Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
21.5.2009 | 09:00
Stängd!
Kæra dagbók þá er ég, eins og þú veist þekkt fyrir að vera yfirveguð og skoða hlutina vel. æða aldrei út í óvissuna, vera með allt á hreinu/tæru. Í morgun komu nú Svíarnir mér á óvart ja hérna! Ég var búin að gefa út þá yfirlýsingu í gær að í dag væri það fitness og nú skyldi tekið á því burt með bíngóvöðvana, báðum meginn! Fram úr rétt fyrir sjö, hljóp niður til að ná þvottavélinni og öllum handklæðum og nærfötum hent inn, prógrammið sett á og ég hafði 68 mínútur til að nota í ræktina. Hentist af stað, vá rosalega fáir á ferli hér um bil enginn, einn einmana karlmaður á leið í lestina og ég var bara korteri fyrr á ferðinni en vanalega, rosalegur munur, vanalega krökt af fólki á leið úr og í lestina rétt fyrir hálf átta. Jæja sveif inn á lestarstöðína með stæl og að innganginum að fitnessinu en hurðinn var eitthvað svo stíf, bíddu við miði á glerinu "Stängt Kristi himmelsfärdsdag" "WHAT"! Maður er nú orðinn svo klár í sænsku að maður náði því alveg að það væri lokað vegna Uppstigningadags sem er væntanlega líka á Íslandi núna! Var Jón líka með lokað? Er ég svona heiðin eða er þetta hin velþekkta flótfærni, allavega núna veit ég að það er Uppsigningadagur og um þar næstu helgi er þá Hvítasunnan en ég verð örugglega búin að gleyma því þá, skrítið ég sem mundi alltaf eftir öllum frídögum og auka frídögum þegar égvar að kenna.
Ég ákvað að fá mér smá, oggolitla, göngu í staðinn en af því að ég var búin að ákveða að fara í fitnessið þá gat ég náttúrulega ekki farið að skokka! Fór í staðinn heim og lakkaði á mér táneglurnar!
Það hefur verið lúksus hjá mér síðustu þrjá daga og lítur út fyrir að sá fjórði sé runninn upp. Eyjólfur á nefnilega erfitt með að tala vegna særinda í munni og koki svo að ég get látið dæluna ganga allan daginn (nú held ég að Garðar öfundi mig) og svo spyr ég Eyjólf um hitt og þetta og passa mig vel á því að ekki sé hægt að svara með eins atkvæða orði. Eyjólfur er reyndar þekktur fyrir þolinmæði eins og alþjóð veit og því er enn allt í fína lagi á sjúkrastofunni og svo fer ég heim í tvo daga!
Eitt verð ég að nefna sem ég er virkilega ósátt við Alla daga er verið að halda hitaeiningum að Eyjólfi og passa upp á að hann léttist ekki. Ég man nú bara aldrei eftir þessu með mig, ekki frá blautu barnsbeini, ekki þegar ég át allt brauðið upp í sumarbústað hjá Stebbu og það þurfti að fara í bæinn og kaupa meira svo aðrir fengju líka að borða. Mamma talaði jú um að það hefði verið svo gaman að gefa mér að borða því ég át allt, já allt. Hún var náttúrulega búin að reyna að troða í þrjá stráka áður og þurfti ýmist að leika matinn ofan í þá eða ljúga hann niður og segja að þetta væru kótilettur frá hinu og þessu landinu og sá þriðju ældi öllu upp. Sjáið líka hvernig þeir líta út í dag, ég er ríkust af þeim, á mestan varaforða ef það kemur hungursneyð á vestulöndum og hlít þá að lifa lengst.
Jæja kæra dagbók var ekki ein yndisleg að færa mér kaffi svo ég segi bless og ég vona að allir verði áfram svona duglegir að senda okkur kveðjur.
Tókuð þið eftir hvað ég er orðin klár í broskörlunum, tengdamamma getur þetta svo ég varð að reyna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.5.2009 | 10:25
Það er þetta með fyrirsagnirnar..
Kæra dagbók frábærar fréttir í dag, vart var við hvít blóðkorn í blóðprufum í dag svo nú fara þær að fjölga sér, húrra!! Þetta er fyrr en ég átti von á en samt á réttum og góðum tíma segja læknarnir. Nú fer honum að líða betur en það er samt alltaf búist við einhverri höfnun og það er æskilegra að fá einhverja en þó ekki mikla, þetta getur gerst á næstu dögum eða mánuðum. Þetta er ástæðan fyrir því að við þurfum að vera fram yfir miðjan ágúst hér.
Nú er það ég; ég skokkaði í morgun en hélt mig frá skógargöngustígum vegna andúðar minnar á litlum sætum snákum. Svo fann ég "Flensborgartröppurnar" og hljóp upp þær þrisvar, það er upp gékk niður, upp gékk niður, upp og gékk göngustíginn í gegnum skóginn heim, búin að hlaupa frá mér allt vit því ég mundi ekkert eftir "jevla" snákunum.
Í dag er mjög hlýtt úti en ekki mikil sól, gott göngutúara veður.
Smá viðbót; ég þurfti að skreppa yfir á Ronald áðan og setti upp sólgleraugu vegna sólar og hvað gerist enginn snákur að flækjast fyrir. Þeir héldu nefnilega að ég væri gleraugnaslanga og voru sjálfir bara drulluhræddir, hér eftir verða allir skógagöngustígar farnir með gleraugun á nefinu, meira að segja skokkandi.
Bless kæra dagbók!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.5.2009 | 09:59
Þriðjudagur til þrautar! (minnar).
Kæra dagbók hafði það af að mæta í Fitnessið í morgun og kláraði prógrammið, skokkaði síðan heim í sturtu. Heima er á Ronald McDonald en þar var fullt hús af ungi fólki með tuskur á lofti og bros á vör. Þetta eru sjálfboðaliðar, vinir Ronalds McDonalds hússins og tengjast líka eitthvað McDonald veitingastaðnum, fékk útskýring á sænsku og samkvæmt mínum skilningi eru einhverjir sjálfboðaliðanna starfsmenn þar. Allavega þá er ég alltaf að kynnast því að það er fullt af fólki sem er að gera hin ýmsu góðverk í kringum starfsemin á Ronald McDonald. Þetta finnst mér frábært og manni hlínar nú bara um freðnar hjartarætur. Fyrir nú utan allt fólkið sem er tilbúið til að láta stinga sig með nálum og trufla sig í hinu daglega lífi til að gefa stofnfrumur, hvar er sá sem sagði "heimur versnandi fer" hann þyrfti að koma hingað.
Ég sá flottasta snigil sem ég hef á ævi minni séð í morgun rétt fyrir utan húsið hjá mér. Hann var ljósgrænn og angarnir út úr höfðinu sáust mjög vel og svo var hann með þetta stórglæsilega einbýlishús á bakinu. Nei ég var ekki með myndavélina, ætla að láta sauma hana við mig hér á skurðstofunni.
Eyjólfur er svipaður og í gær en ég er sko löngu búin að sjá að það er eins gott að ég er hér, það kemur hver á fætur annarri elskulegri þokkadísin og snýst í kringum hann.
Nú fer að styttast í að ég komi heim til að vera við útskrift litlu dúllunnar okkar. Þessa stundina er hún að útkeyra ömmu sína og nöfnu við kjólaskoðun ég vona bara að þær stoppi á Grænum kosti eða einhverjum viðlíka stað sér til hressingar og svo hlakka ég bara til að sjá útkomuna.
Bless bless kæra dagbók!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2009 | 09:16
Mánudagur!
Kæra dagbók þá er það letidagurinn hjá mér. Nennti ekki í fitnessið en fór í kuffulagið að versla í matinn, mér fannst það bara nokkuð góð hreyfing, álíka vegalengd og í Fjarðarkaup heiman frá mér. Ég er alltaf að hneykslast á verðlaginu hér, gosvatn án bragðefna 1/2 líter, kostar frá 17 -19 sænskum krónum sem eru svona 260-280 íslenskar krónur, það er í sjoppunni. Í kuffulaginu kostar það hinsvegar um 160-180 íslenskar krónur. Paprikur eru miklu dýrari en mjólkurvörur eru á svipuðu verði þó virðast ostar vera aðeins ódýrari. Hins vegar fór ég í nokkrar búðir fyrir afmælið hans Eyjólfs og sá að bækur eru minna skattlagðar hér eða 6% skattur en mér fannst þær ekkert ódýrari. Í H&M var verðlagið á fötum hins vegar ásættanlegt og ódýrar en heima eins var í Intersport. Ég er að verða að nískupúka og er þá fokið í flest skjól. Lausnin er sem sé sú að hætta að éta og kaupa föt og íþróttavöru þá er ég í gróða.
Við hjónin fórum í göngutúr í gær í góða veðrinu. Það var mjög góður göngutúr, gengum mjög hægt í skóginum og fylgdumst með dýrunum og þá sérstaklega vinunum hennar Mæju okkar, maurunum. Við gengum örlítið líka um hverfið sem er aftan við sjúkrahúsið en það er mjög skemmtileg, flest húsin fremur lítil og lóðirnar vel hirtar. Hverfið er nýtt og hefur eflaust verið sumarhúsahverfi áður því inn á milli eru litlir gamlir sumarbústaðir líkt og þeir sem eru í Sléttuhlíð.
Allt hefur sinn vanagang hjá Eyjólfi, hann er með í maganum og aumuru í allri slímhúðinni og þá líka í munninum eins og á að vera en þetta fer allta að lagast á næstunni. Við getum búist við að hvítu blóðkornin fari að koma fram um næstu helgi og þá fer hann að hressast.
Við biðjum voða vel að heilsa heim, við erum alltaf að fá svo góðar kveðjur og heilu bréfin frá vinum og ættingjum og það finnst okkur alveg rosalega skemmtileg og það er líka svo gott og hressandi.
Þá kveð ég kæra dagbók þar til næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.5.2009 | 09:10
Sunnudagur með rentu!
Kæra dagbók þá er það sunnudagur sem stendur undir nafni, sól í heiði. Hún ég bara skokkaði helling í morgunsólinni alveg örugglega meira en síðast. Hérinn beið tilbúinn þegar ég kom út en hann lagði ekki í mig, sá hvað ég var fersk og hann hljóp í hina áttina. Stóru fréttirnar eru þær að ég rataði heim.
Hélt yfir til Eyjólfs nýmáluð og glæsileg eftir því og vopnuð myndavél. Tveir íkornar sátu á göngustígnum og "dáðust" að mér, ég tók upp myndavélina en þá stukku þeir í burtu. Ég fór út af göngustígnum til að ná þeim á mynd, þrátt fyrir snákinn í gær, en því miður þeir eru svo snöggir. Ég gæti sett myndirnar á bloggsíðuna og textinn undir þeim væri þá eitthvað á þessa leið "hér var íkorni en hann er horfinn".
Við fylgdumst með "júróvision" í gærkvöldi og vorum sammála um að Jflutningur Jóhönnu Guðrúnar hafi verið með miklum sóma (hún syngur örugglega svona vel af því ég kenndi henni ensku) hins vegar fannst okkur lagið ekkert spes. Glæsilegur árangur og heppin erum við að kvenlegi hluti mannfólks eru aðalkjósendur í keppninni þannig að norski súkkulaði strákurinn lenti í fyrsta þó að honum veitti nú ekki af tilsögn í söng, kannski að hann hafi efni á því eftir þetta. Mér finnst nú þessi gríski, gríska goðið, miklui föngulegri, verst að ég man ekkert eftir laginu hans. Sem sé tvöfalt hjá Norðmönnum í dag, þjóðhátíðardagur og 1. sæti í Eurovision.
Líðan Eyjólfs er eins og okkar var sagt að yrði, hvorki betri né verri þannig að þetta er enn allt eftir bókinni og það er mjög gott.
Þá er það bara bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.5.2009 | 10:49
Krækjudýr í Svíþjóð!
Kæra dagbók þá er kominn laugardagur og sól og hiti eins og í Hafnarfirði núna. Ég fékk mér góðan göngutúr og hlustaði á fuglasöng á meðan þvottavélin þvoði af rúmunum fyrir mig. Ég tók myndavélina með mér til að mynda fugla en aldrei þessu vant þá flúðu þeir mig, ég er ekki að skrögva þegar ég segi að undanfarna daga hafa þeir staðið kyrrir og horft á mig! Síðan sat ég í korter í sólinni sem var æðislegt.
Þegar ég gékk svo yfir til Eyjólfs þá stóðu fuglarnir kyrrir og horfðu á mig en engin myndavél. Eftir smá labb sá ég rosa "laxamaðk" á göngustígnum og fór að horfa á þennan rosa orm þegar hann tók að hreyfa sig uppgötvaði ég að þetta var snákur með kjaft. Ég öskraði ekki en hefði alveg verið sátt við að hitta hann ekki, svo nú veist þú það kæra dagbók, það eru krækjudýr í Svíþjóð, verst að ég tók ekki stígvél með Svíþjóðar þá hefði kannski verið snákur í stígvélinu mínu.
Heilsufarið er svipað hjá Eyjólfi, aðeins farinn að finna fyrir eymslum í hálsi en henn hefur verið spurður að því síðustu daga því það er eitthvað sem kemur á þessu tímabili.
Nú er bara að skella sér í kuffulagið og kaupa snakk og nammi fyrir kvöldið því auðvitað horfum við á "júróvision" og höldum með Jóhönnu Guðrúnu og klöppum líka fyri Svíum. Við heyrðum af því að menn væru með áhyggjur heima yfir kostnaðinum við að halda slíka keppni og mönnum létti þegar einhver spekingurinn sagði að til væri í dæminu og ríkari þjóðir tækju okið af þeim sem illa væri statt fyrir. Við getum rætt þetta við Bretana þó að Páli Óskari hafi dottið Færeyingar í hug.
Þá kveð ég kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.5.2009 | 10:04
Sól, sól skín á mig!
Kæra dagbók nú er sko sól en það var svolítið kalt þegar ég fór í "fitnessið " í morgun en er að hlýna.
Ég er eini kvenmaðurinn sem mæti á morgnana, (opna reyndar ekki fyrr en kl.07:00) hinir gestirnir eru óbroshýrir karlmenn eins og mæta í Hress á milli fimm og sjö á daginn, sem sé stunur og lóðaskellingar. Í morgun var þó einn broshýr og elskulegur, sem ég hjálpaði að stilla hjólið því hinir alvarlegu gátu ekki sleppt lóðunum, hefðu ruglast í talningu. Þessi broshýri var um sjötugt og skellti engum lóðuum æfði bara jafnt og þétt og brosti þar til allt fylltist fyrir utan af slökkviliðsbílum, tækjabílum, lögreglubílum og hvað þetta nú allt heitir og allir blikkandi bláum ljósum. Hann leit á mig og ég sá að hann hugsaði já þetta er sú seka, lítur út eins og Svíi en talar ensku, grunsamlegt. Ég forðaði mér hið snarasta enda búin með prógrammið. Þegar ég kom niður, en ræktinn er á efrihæðinni í lestarsöðinn, sá ég tilkynningu um lestaróhapp sunnar á teiunum, hef ekki nánari fréttir af því.
Þegar ég var búin í sturtu eyddi ég dágóðum tíma í að blása hárið og mála mig til að vera hugguleg þegar ég færi að hitta föngulega manninn á sjúkrahúsinu. Fór í gallabuxurnar og spennti belti, yes mín bara orðin svona grönn eftir öll hlaupin, beltið bara vítt, yes, yes. Skondraði lengri leiðin á sjúkrahúsið til að sýna mig og kom alsæl ti Eyjólfs en leit í spegil, hárgreiðsla sem hefði sómt Grýlu vel fokin og úfin en maskarinn hafði þó ekki fokið af. Svo þegar nánar var að gáð kom í ljós að ég hafði sett í vitlaust gat á beltinu, hafði ekkert grennst, æ æ. Þetta var samt yndislegur hálftími!
Í dag er vika frá því að Eyjólfur fékk þýsku stofnfrumurnar og allt gengur eins og á að ganga ekkert í raun óeðlilegt en þetta er töff.
Við fengum fullt af frábærum keðjum í gær og okkur fannst það æðislegt svo er það bara Eurovision-skál til ykkar!
Bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.5.2009 | 11:27
Hann á afmæli í dag, hann.....
Kæra dagbók þá er runninn upp afmælisdagur Eyjólfs, 48 ára, hann er búinn að ná mér!
Ég náttúrulega vakti athygli þegar ég mætti hér á spítalann í morgun, með tvo sænska snúða með sitthvoru kertinu í, fjóra og átta. Það hefur verið stríður straumur af starfsfólkinu að óska Eyjólfi til hamingju með daginn, voða gaman. Ég náði að kaupa smá pakka þegar ég fór í gær að versla garn og það kom mjög skemmtilega á óvart.
Ég fór út á skokkið í morgun og snigillinn tók ekki sensinn á að keppa við mig svo að ég hljóp ein alveg nýja leið og komst til baka á tilætluðum tíma enda notaði ég sólina núna.
Þegar ég var búin að sturta mig og setja í þvottavél, ég er nefnilega svoooo myndarleg, fór ég að fá mér morgunverð og eru ekki sænsku systurnar mættar og buðu mér upp á kaffi. Himneskt sterkt kaffi ekkert sull. Það kom líka í ljós að þær eru í ætt við Emil nokkurn í Kattholti allavega aldar upp og búa í Smálöndum og eru ekki allir skyldir honum þar. Ég sló nú bar um mig á sænsku þar sem sú eldri talar ekki ensku. Við ræddum um Astrid Lindgren og þeim þótti nú bara nokkuð merkilegt að ég hefði lesið bækur hennar þegar ég var krakki, var ekkert að segja þeim að gerði það líka eftir að ég varð fullorðin og fylgdist vel með þáttunum um Emil og fór á leikritð með Ronju eftir að ég varð fullorðninn.
Kæra dagbók ekki meira frá mér í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.5.2009 | 08:51
Engar fréttir!
Kæra dagbók runninn er upp miðvikudagur! Fitnessaði mig í morgun og ekkert kaffi, hvar endar þetta. Það er mjög fallegt veður úti en maður er orðinn svo heimtufrekur að manni finnst ekki nógu heitt.
Ég ætla að skreppa á eftir með lestinni í Huddinge-center og kaupa almennilegt garn, hef ekki nennt en nú verð ég því hitt er búið og ég er með "njálg".
Þegar við fórum í gær í hressingargönguna (voða stuttu) þá sáum við að allur gróður er kominn mun meira af stað en þegar við komum og það er búið að setja niður fullt af sumarblómum. Allir voða duglegir að vinna í görðunum sínum hér það gleður okkar augu að sjá falleg blóm svo ekki sé talað um blómstrandi tré.
Eyjólfur er svipaður en mjög duglegur að gera það sem ætlast er til af honum og að fara út sem á að vera mjög gott.
Jæja kæra dagbók á morgun verða kannski fréttir af garninnkaupaferðinni, sem ég vona þó að verði ekki söguleg. Aftur og aftur takk fyrir allar góðu kveðjurnar að heiman og hafið það sem allra best í góða veðrinu sem verið er að spá, og kemur, fínt að fara út að skokka.
Bless bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.5.2009 | 10:44
McDonald!
Kæra dagbók ég ætla að byrja á að leiðrétta gamla rangfærslu, Ronald McDonald er eins og allir vita, nema einhver Svíi, trúðurinn á McDonald skyndibitastöðunum eins og reyndar Vigfús var búin að segja mér í upphafi. Annað hvort er ég svona léleg í ensku eða einhver sænskur karlmaður sem vildi ólmur leiðrétta mig með minn misskilning á því hver Ronald væri, hann vildi meina að þetta væri trúðurinn í Simson. Ég asnaðist til að taka mark á þessum besservisser sem vissi sko betur en ljóskan frá Íslandi sem var þar að auki frá Hafnarfirði. Mikið var ég samt, já eiginlega hneyksluð á því að verið væri að nefna húsið eftir þessum klikkaða trúði í Simson en Svíinn fullyrti að það væri vegna þess að börnum þætti hann mun skemmtilegri en McDonalds trúðurinn ég reyndi þó að rökstyðja mitt mál með því að segjast hafa haldið að McDonald´s hefði styrkt húsið, þetta fannst Svíanum bara fyndið og sagði að allt væri á kostnað ríkisins. Þar sem allir í fjölskyldunni hafa mun meiri sans fyrir teiknimyndum og leikurum en ég sem er heft á því sviði man aldrei hvað bíómyndir heita eða leikarar, nema George Cloony, Bandera og Brad Pitt, hvað þá að ég muni hvort ég hafi séð þessa eða hina myndina. Sem sé tveir ættingjar, systkynabörn, voru fljót að senda mér inn leiðréttingu en því miður var Besservisserinn farinn, ég hefði sko látið hann heyra það, enda búin að fá staðfestingu á framlögum McDonalds frá umsjónarmönnum hússins.
Fínt veður í morgun veðurfréttamönnum (ekki veðurfræðingum) fer fram, svo ég skellti mér í skokkið, hraðinn gífurlegur, fór fram úr snigli en hérinn hljóp upp á hól. Nú væri gott að það væri 2007 því þá hefðu dönskukennararnir bara skellt sér í hring með mér til að tékka á hraðanum og utanvegarhlaupakonan (vá) gæti hlaupið hér um allt með garminn sinn, gæfi reyndar ekki í annað að fenginni eigin reynslu. Huldar er búinn að fá liðsstyrk svo ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að þurfa að keppa við dönskukennarana!
Ég var vel sveitt eftir hlaupinn í morgun (má náttúrulega ekki hugsa um hreyfingu þá svitna ég), fór beint í sturtu og niður til að taka til morgunmat fyrir mig en hvað er ekki tilbúinn morgunmatur fyrir alla í boði. Hver bauð? Nú engin annar en McDonald´s. Morgunmaturinn var vel útilátinn og ferskur.
Kæra dagbók þetta fer nú að verða svolítið löng þvæla en Eyjólfur er enn slæmur í meltingunni og núna er hann "penískur" það er varnarkerfið farið, eins og á að vera, og hann er útsettur fyrir öllum síkingum jafnvel bakteríum sem lifa á húðinni, vanalega í sátt og samlyndi við hýsilinn. Þannig að við gerum ráð fyrir að hann fái einhvern hita næstu daga sem er eðlilegt í þessu ferli en ekki gaman!
Bless kæra dagbók og takk fyrir góðar kveðjur og endilega haldið áfram að skokka!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar