á því stendur "Rannveigar bannaðar" þannig að kæra dagbók ef þú átt leið um Svíþjóð og ætlar að næra þig þá skaltu segast vera frá Finnlandi
. Pizzan var hinsvegar mjög góð og ég mæli með staðnum
.
Nú hinsvegar kæra dagbók fer ég að rúlla út á flugvöll að sækja litla barnið mitt sem ætlar að gleðja foreldra sína með nærveru sinni næstu vikuna .
Bless bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim og vonandi verður gott veður þar hér er nefnilega að bresta á með bongoblíðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2009 | 08:28
9°C úff!!
Kæra dagbók mikið óskaplega var ég fljót yfir á sjúkrahús í morgun var ekkert að tefja mig við auka göngutúr eins og ég hef gert hingað til. Mér Íslendingnum fannst bara kalt já dr... kalt og ofan á lágt hitastig leggst rok, ekki vindur heldur rok með rigningu á hraðferð. Þetta er ekkert veður fyrir prinsessuna á bauninni en prjónarnir og vasabrotsbækurnar eru á sínum stað og sem betur fer eru matsölustaðir innandyra hér á sjúkrahúsinu.
Ég byrjaði að þvo laust eftir klukkan sjö í morgun og þá er klukkan rétt rúmlega fimm að morgni heima á Íslandi, þetta er náttúrulega bilun og það sem verra er ég veit ekkert hvað ég á að gera við þessu ég hef náttúrulega aðgang að ýmsum fræðingum hér á sjúkrahúsinu en veit ekki hvort þeir geti höndlað þessa bilun.
Í dag er ætlunin að skreppa í smá bíltúr, þar sem við höfum aðgang að bíl þessa dagana á Ronald, ég verða að æfa mig áður en ég bruna út á flugvöll á morgun að ná í litla barnið mitt.
Áður fór hún í sumarbúðir í Ölveri og átti frábærar stundir nú fer sumarfríið í að skemmta mömmu sinni, vonandi man hún enn leikina og þrautirnar úr Ölveri. Sé okkur alveg í anda fara í útileiki á lóðinni við Ronald, það þarf nú líka að skemmta hinu fólkinu . Reyndar er tvöfaldur, flottur tennisvöllur hér á milli sjúkrahússins og Ronald og ég horfi nær daglega, öfundsjúk, á einhverja leika sér í tennis. Kannski að ég nái að plata dömuna í einn leik, svo getum við verið samtaka í rassharðsperrum daginn eftir, alltaf betra að hafa þjáningasystur
.
Það er eitt sem ég hef svolítið tuðað yfir að undanförnu og ég sem er þekkt fyrir að tuða aldrei en það er það að við erum að fá fullt af flottum og góðum kveðjum en getum ekki svarað til baka nema örfáum því við höfum ekki netföngin, þau koma ekki sjálfkrafa upp á blogginu, kannski er hægt að nálgast þau og ætti nú að reyna í stað þessa að tuða
.
Eyjólfur er á hægum, jákvæðum batavegi og við fáum daglega prófessora og lækna hér inn til að ræða um heilsufarið og framhaldið og ég sé að Eyjólfur er áhugaverður sjúklingur (áhugavert tilfelli). Prófessorinn sem kom í morgun, Olle, vann með Bandaríska lækninum sem fékk Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1990, verlaunin voru fyrir vinnu að lækningu hvítblæðis en það var það sem Olav vann einmitt að með þeim bandaríska, ekki amarlegt það
Bless, bless kæra dagbók bestu kveðjur til allra heima á Íslandi og vonandi er betra veður hjá ykkur .
Búin að fatta hvar ég finn netföngin, ég er svo mikið tölvuséní
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.6.2009 | 08:27
Notaði regnhlíf!
Kæra dagbók í morgun tók ég fram regnhlífina sem ég keypti hér um árið í London og notaði einu sinni þar, var sem sé að nota hana í annað skiptið núna. Hér er nefnilega útlensk rigning, skrítið, það rignir beint niður ekki hraðferð á ská á dropunum og það var gaman að labba úti með regnhlíf og ímynda sér að maður væri rosa pæja!
Ég fór hvorki í fitnessið eða út að hlaupa því ég hafði svo rosagóða afsökun, ég á við meiðsli að stríða ekki íþrótta meiðsli heldur brussu meiðsli. Rúmið á sjúkrastofunni réðist með offorsi á hælinn á mér í gær og ég er bæði með sár og marinn, þannig að nú eru það bara göngutúrar í sandölum. Ekki getur maður farið að gera magaæfingar svo ég tali nú ekki um armréttur með þessi líka rosalegu meiðsli á hælnum, það tekur örugglega tvo ef ekki þrjá daga að komast aftur í skó og fara að sporta.
Ég er í fýlu úti netþjónustu Hafnarfjarðar því í annað skiptið á örstuttum tíma datt prósturinn út þegar ég var búin að skrifa bráðsmellið og langt bréf þannig að bréfið hvarf, aumingja Edda hvers á hún að gjalda að fá ekki skemmtilega bréfið frá mér. Ekki veit ég hvað er í gangi en þegar þetta gerðist síðast var ég líka að senda Eddu bréf. Ég þarf sem á alltaf að byrja upp á nýtt þegar ég skrifa henni svo að hún fær bar leiðinleg bréf frá mér því hin þessi skemmtilegu hverfa alltaf, aumingja Edda.
Hér er allt á hægum en góðum batavegi hjá Eyjólfi og við erum farin að bíða eftir að hann komist út af sjúkrahúsinu því þá flytjum við í íbúð og þurfum bara að koma hingað í eftirlit og eitthvað kannski meira.
Bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2009 | 09:07
Rigning beint niður!
kæra dagbók hér rignir í dag og það beint niður sem mér finnst alltaf merkilegt því heima á Íslandi liggur rigningunni alltaf svo mikið á . Ég fór í göngutúr í rigningunni, í regnkápu, og fannst það bara fínt, heima hleyp ég í mesta lagi út í bíl í rigningu
.
Í gær var hins vegar glaðasólskin og 25°C og við fengum okkur göngutúr(a) og settumst á hina og þessa bekki í nágrenninu til að hvíla lúin bein . Ég hef "mikinn" áhuga á að kynna Eyjólf fyrir snákunum "vinum mínum" en þeir hafa ekki látið sjá sig þegar Eyjólfur er með mér og nú er ég búin að fatta af hverju, jú Eyjólfur fer aldrei út án gleraugna. Það er einmitt það sem er ólíkt með okkur kærustuparinu að hann fer ekki spönn frá rassi án gleraugna, ég hinsvegar skil mín alls staðar eftir en samt segir augnlæknirinn að hann treysti mér ekki á milli herbergja án þeirra. Eyjólfur vill helst að ég sé með þau því ég verði svo merkileg með mig án þeirra, geng fram hjá vinum og góðum kunningjum án þess að heilsa og það finnst mínum veluppalda og prúða manni ótækt. Ég hins vegar er fyrst núna að uppgötva ágæti þeirra þegar snákarnir sem allt eins gætu verið skröltormar,
sem bíta, forðast mig þegar ég er með þau, ég lít út eins og gleraugnaslanga.
Eitthvað er núna að birta til og við fáum okkur örugglega smá göngu seinnipartinn, við eigum allavega regnföt.
Kæra dagbók okkur er farið að hlakka til föstudagsins því þá er von á litla barninu okkar í heimsókn, litli strákurinn okkar kemur svo í smá heimsókn um mánaðarmótin júní, júlí. Svo það eru spennandi tímar framundan og tengda-/foreldrarnir koma líka í lok júní.
Bestu kveðjur til allra heima og bless kæra dagbók.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2009 | 09:26
Sól, sól skín á mig..
Kæra dagbók hér er sko sól úti, sól inni og sól í sinni .
Í gær var að minnsta kosti 25 stiga hiti og við vorum úti í næstum tvo klukkutíma í gær að vísu fór stór hluti tímans í það hjá Eyjólfi að horfa á mig drekka hvítvínsglas sitjandi í sólahúsgögnunum við Ronald McDonald, hann fékk ekkert, svona er ég nú frek. Ég meina það það var bara til ein lítil flaska!
Í dag er jafnvel hlýrra og ég búin að skokka smá hring bara svona til að gleðja Svíana, það er svo gaman hjá þeim að sjá Íslendinginn skakklappast áfram á skjaldbökuhraða móða og másandi hlustandi á 5. Sinfóníu Beethovens. Ég vona að ónefndir dönskukennarar haldi sér í þjálfun svo ég verði ekki minna en 5 kílómetrum á eftir þeim í næsta 10 kílómetra Reykjavíkur marathoni eða Brúarhlaupi, þær verða að hafa tíma til að panta handa mér hvítvínsglas áður en ég kemst í mark svo áfram dönskukennarar.
Yfirlæknirinn kom áðan og ræddi við Eyjólf á meðan ég var að versla í matinn í kuffulaginu . Hann ræddi ástandið við Eyjólf og var mjög jákvæður, sýkingin sem Eyjólfur fékk í meltingaveginn var mjög slæm og erfið en búið er að koma böndum á hana og eins er öruggt að hin magkveisan er höfnunareinkenni, GVHD, og hann er á lyfjum sem laga það. Það þykir æskilegt að fá örugg höfnunareinkenni en þó ekki of alvarleg.
Við áætlum að komast eitthvað út í dag en veðurspáin gerir ráð fyrir að það verði kalt næstu þrjá dag, fer alvel niður í 13°C svo við verðum að taka fram húfur og vettlinga .
Bless kæra dagbók og takk allir fyrir kveðjurnar, gaman að heyra frá svona mörgum en þið megið nú ekki fórna golfinu fyrir kveðjuskrif .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2009 | 10:34
Aumingja tengdamamma!!
Kæra dagbók nú sé ég það alveg fyrir mér að tengdamamma situr í öngum sínum því klukkan er orðin 10:00 heima og ekkert blogg, hún sem dreif sig á fætur, fyrir allar aldir, til að lesa þessi stórgóðu skrif hjá tengdadótturinni en hvað? Er frúin í Svíþjóð hætt eða löt hvað hefur gerst. Þá er sko komið að mér að kvarta
já já fyrst fer Eyjólfur að geta talað eftir nær tvær vikur í þögn og þá átti maður sko góðar syrpur, ég held hann hafi aldrei talað eins mikið og eftir þögnina. Hvað með mig þá, jú ég get rétt skotið inn eins atkvæðisorðum með löngu, afar löngu millibili. Svo núna þá er hann orðinn svo hress að hann einokar tölvuna, búin að lesa Moggann og ég veit ekki hvað og hvað í morgun. Ég náði að kippa henni til mín þegar hann skrapp á salernið og nú er um að gera að vera snögg
.
Ég varð fyrir yfirnáttúrulegri reynslu í gær nema einhver haldbetri og eðlilegri skýring sé til en þangað til er þetta ótrúlegt . Sem sé í gær sat ég og var að "vafra" á netinu, af því ég hef svo mikið að gera, nema fór inn á bloggsíðuna hann Sigurjóns bróður, redlion og skoðaði þar nokkra tengla og náði að kvarta í hann að það væri enginn tengill á mig en þessi elska var nú fljótur að kippa því í liðinn
! Fór svo að skoða tenglana hans og þar er tengill á Siglufjörð, svo ég fór að skoða, enda hef ég verið að hugsa tölvert norður í fjörðinn fagra og áætla að drífa mig fljótlega í heimsókn. Sé ég ekki mynd á síðunni af honum frænda mínum Jóni Andrjesi þar sem honum var óskað til hamingju með afmælið 19. maí, fleiri myndir voru þarna af ættingjum mínum t.d. ömmu og afa og staurnum sem langafi er á og fleira sem ég á eftir að skoða betur. Þarna uppgötvaði ég að Hinni frændi var bara nokkuð lunkinn við myndavélina. Ýmsar útskýringar fannst mér vanta við myndirnar og sendi Sigurjóni bróður póst um að bæta úr þessu og hana nú. Þá kemur að þessu yfirnáttúrulega: sem ég fer út af Siglufjarðarsíðunni fer ég á bloggið mitt til að athuga hvort einhver elskulegur hafi ekki sent okkur kveðju, nema hvað er ekki þarna kveðja úr firðinum fagra frá Jóni Andrjesi frænda
og ég fer ekki ofan af því að þetta er ótrúleg tilviljun, trúi því ekki að Sigurjón hafi hringt í hann og sagt honum frá nöldrinu í mér og ólíklegt að nöldrið skili sér á korteri, nei ekki allavega frá Sigurjóni!
Allavega bestu kveðjur frá okkur hjónum norður á Siglufjörð og ég man enn textann sem Jón Andrjes söng "Skín við sólu Skagafjörður skí...." já já.
Hér er sól og hiti og við stefnum á smá göngutúr seinna í dag en okkur finnst mjakast í rétta átt og erum ánægð. Bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.5.2009 | 08:58
Þvílík og önnur eins vitleysa í einni frú!!
Kæra dagbók þá er runninn upp sólríkur og heitur sumardagur.
Ég er svo hneyksluð á henni mér að vera að rembast í fitnessinu og verða svo bara þreytt í vöðum á eftir og með vott að strengjum, væri bara ekki betra að hreyfa sig minna og fá bara strengi í kjálkavöðvana. Til að toppa vitleysisganginn hentist frúin á lappir fyrir allar aldir, eða þannig, henti í þvottavélar og skaust út að skokka á þessum líka gífurlega hraða. Ég er viss um að ónefnd kona á leið upp Snæfellsjöku er ekki nema á tvöföldum mínum skokkhraða á uppleiðinni, ég ætla ekki að ræða niðurleiðina. Mér sýnist hún fá gott veður á toppnum, samkvæmt mbl.is, og óska að það sé rétt.
Ekki góðar fréttir af jarðarhristingi heima á fróni, var sá ljóti að fagna eins árs afmælinu, eða voru orð Völvu vikunnar að koma fram. Valvan spáði sterkum jarðskjálfta á suðvesturhorninu í maí, svo má deila um hve sterkur þessi var.
Vona að hún dóttir mín hafi orðið vör við hann, hún er búin að bíða síðan þjóðhátíðarskjálftinn var að finna jarðskkjálfta, mjög spennt. Þá gerði hún þvílíkar ráðstafanir í herberginu sínu eftir fyrsta skjálfann sem var um miðjan dag á 17. júní og við niðri á Víðistaðatúni og að sjálfsögðu varð hún ekki vör við neitt. Næsti skjálfti var um miðnætti, daginn eftir að mig minnir, þann svaf hún af sér og allir minni skjálftar fóru framhjá henni. Fyrir ári var frökenin í vinnunni og skrapp á salernið og einhver var svo óforskammaður að slökkva ljósin! En þegar hún kom fram voru allir að tala um jarðskjálfta og að rafmagnið hefði slegið út. Móðirin fékk áhyggjukast og hringdi þá var mín bara fúl yfir að hafa ekki fundið neitt. Sonurinn hefur hins vegar ekki farið varhluta af jarðskjálftum og stóð í fyrra í búðinni nýbúin að raða vörum í hillur og allt fór af stað.
Hér hins vegar hristast bara vöðvar sem lítið hafa verið notaðir í vetur og má jafna því við 6-7 á ricther .
Eyjólfur er á hægum batavegi og svaf vel í nótt. Við fórum út í sænska skógaloftið í gær og það endaði með samkomu íslensku hvítblæðissjúklinganna og aðstandenda á Karolinska! Þau eru þrjú í meðfer hér núna en við höfum ekkert hist, ein er á sama róli og Eyjólfur, einum degi á undan og þau hafa bæði verið í einangrun sem eðlilegt er, þriðji kom síðasta mánudag og er að hefja ferlið. Það var gott að hittast þarna úti í sólinni og bera saman bækur sína og undrast á tryggingastofnun.
Jæja kæra dagbók þú ættir bara að vita hvað við erum að fá mikið af góðum kveðjum jafnvel frá gamalli skólasystur sem fær örugglega gott veður í dag í golfið og tekur einn aukahring fyrir mig. Annars er víst mjög góð golf aðstaða hér og stutt að fara og vallargjöld með því allra lægst í Evrópu, tékka á því síðar. Bless kæra dagbók
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2009 | 09:15
Framhaldssga!
Kæra dagbók eins og ég nefndi við þig í gær þá var ég að fara að kaupa garn . Ég ætlaði nú ekki að láta einhverja "grumpy" saleswoman vera fúla við mig
. Hún á örugglega ekki elskulegan mann og frábær börn og kemur eflaust frá Svalbarða og á bágt en ég ætlaði samt ekki að láta hennar "frustriasjónir" eyðileggja minn dag, hún hafði ekkert með það að vera svona eigingjörn. Ég náði í orðabókina og æfði mig alla leiðina í lestinni
, það tekur alveg eina og hálfa mínútu (1og1/2 mín) að fara þessa vegalengd. Ég sat í þungum þönkum og æfði setninguna "ni er mycket oartig mod en ljushårig kvinna fra Island" sú skyldi sko fá að heyra það.
Ég hraðaði mér úr lestinni arkaði ákveðnum skrefum að garnabúðinni og snaraðist inn og gékk beint að garninu, tók tvær dokkur og beint að afgreiðsluborðinu. Stendur ekki þarna eldri kona (örugglega tveimur árum eldri en ég) og hún bara brosir fallegu brosi til mín og segir "hej, nu ha vi regn". Ég stóð þarna gjörsamlega óundirbúin og stundi upp "hej"
, sú eldri brosti og sagði "någet annat?" og ég stundi "nej tack" , hvað var eiginlega að gerast! "Så er det attioåtta" og ég "Varsågod og tack så mycket". Ég snaraðist út úr búðinni og var jafnmikið miður mín og þegar "grumpy" hafði afgreitt mig, hvernig gat ég hugsað svona illa til afgreiðslustúlku og svo var þessi broshýra og almennileg kona að afgreiða. Hér með er ég hætt að tuða yfir fúlu afgreiðslu fólki, þar til næst.
Eftir sögulegan gærdag dreif ég mig á lappir í morgun, heldur seint og dreif mig í fitnessið. Þar tók ég bara nokkuð stífa æfingu, að mér fannst veit ekki hvort frú Sigríður einkaþjálfari er sammála en ég varð rennandi blaut og þreytt í vöðvunum. Mér var ekki boðið upp á kaffi en ég fann örugglega kaffilykt svo kannski næst! Það var illa mætt í fitnessið, við vorum tvö, almennilegi Svíinn var á staðnum og bauð góðan daginn og virtist alveg vera búinn að fyrirgefa mér lögguna og slökkvuliðsbílana sem mættu síðast þegar ég hitti hann. Svo ég fór heim sæl og glöð en kaffilaus.
Nú er mættur næringafræðingur til að kenna okkur hvernig fæða er æskileg á næstunni fyrir Eyjólf. Hann er mun sprækari í dag og er komin á lyf til að bæla höfnuna og þau eru þegar farin að virka.
Jæja kæra dagbók þá er að taka til við mataruppskriftirnar og fara að prjóna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.5.2009 | 08:17
Hresskellur!
Kæra dagbók nú er ég sem sé smituð! Ég fór að lesa yfir "fésið" í gær og sá að ótrúlegustu "Hresskellur" voru farnar að sofa yfir sig og "skrópa" í ræktinni, hvað er að gerast þarna á Íslandi. Ég hins vega tók til "fitness" dressið í gærkvöldi svo ég þyrfti nú bara að hoppa í það í morgun og mæta spræk og styrkja "kroppinn". Ég vaknaði klukkan 07:03 hress og til í allt, snéri mér á hina hliðina og þá var klukkan skyndilega orðin 08:15, hvað gerðist er mér hulin ráðgát en vegna reglusemi minnar var þetta of seint fyrir mig í ræktina. Ég sturtaði mig bara og fékk mér vænan morgunverð og var svo heppinn að hitta á frænku Emils í Kattholti svo við snæddum saman og böbbluðum á ensk-sænsku, það var hressandi og ekki síðra en ræktin.
Úti er helli rigning og logn alveg frábært veður til að fara út að labba í pollagallanum því það er vel hlýtt um 15-16°C. Reyndar ætla ég að ferðast aðeins á eftir því mig er farið að vanta garn. Ég ætla í Huddinge-center og hitta "Grumpy old saleswoman", hún selur úrvals garn. Hún fór á námskeið áður en hún gerðist garnsölukona, námskeiðið fólst í því að læra að vera fúl og örg sölukona, hún stóðst námskeiðið með prýði og útskrifaðist með bókaverðlaun og í bókinni kemur fram hvernig hún getur viðhaldið þekkingunni. Ég get vottað það að hún stendur sig með stakri prýði og leggur sig í líma við að vera óalmennileg við ljóshærðan kvenmann frá Íslandi sem kann ekkert í sænskri tungu, hún neitar að tala ensku en sem betur fer er allt í lagi með hendurnar á þessari íslensku ljósku.
Læknirinn hún Susan var að tala við okkur áðan og sagði okkur að Eyjólfur væri komin með GVHD eða höfnunar einkenni. Þau geta komið fram á ýmsum stöðum í líkamanu meðal annars í meltingarveginum, og að sjálfsögðu fékk Eyjólfur einkennin þar því hann fékk sýkingu á niðurbrotstímanum í meltingarveginn. Þetta er meðhöndlað með lyfjum og tekur einhvern tíma þar til honum fer að líða betur og svo fer næringafræðingur í gegnum mataræðið með okkur en það þarf að passa á með þetta gengur yfir. Blóðprufurnar koma mjög vel út og allt í góðum gangi þar.
Bless kæra dagbók þá fer ég að undirbúa mig undir að hitta "vinkonu" mína í garnabúðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar