Sunnudagur með rentu!

Kæra dagbók þá er það sunnudagur sem stendur undir nafni, sól í heiði. Hún ég bara skokkaði helling í  morgunsólinni alveg örugglega meira en síðast. Hérinn beið tilbúinn þegar ég kom út en hann lagði ekki í mig, sá hvað ég var fersk og hann hljóp í hina áttina. Stóru fréttirnar eru þær að ég rataði heim.

Hélt yfir til Eyjólfs nýmáluð og glæsileg eftir því og vopnuð myndavél. Tveir íkornar sátu á göngustígnum og "dáðust" að mér, ég tók upp myndavélina en þá stukku þeir í burtu. Ég fór út af göngustígnum til að ná þeim á mynd, þrátt fyrir snákinn í gær, en því miður þeir eru svo snöggir. Ég gæti sett myndirnar á bloggsíðuna og textinn undir þeim væri þá eitthvað á þessa leið "hér var íkorni en hann er horfinn".

Við fylgdumst með "júróvision" í gærkvöldi og vorum sammála um að Jflutningur Jóhönnu Guðrúnar hafi verið með miklum sóma (hún syngur örugglega svona vel af því ég kenndi henni ensku) hins vegar fannst okkur lagið ekkert spes. Glæsilegur árangur og heppin erum við að kvenlegi hluti mannfólks eru aðalkjósendur í keppninni þannig að norski súkkulaði strákurinn lenti í fyrsta þó að honum veitti nú ekki af tilsögn í söng, kannski að hann hafi efni á því eftir þetta. Mér finnst nú þessi gríski, gríska goðið, miklui föngulegri, verst að ég man ekkert eftir laginu hans. Sem sé tvöfalt hjá Norðmönnum í dag, þjóðhátíðardagur og 1. sæti í Eurovision.

Líðan Eyjólfs er eins og okkar var sagt að yrði, hvorki betri né verri þannig að þetta er enn allt eftir bókinni og það er mjög gott.

Þá er það bara bless kæra dagbók.

 


Krækjudýr í Svíþjóð!

Kæra dagbók þá er kominn laugardagur og sól og hiti eins og í Hafnarfirði núna. Ég fékk mér góðan göngutúr og hlustaði á fuglasöng á meðan þvottavélin þvoði af rúmunum fyrir mig. Ég tók myndavélina með mér til að mynda fugla en aldrei þessu vant þá flúðu þeir mig, ég er ekki að skrögva þegar ég segi að undanfarna daga hafa þeir staðið kyrrir og horft á mig! Síðan sat ég í korter í sólinni sem var æðislegt.

Þegar ég gékk svo yfir til Eyjólfs þá stóðu fuglarnir kyrrir og horfðu á mig en engin myndavél. Eftir smá labb sá ég rosa "laxamaðk" á göngustígnum og fór að horfa á þennan rosa orm þegar hann tók að hreyfa sig uppgötvaði ég að þetta var snákur með kjaft. Ég öskraði ekki en hefði alveg verið sátt við að hitta hann ekki, svo nú veist þú það kæra dagbók, það eru krækjudýr í Svíþjóð, verst að ég tók ekki stígvél með Svíþjóðar þá hefði kannski verið snákur í stígvélinu mínu.

Heilsufarið er svipað hjá Eyjólfi, aðeins farinn að finna fyrir eymslum í hálsi en henn hefur verið spurður að því síðustu daga því það er eitthvað sem kemur á þessu tímabili.

Nú er bara að skella sér í kuffulagið og kaupa snakk og nammi fyrir kvöldið því auðvitað horfum við á "júróvision" og höldum með Jóhönnu Guðrúnu og klöppum líka fyri Svíum. Við heyrðum af því að menn væru með áhyggjur heima yfir kostnaðinum við að halda slíka keppni og mönnum létti þegar einhver spekingurinn sagði að til væri í dæminu og ríkari þjóðir tækju okið af þeim sem illa væri statt fyrir. Við getum rætt þetta við Bretana þó að Páli Óskari hafi dottið Færeyingar í hug.

Þá kveð ég kæra dagbók.

 

 

 


Sól, sól skín á mig!

Kæra dagbók nú er sko sól en það var svolítið kalt þegar ég fór í "fitnessið " í morgun en er að hlýna.

Ég er eini kvenmaðurinn sem mæti á morgnana, (opna reyndar ekki fyrr en kl.07:00) hinir gestirnir eru óbroshýrir karlmenn eins og mæta í Hress á milli fimm og sjö á daginn, sem sé stunur og lóðaskellingar. Í morgun var þó einn broshýr og elskulegur, sem ég hjálpaði að stilla hjólið því hinir alvarlegu gátu ekki sleppt lóðunum, hefðu ruglast í talningu. Þessi broshýri var um sjötugt og skellti engum lóðuum æfði bara jafnt og þétt og brosti þar til allt fylltist fyrir utan af slökkviliðsbílum, tækjabílum, lögreglubílum og hvað þetta nú allt heitir og allir blikkandi bláum ljósum. Hann leit á mig og ég sá að hann hugsaði já þetta er sú seka, lítur út eins og Svíi en talar ensku, grunsamlegt. Ég forðaði mér hið snarasta enda búin með prógrammið. Þegar ég kom niður, en ræktinn er á efrihæðinni í lestarsöðinn, sá ég tilkynningu um lestaróhapp sunnar á teiunum, hef ekki nánari fréttir af því.

Þegar ég var búin í sturtu eyddi ég dágóðum tíma í að blása hárið og mála mig til að vera hugguleg þegar ég færi að hitta föngulega manninn á sjúkrahúsinu. Fór í gallabuxurnar og spennti belti, yes mín bara orðin svona grönn eftir öll hlaupin, beltið bara vítt, yes, yes. Skondraði lengri leiðin á sjúkrahúsið til að sýna mig og kom alsæl ti Eyjólfs en leit í spegil, hárgreiðsla sem hefði sómt Grýlu vel fokin og úfin en maskarinn hafði þó ekki fokið af. Svo þegar nánar var að gáð kom í ljós að ég hafði sett í vitlaust gat á beltinu, hafði ekkert grennst, æ æ. Þetta var samt yndislegur hálftími!

Í dag er vika frá því að Eyjólfur fékk þýsku stofnfrumurnar og allt gengur eins og á að ganga ekkert í raun óeðlilegt en þetta er töff.

Við fengum fullt af frábærum keðjum í gær og okkur fannst það æðislegt svo er það bara Eurovision-skál til ykkar!

Bless kæra dagbók.


Hann á afmæli í dag, hann.....

Kæra dagbók þá er runninn upp afmælisdagur Eyjólfs, 48 ára, hann er búinn að ná mér!

Ég náttúrulega vakti athygli þegar ég mætti hér á spítalann í morgun, með tvo sænska snúða með sitthvoru kertinu í,  fjóra og átta. Það hefur verið stríður straumur af starfsfólkinu að óska Eyjólfi til hamingju með daginn, voða gaman. Ég náði að kaupa smá pakka þegar ég fór í gær að versla garn og það kom mjög skemmtilega á óvart.

Ég fór út á skokkið í morgun og snigillinn tók ekki sensinn á að keppa við mig svo að ég hljóp ein alveg nýja leið og komst til baka á tilætluðum tíma enda notaði ég sólina núna.

Þegar ég var búin að sturta mig og setja í þvottavél, ég er nefnilega svoooo myndarleg, fór ég að fá mér morgunverð og eru ekki sænsku systurnar mættar og buðu mér upp á kaffi. Himneskt sterkt kaffi ekkert sull. Það kom líka í ljós að þær eru í ætt við Emil nokkurn í Kattholti allavega aldar upp og búa í Smálöndum og eru ekki allir skyldir honum þar. Ég sló nú bar um mig á sænsku þar sem sú eldri talar ekki ensku. Við ræddum um Astrid Lindgren og þeim þótti nú bara nokkuð merkilegt að ég hefði lesið bækur hennar þegar ég var krakki, var ekkert að segja þeim að gerði það líka eftir að ég varð fullorðin og fylgdist vel með þáttunum um Emil og fór á leikritð með Ronju eftir að ég varð fullorðninn.

Kæra dagbók ekki meira frá mér í bili.


Engar fréttir!

Kæra dagbók runninn er upp miðvikudagur! Fitnessaði mig í morgun og ekkert kaffi, hvar endar þetta. Það er mjög fallegt veður úti en maður er orðinn svo heimtufrekur að manni finnst ekki nógu heitt.

Ég ætla að skreppa á eftir með lestinni í Huddinge-center og kaupa almennilegt garn, hef ekki nennt en nú verð ég því hitt er búið og ég er með "njálg".

Þegar við fórum í gær í hressingargönguna (voða stuttu)  þá sáum við að allur gróður er kominn mun meira af stað en þegar við komum og það er búið að setja niður fullt af sumarblómum. Allir voða duglegir að vinna í görðunum sínum hér það gleður okkar augu að sjá falleg blóm svo ekki sé talað um blómstrandi tré.

Eyjólfur er svipaður en mjög duglegur að gera það sem ætlast er til af honum og að fara út sem á að vera mjög gott.

Jæja kæra dagbók á morgun verða kannski fréttir af garninnkaupaferðinni, sem ég vona þó að verði ekki söguleg. Aftur og aftur takk fyrir allar góðu kveðjurnar að heiman og hafið það sem allra best í góða veðrinu sem verið er að spá, og kemur, fínt að fara út að skokka.

Bless bless kæra dagbók.


McDonald!

Kæra dagbók ég ætla að byrja á að leiðrétta gamla rangfærslu, Ronald McDonald er eins og allir vita, nema einhver Svíi, trúðurinn á McDonald skyndibitastöðunum eins og reyndar Vigfús var búin að segja mér í upphafi. Annað hvort er ég svona léleg í ensku eða einhver sænskur karlmaður sem vildi ólmur leiðrétta mig með minn misskilning á því hver Ronald væri, hann vildi meina að þetta væri trúðurinn í Simson. Ég asnaðist til að taka mark á þessum besservisser sem vissi sko betur en ljóskan frá Íslandi sem var þar að auki frá Hafnarfirði. Mikið var ég samt, já eiginlega hneyksluð á því að verið væri að nefna húsið eftir þessum klikkaða trúði í Simson en Svíinn fullyrti að það væri vegna þess að börnum þætti hann mun skemmtilegri en McDonalds trúðurinn ég reyndi þó að rökstyðja mitt mál með því að segjast hafa haldið að McDonald´s hefði styrkt húsið, þetta fannst Svíanum bara fyndið og sagði að allt væri á kostnað ríkisins. Þar sem allir í fjölskyldunni hafa mun meiri sans fyrir teiknimyndum og leikurum en ég sem er heft á því sviði man aldrei hvað bíómyndir heita eða leikarar, nema George Cloony, Bandera og Brad Pitt, hvað þá að ég muni hvort ég hafi séð þessa eða hina myndina. Sem sé tveir ættingjar, systkynabörn, voru fljót að senda mér inn leiðréttingu en því miður var Besservisserinn farinn, ég hefði sko látið hann heyra það, enda búin að fá staðfestingu á framlögum McDonalds frá umsjónarmönnum hússins.

Fínt veður í morgun veðurfréttamönnum (ekki veðurfræðingum) fer fram, svo ég skellti mér í skokkið, hraðinn gífurlegur, fór fram úr snigli en hérinn hljóp upp á hól. Nú væri gott að það væri 2007 því þá hefðu dönskukennararnir bara skellt sér í hring með mér til að tékka á hraðanum og utanvegarhlaupakonan (vá) gæti hlaupið hér um allt með garminn sinn, gæfi reyndar ekki í annað að fenginni eigin reynslu. Huldar er búinn að fá  liðsstyrk svo ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að þurfa að keppa við dönskukennarana!

Ég var vel sveitt eftir hlaupinn í morgun (má náttúrulega ekki hugsa um hreyfingu þá svitna ég), fór beint í sturtu og niður til að taka til morgunmat fyrir mig en hvað er ekki tilbúinn morgunmatur fyrir alla í boði. Hver bauð? Nú engin annar en  McDonald´s. Morgunmaturinn var vel útilátinn og ferskur.

Kæra dagbók þetta fer nú að verða svolítið löng þvæla en Eyjólfur er enn slæmur í meltingunni og núna er hann "penískur" það er varnarkerfið farið, eins og á að vera, og hann er útsettur fyrir öllum síkingum jafnvel bakteríum sem lifa á húðinni, vanalega í sátt og samlyndi við hýsilinn. Þannig að við gerum ráð fyrir að hann fái einhvern hita næstu daga sem er eðlilegt í þessu ferli en ekki gaman!

Bless kæra dagbók og takk fyrir góðar kveðjur  og endilega haldið áfram að skokka!!!!

 


Sigga Storm til Stokkhólms!

Kæra dagbók hér sit ég upp á sjúkrahúsi hjá Eyjólfi og er rétt að þorna, já þorna ekki vegna drykkju nei; blotnaði í rigningu. Ég var þetta litla ánægð með veðurspána: sól, smá ský, 16°C og 3-4 m/sek, fínt göngutúra veður og nú ætlaði frúin að taka lestina á næstu stoppustöð, Huddinge-center. Þar eru nokkrar verslanir og var ég búin að "spotta" garnverslun og hugðist kaupa almennilegt garn ekki eitthvað 100% acryl eins og fæst í kuffulaginu og ég hef verið að hekla úr. Ég veita að hann Siggi stormur hefði nú staðið við sína spá ekkert verið að lofa einhverri sælu og standa svo ekki við það, hvað er þetta eiginlega með sænska veðurfréttamenn vita þeir ekki að það á ekki að lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við og hana nú, koma svo með sólina!!

Ég "fitnessaði" svolítið í morgun var mætt rúmlega 07:00 að staðartíma, 05:00 á Greenwitch tíma (íslenskur tími). Svíarnir í þessu hverfi (mikið innflytenda hverfi) eru sko ekkert að mæta svona á næturnar, ég átti staðinn og starfsstúlkan þreif bara á meðan en bauð ekki upp á kafffi, hvað er eiginlega að veit hún ekki að ég mæti í ræktina/fitnessið til að fá sterkt kaffi. Ég gæti alveg talað við hana líka sagt henni nokkrar slúðrur frá Íslandi (fann gamalt Séð og heyrt hér á sjúkrahúsinu), nei henni er nær má ég þá biðja um Ástu mína eða hana Ednu mína takk fyrir.

Eyjólfur er eitthvað hressari í maganum í dag og er að lesa "Moggann" sem heitir hér "Stockholm city" rosaleg sænskt eitthvað. Okkur fer fram dag frá degi í sænskunni og getum ekki bara beðið um hvítvín, kók og kaffi heldur líka ristað brauð með marmelaði og svo getum við líka þakkað fyrir okkur á sænsku, þvílík málaséní sem við hjónin erum.

Jæja kæra dagbók þá vil fara að fá þessa sól sem mér var lofað því mikið er mig farið að vanta garnið! Bless í bili.


Hvíldardagur!

Kæra dagbók þá er sól og sæla úti en ég var ekkert að leggja það á mig að fara út að skokka í morgun fór þess í stað í góðan göngutúr og kom við í kuffulaginu og verslaði í gogginn. Það var vís kona sem sagði mér að mikil hreyfing borgaði sig ekki, samanber skjaldbakan "ekki hreyfir hún sig mikið samt verður hún 200 ára".

Ég tók nokkrar myndir á leiðinni hingað yfir á sjúkrahúsið og var að setja þær inn, veðrið er að vísu betra núna en fyrir klukkutíma. Ég tók engar myndir úr sameiginlegu aðstöðunni í húsinu en hún er líka mjög fín.

Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að hann mágur minn hlaupi úti alla daga og mér er mikið létt því með þessu áframhaldi þá næ ég aldrei dönskukennurunum og er því komin með "plan B" Huldar nær dönskukennurunum og fer fram úr ég bíð svo á marklínunni með drykki, frábært!

Eyjólfur er ekki orðinn góður í maganum en kannski kemst hann aðeins út seinni partinn, það er svo hressandi.

Jæja kæra dagbók bless þar til næst.

 

 


Annar dagur!

Kæra dagbók þá upprunninn laugardagur. Stofnfrumurnar runnu vel inn hjá Eyjólfi í gær og hjúkrunarkonan, Sigrún sem er íslensk, var hjá okkur allan tímann orðaði þetta svo "ykkur kemur svona vel saman, þér og þjóðverjanum". Mjög algengt er að stoppa þurfi í gjöf og gefa stera eða bælandi lyf vegna þess að einhver ofnæmisviðbrögð koma fram en þetta bara rann inn og ekkert mál. Það var mjög gott því óneitanlega vorum við svolítið stressuð. Eyjólfur er með í maganum, einhverja bakteríu í þörmunum sem er ekki tengt við stofnfrumugjöfina en blossar oft upp hjá fólki þegar ónæmiskerfið er skert, þetta er þreytandi og erfitt en á að ganga yfir á tveimur dögum því hann fær lyf við þessu.

Í morgun rigndi eins best gerist úr góðri sturtu, logn og svo flott veður til að hlaupa eða skokka í, alveg óskaveður. Prinsessan á bauninni féll þó ekki í þá freistni að fara út að skokka heldur fór að þvo og pússa spegla. 

Ég gisti hér á spítalanum hjá Eyjólfi í nótt, reyndar ekki til að hugga hann heldur vegna þess að við gleymdum okkur yfir bíómynd í sjónvarpinu og ég nennti ekki og þorði ekki að labba heim þessa 200 metra ein í svarta myrkri og rigningu. Leiðin er samt mjög skemmtileg og öll upplýst í gegnum skógarrjóður og á leiðinni eru vísanir í ýmis ævintýri eins og "Bróðir minn Ljónshjarta" og ýmislegt annað sem á að gleðja börnin sem dvelja hér á spítalanum og hafa svo ásamt fjölskydu aðstöðu í Ronalds McDonald húsi eins og við sem fylgjum mergskiptasjúklingum um langan veg til lækninga.

Bestu þakkir fyrir allar góðu kveðjurnar í bundnu og óbundnu máli.

Bless bless  kæra dagbók.


8. maí!

Kæra dagbók þá er 8. maí runnin upp og á þessu augnabliki sitjum við gamla settið og bíðum eftir stofnfrumunum sem koma líklega fljúgandi frá Steinríki um hádegi.

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag... heppinn Sólveig að ég er ekki nálæg til að syngja því það á allsekki að pína afmælisbörn, til hamingju með daginn og við óskum þér alls hins besta í framtíðinni. Nú komum við til með að eiga þennan dag saman. Hafðu það sem allra best í dag, þú ert jú að ná okkur og eins gott að Huldar fari vel með þig : ) 

Eyjólfur er búinn að uppgötva að það er slæmt að hafa "viðhald", erfitt að hreyfa sig um herbergið og fara á klósettið, muna að halda alltaf utanum það við minnstu hreyfingu en núna er bara einn kútur á viðhaldinu.

Úti er sól og 15°C, svolítill vindur en það er ekki svona gott heima, þar kæmist ég ekki út í dag samkvæmt veðrinu á mbl.is en hér sit ég inni og veit að ég get skroppið í göngutúr á eftir, æðislegt. Enda er ég búin að minnka asmalyfin um helming síðan ég kom hingað, var komin á fjórfaldan skammt sé fram á að komast í eðlilegan skammt áður en ég skrepp heim í útskrift og eins gott að Ísland taki vel á móti mér.

Jæja kæra dagbók kannski verða einhverjar fréttir seinna í dag en allavega bless þar til næst kæra dagbók.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rannveig Vigfúsdóttir
Rannveig Vigfúsdóttir
Kennslulkona í leyfi frá störfum. Með mikla hreyfi þörf og ferðafíkill en sækist mest eftir hlýju loftslagi.

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • Kærustuparið!
  • Taka tvö af Kærustuparinu!
  • Prinsessan!
  • Jón Leifs!
  • myndir student 055

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1091

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband