Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Aðgerðarleysi!

Kæra dagbók í gær var dagur aðgerðarleysis hjá kærustuparinu, að vísu var farið í tvo göngutúra, skipt á rúmum, þvegið, eldað og að sjálfsögðu snætt Smile.

Veðrið í gær var reyndar ekkert spennandi, mistur, grátt og um 17°C. Í dag skín hins vegar sólin og þá er spurning hvað kærustuparið geri.

Prinsessan er búin að gera sér grein fyrir að hún er ekki prinsessan á bauninni vegna viðkvæmni á líkama heldur er sinnið svona líka viðkvæmt. Í fyrri göngutúrnum í gær varð kærustuparinu gengið úr okkar hverfi og í vesturátt en þar er svona "sumarhúsahverfi" þetta hverfi er einhverra ára gamalt og þar er malbikið orðið ónýtt og göturnar orðnar að malargötum með drullupollum og "alles". Snyrtimennskan var ekki við prinsessunnar hæfi og hún vildi ólm komast í burtu og dró kærastann á eftir sér eins og fána í roki eða hund úr hverfinu því alls staðar voru eigendur og hundar í stríði um það í hvora áttina ætti að fara. Sem sé þetta var ekki fyrir viðkvæmar prinsessur.

Af hundamálum er það hins vegar að frétta að prinsessan hélt að hún væri alsendis óhrædd við þá dýrategund. Látum tvistana vera en stóru shefferhundarnir eru sko engin smásmíði og geðvondir. Prinsessunni er bara alls ekki sama þegar hún er að ganga fram hjá húsagörðum og gengur helst eins og Siglfirðingur, úti á miðri götu. Þannig er nefnilega að í fyrradag lenti prinsessan í þeirri óskemmtilegu reynslu að vara að rölta í rólegheitum fram hjá einu húsinu og upphófust þá í hræðilegurstu læti við eyra prinsessunnar og heitur andardráttur og gott ef ekki smá snerting við höfuðið, hjartað missti úr slög en prinsessan höfraði ekki heldur þóttist svellköld. Þarna á efripalli sem betur fer innan girðingar var risastór, dökkur shefferhundur sem tryllist þegar fólk gengur hjá húsinu hans. Prinsessan lenti svo í svipuði í gær á öðrum stað og er nú staðráðin í að láta Siglufjarðar genin ráða. Prinsessan hélt ekki að hún myndi segja að hún þyldi ekki hunda en "common" hér eru hundar af öllum tegundum í nær hverju húsi, ekki hjá prinsessunni og Cris. "Oboj oboj thats just too much" og svo þurfa þessi grey eða skrímsli að gera þarfir sínar og eigendurnir taka ekki upp eftir þá þannig að það er eins gott að horfa niður fyrir sig í göngutúrunum.

Bless kæra dagbók og prinsessan ætlar ekki að nöldra mikið meira í dag en hundaeign á að vera takmörkunum háð og hana nú, bestu kveðju til þeirra sem nenna að lesa röflið og ósjálfrátt var prinsessunni hugsað til Eddu vinkonu Kissing.

 


Shapes/Hress!

Kæra dagbók þá er prinsessan að koma frá því að skoða "líkamsræktarstöðina" sem er hér í nágrenninu. Prinsessunni finnst nú varla taka því að mæta á staðinn sem heitir "Shapes" hún er svo vel "sheipuð". Prinsessan er góðu vön en ætlar samt að mæta í fyrramálið og prófa staðinn en henni leist nú ekkert vel á umgjörðina, að vísu ný og flott tæki en engin kaffi aðstaða, "common", engin Ásta, hún ætti kannski bara að sleppa þessu Errm.

Kærustuparið fór í smá bíltúr í gær og fékk óvænt tvo ferðafélaga. Sá fyrri birtist skindilega  fyrir framan á prinsessunni sem var að einbeita sér að akstrinum, þessi farþegi spriklaði öllum átta löppunum hangangi í spotta og gerði sig líklegan til að setjast á stýrið eða nefið á prinsessunni. Prinsessan bað kærastann að vera svo vænann að losa sig við farþegan þar sem hann birgði útsýnið, var örugglega 1/2 sentimeter í þvermál án lappa. Kærastinn vildi meina að ekkert lægi á þau væru alveg að verða komin á bensínstöðina. Þegar prinsessan stöðvaði vélknúna ökutækið fór fram hryllilegt morð og aðfarirnar voru vægast sagt grimmilegar, farþeginn var kraminn innan í tusku og honum slegið við stýrið hvað eftir annað og síðan fleygt í ruslið, engin bæn eða söngur við útförina. Eftir bensínstöðvar stopp var ekið áleiðis "heim" og þar sem prinsessan lítur út til vinstri í þeim tilgangi að kanna aðkomandi umferð, blasir þá ekki við annar óboðinn farþegi sömu tekundar og sá fyrri, þar sem prinsessan er mikil friðarsinni og dýravinur (flokkast hundar undir dýr?) þá ákvað hún að hleypa farþeganum út þegar hún legði í innkeyrsluna. Prinsessan opnaði hurðina og bauð farþeganum út en hann hoppaði þá bara niður á mottuna í bílnum svo prinsessan neyddist til að kremja greyið undir hælnum á Ecco skónum Crying. Til að forðast allan misskilning vill prinsessan taka fram að svona er ekki vaninn að fara með farþega hennar og nokkuð öruggt er  að svona verði líklega ekki farið með þá farþega sem koma sem gestir frá Ísland. Að því tilefni er rétt að nefna að prinsessunni finnst sjálfsagt já og ekki nema eðlilegt að vinnandi kvenpersónur á Íslandi eigi  að fá leyfi á launum til að koma til Spánar og halda kvöldvökur fyrir prinsessuna og hella upp á gott kaffi öðruhvoru meðan á dvöl þeirra stendur.

Bless kæra  dagbók og bestu kveðjur heim hér er að bresta á með sólskini og 20 stiga hita Kissing.

 


Sunnudagur mikið rétt!

Kæra dagbók þá er prinsessan sest út Smile. Sól í heiði og spáð 20 stiga hita í dag. Prinsessan eyðir að minnsta kosti klukkutíma á hverjum morgni í að sannfæra sig um að fara út að skokka en nær alltaf að sannfæra sig um að gera það ekki. Kannski er það vegna þess að hún hefur ekki enn fundið snigla til að keppa við, þetta kemur einhvern daginn. Prinsessan fann hins vega líkamsræktarstöð í gær, ekki langt í burtu, þá er bara að fara að skoða aðstæður og athuga hvort að þetta henti prinsessu. Á neðri hæðinni er írskur bar svo prinsessan veit alveg hvað hún gerir við kærastann á meðan hún skreppur í ræktina, þar að segja ef henn lýst þá nokkuð á staðinn.

Kærustuparið fékk sér langan göngutúr í gær meðfram ströndinn, sólin skein og hitamælirinn sýndi góðan hita en prinsessan var ekkert að fækka fötum gékk bara um í sínum leðurjakka og gallabuxum. Auðvitað var komið við á veitingahúsi og þar fékk prinsessan mjög gott salat, ferskt og bragðgott, þarna á hún örugglega eftir að koma aftur, ekki skemmdi útsýnið fyrir. 

Alla ströndina stóðu sölumenn að ota að fólki "fölsuðum" vörum og fannst prinsessunni þeir vera einum af aðgangsharðir í sölumennskunni en fólk var að kaupa af þeim. Reyndar ekki amalegt að versla sér "Prada" veski á 20€ eða "Gucci" sólgleraugu á 15€. Prinsessunni voru boðin "D&G" sólgleraugu á 15€ en það fannst henni dýrt og skömmu seinna voru þau komin niður í 10€ "for you my lady, special price" en prinsessan lét ekki blekkjast og horfði staðföst á sölumanni í gegnum MiuMiu sólgleraugun sín með styrkingu og sagði "No Gracias, No Thank you". Svona er prinsessan gasalega stabíl.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur til allra og vonandi láta sumar mömmur sér duga að vera bara með einn son af þremur heima Kissing.


Nágrannar.

Kæra dagbók þá er prinsessan sest út á pall til að vera í sem bestu netsambandi. Það er nú allt í lagi hér er 15 stiga hiti og fer hækkandi, sólin að brjótast fram úr skýjunum og allt lýtur út fyrir bjartan og hlýjan dag Smile.

Prinsessan á alveg eftir að kynna þér kæra dagbók fyrir nágrönnunum. Hér fyrir neðan búa dönsk hjón með litla yndinu sínu, hvítum litlum hundi sem er í fullu starfi við að gelta. Hundurinn geltir við hverja hreifingu í nágrenninu og áðan trylltist hann alveg þegar að stór hundur (prinsessan þekkir ekki mikið inná hundategundir, annað hvort eru þetta vasahundar eða stærra) kom gangandi með ungan dreng í bandi. Sá litili (ekki vasahundur) gelti og gelti en sá stóri gékk áfram hinn rólegasti, bígsperttur og flottur en svo var honum nóg boðið, snéri sér að þeim litla, gaf frá sér lítið "bofs" sá litli snarþagnaði og lagðist lúpulegur niður, hann veit núna hver ræður í hverfinu. 

Í næsta húsi fyrir ofan okkur búa bretar sem tala rosalega bresku næstum of, þau eru ein af fáum hér sem ekki eru með hund eða kött.  Ská á móti er frekar stórt einbýlihús með sundlaug í garðinum, flottum útihúsgögnum og þar búa bretar sem koma siglandi út í fínum fötum og vel tilhöfð og aka að sjálfsögðu um á Ford Mondeo. Þau eru með kött af síamskyni (prinsessan aðeins betur inn í kattartegundum) sem heldur vörð um heimilið, situr bígsperrtur við hliðið og hundarnir taka sveig þegar þeir ganga fram hjá með einhvern  í bandi.

Kærustuparið fór í bíltúr í gær og kíkti í Copo Roig þar sem eru mjög flottar strendur og eflaust fínt að bregða sér þar í sjóinn. Á heimleiðinni brugðu þau sér inn á "Írish Pub" og það var bara eins og að koma inn á bar í Reykjavík þar sem eitthvað var af túristum.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim til allra Kissing.


Útiseta/útáseta!

Kæra dagbók þá situr kærustuparið út á palli í sólinni og nú eru þau sko komin til Spánar. Prinsessan er hins vegar ekkert farin að greiða niður ferðina sína í dag þar sem hún ætlar að bjóða kærastanum í bíltúr á eftirSmile.

Það var nú eitt, eflaust fleira, sem prinsessan gleymdi að minnast á en það var þetta með jólin. Daginn eftir að kærustuparið lenti á Spáni var síðasti jóladagurinn hér, alveg eins og á Íslandi, nema hér er haldið meira upp á hann. Allt lokað, ekki veitingahús, allir fá pakka og fara í messu, mikill hátíðardagur. Prinsessunni þótti nú skjóta svolítið skökku við að ganga úti í sólskini og 15°C og alls staðar blikkaði jólaskraut og jólasveinar hangandi utan á svölum húsa en það voru jú jól. Núna sér prinsessan að sumir hér á Spáni eru eins og sumir á Íslandi því jólaskrautið hangir enn uppi þó komið sé fram yfir miðjan janúar, þetta gerir nú Spán svolítið heimilislegan.

Prinsessan var í þvílíkum ham í morgun og þreif húsið, skúraði og pússaði og endurraðaði. Það var líka eins gott því að prinsessan fann aukarúm í húsinu, alveg heilt með góðri dýnu það var bara undir háa rúminu, sem er svo ekkert hátt eftir allt saman. Þetta þýðir að hér eru sex rúmpláss í þremur herbergjum og svo er baðherbergi, þottahús og eldhús og stofa í einu rými, fyrir utan alla aðstöðuna utan dyra. Frábært!

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim og verið nú endilega dugleg að taka niður jóladótið FootinMouth

Prinsessan ætlar hins vegar að sitja aðeins lengur úti í sólinni Kissing.


Sól!

Kæra dagbók þetta eru nú meiri hörmungarnar sem ganga yfir Spánverja þessa dagana. Fyrst mætir prinsessan á bauninni á svæðið, síðan kólnar svo að ekki hefur verið kaldara síðan mælingar hófust og snjó kingdi niður um nær allan Spán. Nú hefur ekki betra tekið við því nú rignir og hvorki hús né önnur mannvirki eru byggð til að þola þetta álag. Nú falla aurskirður og vegir og hús skemmast og sumstaðar hefur fólk þurft að spenna upp regnhlífarnar innan dyra til að rennblotna ekki. Prinsessan og hennar nábúar hafa þó sloppið þó að á  Costa Blanca svæðinu hafi ekki mælst eins lágt hitastig í mannaminnum þá hefur hitinn lægst farið í 6°C eina nóttina og en það var bara einu sinni, núna eru t.d. 17°C og hálfskýjað og spáð hækkandi hitastigi og meiri sól næstu daga. Spánverjar eiga við mikinn uppskerubrest að stríða og dýrin eru að farast úr kulda fyrir utan alla eyðileggingu á mannvirkjum og bílum.

Kærustuparið unir nú samt sátt við sitt, heldur sig mest heima í þægindum enda kærastinn ekki búinn að ná fullu þreki en hann vinnur vel að því að styrkjast. Prinsessan nýtur þess að fara í göngutúra og "kuffulagið" og hefur ekki enn orðið landi og þjóð til skamma svo að hún viti en aldrei að vita "betur sjá augu en auga"

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim og rétt að geta þess hvað prinsessan var ánægð með að Rústbjörgunarsveit Íslands var fljót að bregðast við kalli og halda til Haiti, enda er prinsessan af góðum og gildum slysarvarnarættum og henni slysavarnir og hjálparstarf í blóð borði, en lítið hefur verið um framkvæmdir af hennar hálfu  Kissing.


Þetta náttúrulega bilun!

Góðan daginn kæra dagbók hér situr prinsessan og bloggar í 15 stiga hita en vildi samt öllu helst vera heima hjá sér á Íslandi og vera að gera eitthvað, þetta er náttúrulega ekkert annað en bilun.

Prinsessan gékk í "kuffulagið" áðan sér til hressingar og að kaupa eitthvað í gogginn, þetta er dágóður spölur, svona aðeins lengra en í Fjarðarkaup heiman frá prinsessunni. þetta var hressandi göngutúr en argaþvargið í "kuffulaginu" varð nú næstum til að eyðileggja endurnæringuna úr göngutúrnum en sem betur fer átti prinsessan eftir að ganga heim. Fullt var af fólki í búðinni og alltaf verið að kalla upp einhver tilboð á vörum, með þvílíkum hávaða og látum, virkaði svona eins og skipun að kaupa viðkomandi vöru. Sem betur fer er spænsku-kunnátta prinsessunnar það slök að hún vissi ekkert hvað var verið að skipan henni að kaup nema mandarínurnar sem voru á 0.25€ kílóið og auðvita hlýddi prinsessan. Hún skilur hins vegar ekkert í því af hverju þeir láta ekki rauðu miðana duga, þessa sem notaðir eru um allan heim, "tilbud" "tilboð" eða hvað það nú er, þeir nefnilega voru líka í "Kuffulaginu" ýmist á spænsku eða ensku. 

Nú er það bara spurning hvað kærustuparið gerir núna seinni partinn, sér til skemmtunar. Prinsessan er jú búin að þvo handklæði og hengja út, þau verða vel hörð og taka af allar dauðar húðfrumur við næstu þurrkun. Allveg sé prinsessan dóttur sína í anda þurrka sér með grjóthörðum handkæðum!

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim  Kissing


Hlýnandi veður!

Kæra dagbók það er nú meira hvað Spánverjarnir geta gert mikið úr veðrinu og prinsessan sem hélt að Íslendingar væru sérfræðingar í því. Prinsessan komst að því að veðurguðirnir hafa heldur betur hresst við komu hennar og nýjustu fréttir herma að annað eins veður hefur ekki komið síðan 1952, snjóað út um allan Spán, ekki hér við ströndina. Uppskerubrestur er víða og skemmdir á bílum sem renna til í hálkunni enda enginn á negldum hér. Hitinn hér hjá okkur fór niður í 8°C sem þykir mjög mjög kalt en prinsessan gat nú samt farið og verslað í matinn og á kaffi hús. Hitastigið hefur hækkað síðustu dagana og í gær dag fór hitinn yfir 15°C í forsælu.

Kærustuparið fór um daginn til Alicante og á leiðinni óku þau á milli tveggja vatna og þá fékk nú prinsessan fyrir hjartað því hvít stór korn flugu yfir veginn, vá var farið að snjó hjá okkur, heim bara strax, betra að vera þar í snjó! Kærastinn benti prinsessunni pent á að þetta væri salt, þetta væru saltvötn og mikil salt vinnsla í gangi og hitinn 12°C sem gerði það ómögulegt að þetta væri snjór, dásamlegt að hafa svona mannvitsbrekkur með á ferðalögum finnst prinsessunni.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim og í guðsbænum farið varlega í hálkunni Kissing.


Verðlag á matvörum.

Kæra dagbók þá situr prinsessan út á palli og sólin skín en hitinn er um 15°C.

Prinsessan hefur svolítð verið að velta fyrir sér verðalagi þar sem að alltaf var verið að vara hana við því hvað allt væri dýrt á Spáni. Prinsessan var sem sé í "kuffulaginu" og keypti inn fyrir sitt stóra heimili hér á Spáni. Tvö kjúklingalæri, leggur og efrihluti, þó nokkuð stærri en prinsessan sér vanalega í búðum á Íslandi, kostaði 1,30 €, langt brauð 0.80 € . Prinsessan hefur ekki gert annað en að reikna síðasta hálftímann og komist að mjög merkilegri og góðri niðurstöðu og hana nú! Nú biðlar hún bara til vina og ættingja um að kíkja aðeins í heimsókn hér til Spánar því að samkvæmt hennar útreikningum tekur stuttan tíma að greiða upp flugferðina og restin fer svo í að greiða niður húsa-og bílaleiguna. Ágætt palla rauðvín á lítersfernu kostaði 0.65 € og Rioja rauðvín á flösku, sem verslunin mælti með, kostaði 1.75 €. Báðar þessar rauðvínstegundir er prinsessan búin að smakka og þær reyndust vel, flaskan betri með mat en fernan fín á pallinn. Prinsessan þarf síðan að gera svipaða könnun á hvítvíninu. Ekki má gleyma að kærustuparið borðaði góða máltíð með sitthvoru rauðvínsglasinu og einum expressó á eftir, fyrir 17,30 €. Eflaust er hægt að borða dýrar úti en kærustuparið á bara eftir að prófa það.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim til allra og nú verður sko haldið áfram að reikna!

 


Spánn!

Kæra dagbók þá er að gera enn eina tilraunina með blogg!

Kærustuparið er búið að vera hér á Spáni í fimm daga, ánægð með húsið og bílinn. Allri frétta tímar hér eru fullir að fréttum um verið sem ekki hefur verið verra í fimmtíu ár. Sem sé árið 1960 í annarri viku janúar skall á veðrið sem enn er vitnað , snjóaði allaleið í nyrsta hluta Valenciahéraðs og það sama gerðist ákúrat núna í annarri viku janúar. Spurningin er hvort að  veðurguðirnir hafi bara ekki verið of fljótfærir hér um árið og verið að fagna komu prinsessunnar sem einmitt fæddist í júní 1960 hún valdi hinsvegar að setjast að á Íslandi þar sem fallega, skemmtilega og góða fólkið er. Nú er prinsessan sest að á Suður Spáni um stundarsakir og þá rifja veðurguðirnir upp fagnaðarlætin, reyndar prinsessunni ekki til ánægju. Hér rignfi eins og hellt væri úr fötu fyrir þremur dögum og allt fór á flot, sí'an hvessti verulega og hitinn fór niður í 8 °C og aumingjaSpánverjarnir voru alveg að farast úr kulda. Prinsessan hefur þó getað farið út og kærustuparið hefur verið duglegt að skoða umhverfið og læra að rata. Kærustuparið fór til Alicante í gær og fékk sér síðbúinn góðan hádegisverð og gékk á ströndinni í hávaða roki og 12°C. Í dag hefur hlýnað og sólin skín, prinsessan situr út á palli með tölvuna, að vísu í flíspeysu, en þar er besta netsambandið í augnablikinu. Á eftir áætlar kærustuparið að fara niður í bæ og sýna sig, Torrevega búum til gleði og síðan verður strikið tekið á kaffihús og matseðillinn kannaður.

Bless kæra dagbók og bestu kveðjur heim, prinsessan veit að hitastigið þar er örlitlu lægra en hér en gott veður samt .


« Fyrri síða

Höfundur

Rannveig Vigfúsdóttir
Rannveig Vigfúsdóttir
Kennslulkona í leyfi frá störfum. Með mikla hreyfi þörf og ferðafíkill en sækist mest eftir hlýju loftslagi.

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • Kærustuparið!
  • Taka tvö af Kærustuparinu!
  • Prinsessan!
  • Jón Leifs!
  • myndir student 055

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 833

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband