27.5.2009 | 08:31
Það er skýjað!
Kæra dagbók þá er að greina þeir frá stöðunni! Eins og þú veist áætlaði ég að "fitnessa" mig í morgun en þar sem mig dreymdi Hrönn Bergþórsdóttur í alla nótt. Hún hafði svo mikið að gera í draumnum og var samt að hlaupa, sem sé að bjarga heiminum á meðan hún var að hlaupa svo ég ákvað að taka smá skokkhring í morgun. Snákarnir (ekki sniglar)héldu sér í hæfilegri fjarlægð svo skokkið gékk átakalaust fyrir sig ef það er átakalaust að skakklappast lafmóður um dúkkuhúsahverfi stórborga. Ég steingleymdi Flensborgartröppunum (skrítið) þó fannst mér ég hafa unnið kraftaverk þegar ég stóð í sturtunni eftir hlaupin.
Ég er afar kyssuleg núna með frunsu á innanverðri neðri vör og enn stærri á efrivörinni og afsaka letina, að hún sé afleiðing frunsanna. það er svo gott að geta afsakað sig.
Við sitjum hér kærustuparið annað að lesa Eric Clapton og hitt að blogga og höfum það ágætt. Við bíðum eftir frekari fréttum af því hvað er næst á dagskrá hjá Eyjólfi.
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur til allra heima á Ísalandinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2009 | 08:42
Í sól og sumaryl...
Góðan daginn kæra dagbók! Hér er sól og sumarylur og frú Rannveig skellti sér bara í góðan klukkutíma göngutúr í morgun, var ekki tilbúin í skokkið, klikkaði eitthvað á asmalyfjunum í Íslandsförinni. Verð komin á skokkið innan skamms.
Ég gékk út í þeirri góðu trú að snákar héldu sig í vari í sól og hita, nei nei blasti ekki við mér á miðjum göngustíg þessi líka bígsperrti snákur með ótrúlega stórann kjaft. Hann glotti þarna á miðjum stígnum svo ég fór að velta því fyrir mér hvorum megin ég ætti að fara fram úr. Ég stóð þarna með sólgleraugun og horfði á kvikendið en þá virtist renna upp fyrir snáknum að hann ætti ekkert í gleraugnaslöngu svo hann snaraðist út af og ég hélt áfram alsæl á minni morgungöngu.
Eyjólfur er orðinn nokkuð góður í munninum og kokinu og á ekkert erfitt með mál hvernig ætli fari þá fyrir mér. Í dag á að athuga hvernig meltingavegurinn hefur farið í þessum sýkingum og síðan getum við farið að láta okkur hlakka til að flytja í ibúð og koma bara í styttri heimsóknir hér á spítalann til eftirlits og eins vegna höfnunar sem gera má ráð fyrir en þær þurfa ekki að vera miklar, einhverjar eru þó æskilegar.
Ég bíð eftir að fá sendar myndir frá útskriftinni og veislunni til að setja inn á bloggið en ég tók ekki nema 3 myndir sem ég set inn hér á eftir.
Bless kæra dagbók nú er bara að fara að hugleiða og undirbúa að komast í fitnessið á morgun og hitta alla "skemmtilegu" karlana sem eru svo óskaplega broshýrir í morgunsárið og konuna sem aldrei býður mér upp á kaffi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2009 | 08:44
Rétt nafn á bloggi!
Kæra dagbók þá er ég bara vöknuð, svaf vel og lengur en vanalega enda þreytt, hafðí engan tíma til að sofa á Íslandi.
Úti er glaða sólskin og 18°C sem er mjög gott, við ætlum að reyna að skoða aðeins góða veðrið í dag.
Ein indæl ung kona sem oft færir mér kaffi kom hér inn áðan til að skipta á rúminu og sagði svona í framhjáhlaupi við mig "voða var það sætt af þér að ætla að koma með hjólastólinn hans Johns". Nei Rannveig-gamla hafði gjörsamlega alveg gleymt stólnum , ég hafði semsé lofað þegar ég fór til Íslands að þegar ég kæmi aftur ætlaði ég skila hjólastól sem "íslensk" hjón höfðu verið með í láni en þau voru mér samferða til Íslands. Ég hafði gjörsamlega gleymt stólnum en svaraði með þessu líka indæla brosi "já ég kem með hann eftir hádegi"
Kæra dagbók ég er þreytt í dag og hef því ekkert verið að reyna á vel varðveittan vöðvaforða en "koma dagar koma ráð, segir máltækið.... "já já, ég segi bara bless og bestu kveðjur í rigninguna og það verður betra veður hjá ykkur á morgun, ég ætla að fara að horfa til himins því ég á von á fallhlífastökkvara hér á eftir
.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2009 | 17:30
Svíþjóð ídag!
Kæra dagbók þá er ég bara mætt í Svíþjóð eftir gott flug og enn betra skutl á "Leif Eiríksson", sætahitarar eru lífsnauðsynlegir í bíla.
Dagurinn í gær gékk mjög vel, allir boðnir og búnir til aðstoðar, útskriftarathöfnin var löng en ekki verið að eyða tímanum í kjaftæði. Við Vigfús sáum/heyrðum að Rektor og Konrektor við MH þurfa mun minna að tala en Skólameistari og Aðstoðarskólameistari vð Flensborarskóla. Núna útskrifuðust 153 nemendur úr MH en okkur til þæginda var ein ung stúlka sem tók að sér nær öll námsverðlaunin svo afhendingin tók mun skemmri tíma en ef fleiri hefðu verið um hitunina, takk kærlega. Dúx MH var með meðaleinkunnina 9.93 og tók yfir 220 einingar á 4 árum, semsé fjórar níur og restin tíur og aldrei betri námsárangur í sögu skólans.
Inga María stóð sig mjög vel og var glæsileg að vanda og veisla fór vel fram, engin slagsmál brutust út, húsnæðið frábært og ótrúlegt hvað vel rúmaðist. Huldar útbjó DVD disk úr upptökum úr veislunni og frá athöfninni og það vorum við Eyjólfur að skoða eftir að ég lenti í dag, frábært.
Áðan kom íslenski hjúkrunarfræðingurinn "okkar" inn og lét okkur í té nýustu tölur úr blóð "kjördæminu" og þær eru sérdeilis góðar og henni fannst þetta svo flott að það var eins og hún væri að færa okkur gullpottinn og þetta er það reyndar í okkar huga.
Núna ætla ég að fara að pússa sólgleraugun því að á morgun þarf ég að líta til himins til að sjá fallhlífarstökkvarann svífa hér til jarðar því ég veit að ónefnd vinkona á eftir að sjá að sér og hoppa úr fluvélinn á leið til Finnlands, enda ég meina hvað hefur Finnland að bjóða sem ég hef ekki, ekkert.
Við sendum okkar bestu kveðjur til allra og takk fyrir alla frábæru hjálpina. "Gamla" samstarfsfólkið mitt í Setbergsskóla fær sérstakar kveðjur og þakklæti frá okkur hjónum
Nú er mín bar orðinn þreytt og segi því bless bless kæra dagbók!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.5.2009 | 08:21
Ísland í dag!
Kæra dagbók þá er frúin bara að þvælast á Íslandi þar til í fyrramálið. Hér eru mætar kjarnorku stúlkur og ætlað að útbúa sushi á meðan við mæðgur förum í klippingu, lúksusgellur. Allt er að verða tilbúið fyrir veisluna þökk sé vinum og ættingjum og svo náttúrulega Inga Maríu.
Úlistun á athöfn dagsins og veislunni verður á morgun en ég talaði við Eyjólf á skype-inu í gærkvöldi, ég var þá heima hjá tengdaforeldrunum svo að Eyjólfur yrði þeirrar gleði aðnjótandi að sjá sína .
Hann var orðinn betri í munninum og koki þannig að greiðlega gékk að tala. Hann er kominn úr einangrun en verður samt að fara varlega.
Jæja þá er það klippinginn bless bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2009 | 07:34
Flugdagur.
Kæra dagbók þá er min bara að fara að yfirgefa eiginmanninn í tvo sólahringa, það er ekki fallegt! Ég ætla að vera fulltrúi okkar beggja, tveggja manna maki ekkert mál.
Skrítið bæði litlu börni verða sem sé orðnir stúdentar á morgun og þá hendi ég þeim að sjálfsögðu að heiman, geta séð um sig sjálf, reyndar gera þau það nú þegar og gengur mjög vel, duglegir ungar
Vigfús Almar útskrifaðist rétt eftir að pabbinn greindist í desember og var reyndar í prófum þá en stóð sig vel. Þá var smá gleiði og pabbinn komst aðeins heim í köku en ekki mikil veisla en góð. Inga María hefur alveg haldið sínu striki þrátt fyrir álagið sem á henni hefur verið og klára stúdentinn á þremur árum, "sem er mjög gott" og við ætlum að blása til veislu. Ég geri náttúrulega ekkert nema fara í klippingu er búin að fá frábært fólk til að aðstoða og sendi nöfnu hennar með hana í bæinn að finna kjól, það gékk víst mjög vel og amman segist enn vera við hestaheilsu, ég á reyndar eftir að sjá útkomuna já bæði á ömmunni og kjólnum
Eyjólfur er fremur slappur eftir erfiði síðustu vikna en öll gildi í blóðinu rjúka upp, við og hjúkrunarfólkið erum mjög ánægð með það. Hann ætti að ná góðri hvíld næstu tvo sólahringana Ég hlakka til að hitta alla, næstum, þegar ég kem heim og ég veit að hugur Eyjólfs verður með mér.
Bless bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2009 | 09:00
Stängd!
Kæra dagbók þá er ég, eins og þú veist þekkt fyrir að vera yfirveguð og skoða hlutina vel. æða aldrei út í óvissuna, vera með allt á hreinu/tæru. Í morgun komu nú Svíarnir mér á óvart ja hérna! Ég var búin að gefa út þá yfirlýsingu í gær að í dag væri það fitness og nú skyldi tekið á því burt með bíngóvöðvana, báðum meginn! Fram úr rétt fyrir sjö, hljóp niður til að ná þvottavélinni og öllum handklæðum og nærfötum hent inn, prógrammið sett á og ég hafði 68 mínútur til að nota í ræktina. Hentist af stað, vá rosalega fáir á ferli hér um bil enginn, einn einmana karlmaður á leið í lestina og ég var bara korteri fyrr á ferðinni en vanalega, rosalegur munur, vanalega krökt af fólki á leið úr og í lestina rétt fyrir hálf átta. Jæja sveif inn á lestarstöðína með stæl og að innganginum að fitnessinu en hurðinn var eitthvað svo stíf, bíddu við miði á glerinu "Stängt Kristi himmelsfärdsdag" "WHAT"
! Maður er nú orðinn svo klár í sænsku að maður náði því alveg að það væri lokað vegna Uppstigningadags sem er væntanlega líka á Íslandi núna! Var Jón líka með lokað? Er ég svona heiðin eða er þetta hin velþekkta flótfærni, allavega núna veit ég að það er Uppsigningadagur og um þar næstu helgi er þá Hvítasunnan en ég verð örugglega búin að gleyma því þá, skrítið ég sem mundi alltaf eftir öllum frídögum og auka frídögum þegar égvar að kenna.
Ég ákvað að fá mér smá, oggolitla, göngu í staðinn en af því að ég var búin að ákveða að fara í fitnessið þá gat ég náttúrulega ekki farið að skokka! Fór í staðinn heim og lakkaði á mér táneglurnar!
Það hefur verið lúksus hjá mér síðustu þrjá daga og lítur út fyrir að sá fjórði sé runninn upp. Eyjólfur á nefnilega erfitt með að tala vegna særinda í munni og koki svo að ég get látið dæluna ganga allan daginn (nú held ég að Garðar öfundi mig) og svo spyr ég Eyjólf um hitt og þetta og passa mig vel á því að ekki sé hægt að svara með eins atkvæða orði. Eyjólfur er reyndar þekktur fyrir þolinmæði eins og alþjóð veit og því er enn allt í fína lagi á sjúkrastofunni og svo fer ég heim í tvo daga!
Eitt verð ég að nefna sem ég er virkilega ósátt við Alla daga er verið að halda hitaeiningum að Eyjólfi og passa upp á að hann léttist ekki. Ég man nú bara aldrei eftir þessu með mig, ekki frá blautu barnsbeini, ekki þegar ég át allt brauðið upp í sumarbústað hjá Stebbu og það þurfti að fara í bæinn og kaupa meira svo aðrir fengju líka að borða. Mamma talaði jú um að það hefði verið svo gaman að gefa mér að borða því ég át allt, já allt. Hún var náttúrulega búin að reyna að troða í þrjá stráka áður og þurfti ýmist að leika matinn ofan í þá eða ljúga hann niður og segja að þetta væru kótilettur frá hinu og þessu landinu og sá þriðju ældi öllu upp. Sjáið líka hvernig þeir líta út í dag, ég er ríkust af þeim, á mestan varaforða ef það kemur hungursneyð á vestulöndum og hlít þá að lifa lengst.
Jæja kæra dagbók var ekki ein yndisleg að færa mér kaffi svo ég segi bless og ég vona að allir verði áfram svona duglegir að senda okkur kveðjur.
Tókuð þið eftir hvað ég er orðin klár í broskörlunum, tengdamamma getur þetta svo ég varð að reyna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.5.2009 | 10:25
Það er þetta með fyrirsagnirnar..
Kæra dagbók frábærar fréttir í dag, vart var við hvít blóðkorn í blóðprufum í dag svo nú fara þær að fjölga sér, húrra!! Þetta er fyrr en ég átti von á en samt á réttum og góðum tíma segja læknarnir. Nú fer honum að líða betur en það er samt alltaf búist við einhverri höfnun og það er æskilegra að fá einhverja en þó ekki mikla, þetta getur gerst á næstu dögum eða mánuðum. Þetta er ástæðan fyrir því að við þurfum að vera fram yfir miðjan ágúst hér.
Nú er það ég; ég skokkaði í morgun en hélt mig frá skógargöngustígum vegna andúðar minnar á litlum sætum snákum. Svo fann ég "Flensborgartröppurnar" og hljóp upp þær þrisvar, það er upp gékk niður, upp gékk niður, upp og gékk göngustíginn í gegnum skóginn heim, búin að hlaupa frá mér allt vit því ég mundi ekkert eftir "jevla" snákunum.
Í dag er mjög hlýtt úti en ekki mikil sól, gott göngutúara veður.
Smá viðbót; ég þurfti að skreppa yfir á Ronald áðan og setti upp sólgleraugu vegna sólar og hvað gerist enginn snákur að flækjast fyrir. Þeir héldu nefnilega að ég væri gleraugnaslanga og voru sjálfir bara drulluhræddir, hér eftir verða allir skógagöngustígar farnir með gleraugun á nefinu, meira að segja skokkandi.
Bless kæra dagbók!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.5.2009 | 09:59
Þriðjudagur til þrautar! (minnar).
Kæra dagbók hafði það af að mæta í Fitnessið í morgun og kláraði prógrammið, skokkaði síðan heim í sturtu. Heima er á Ronald McDonald en þar var fullt hús af ungi fólki með tuskur á lofti og bros á vör. Þetta eru sjálfboðaliðar, vinir Ronalds McDonalds hússins og tengjast líka eitthvað McDonald veitingastaðnum, fékk útskýring á sænsku og samkvæmt mínum skilningi eru einhverjir sjálfboðaliðanna starfsmenn þar. Allavega þá er ég alltaf að kynnast því að það er fullt af fólki sem er að gera hin ýmsu góðverk í kringum starfsemin á Ronald McDonald. Þetta finnst mér frábært og manni hlínar nú bara um freðnar hjartarætur. Fyrir nú utan allt fólkið sem er tilbúið til að láta stinga sig með nálum og trufla sig í hinu daglega lífi til að gefa stofnfrumur, hvar er sá sem sagði "heimur versnandi fer" hann þyrfti að koma hingað.
Ég sá flottasta snigil sem ég hef á ævi minni séð í morgun rétt fyrir utan húsið hjá mér. Hann var ljósgrænn og angarnir út úr höfðinu sáust mjög vel og svo var hann með þetta stórglæsilega einbýlishús á bakinu. Nei ég var ekki með myndavélina, ætla að láta sauma hana við mig hér á skurðstofunni.
Eyjólfur er svipaður og í gær en ég er sko löngu búin að sjá að það er eins gott að ég er hér, það kemur hver á fætur annarri elskulegri þokkadísin og snýst í kringum hann.
Nú fer að styttast í að ég komi heim til að vera við útskrift litlu dúllunnar okkar. Þessa stundina er hún að útkeyra ömmu sína og nöfnu við kjólaskoðun ég vona bara að þær stoppi á Grænum kosti eða einhverjum viðlíka stað sér til hressingar og svo hlakka ég bara til að sjá útkomuna.
Bless bless kæra dagbók!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2009 | 09:16
Mánudagur!
Kæra dagbók þá er það letidagurinn hjá mér. Nennti ekki í fitnessið en fór í kuffulagið að versla í matinn, mér fannst það bara nokkuð góð hreyfing, álíka vegalengd og í Fjarðarkaup heiman frá mér. Ég er alltaf að hneykslast á verðlaginu hér, gosvatn án bragðefna 1/2 líter, kostar frá 17 -19 sænskum krónum sem eru svona 260-280 íslenskar krónur, það er í sjoppunni. Í kuffulaginu kostar það hinsvegar um 160-180 íslenskar krónur. Paprikur eru miklu dýrari en mjólkurvörur eru á svipuðu verði þó virðast ostar vera aðeins ódýrari. Hins vegar fór ég í nokkrar búðir fyrir afmælið hans Eyjólfs og sá að bækur eru minna skattlagðar hér eða 6% skattur en mér fannst þær ekkert ódýrari. Í H&M var verðlagið á fötum hins vegar ásættanlegt og ódýrar en heima eins var í Intersport. Ég er að verða að nískupúka og er þá fokið í flest skjól. Lausnin er sem sé sú að hætta að éta og kaupa föt og íþróttavöru þá er ég í gróða.
Við hjónin fórum í göngutúr í gær í góða veðrinu. Það var mjög góður göngutúr, gengum mjög hægt í skóginum og fylgdumst með dýrunum og þá sérstaklega vinunum hennar Mæju okkar, maurunum. Við gengum örlítið líka um hverfið sem er aftan við sjúkrahúsið en það er mjög skemmtileg, flest húsin fremur lítil og lóðirnar vel hirtar. Hverfið er nýtt og hefur eflaust verið sumarhúsahverfi áður því inn á milli eru litlir gamlir sumarbústaðir líkt og þeir sem eru í Sléttuhlíð.
Allt hefur sinn vanagang hjá Eyjólfi, hann er með í maganum og aumuru í allri slímhúðinni og þá líka í munninum eins og á að vera en þetta fer allta að lagast á næstunni. Við getum búist við að hvítu blóðkornin fari að koma fram um næstu helgi og þá fer hann að hressast.
Við biðjum voða vel að heilsa heim, við erum alltaf að fá svo góðar kveðjur og heilu bréfin frá vinum og ættingjum og það finnst okkur alveg rosalega skemmtileg og það er líka svo gott og hressandi.
Þá kveð ég kæra dagbók þar til næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 1091
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar