Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Sigga Storm til Stokkhólms!

Kæra dagbók hér sit ég upp á sjúkrahúsi hjá Eyjólfi og er rétt að þorna, já þorna ekki vegna drykkju nei; blotnaði í rigningu. Ég var þetta litla ánægð með veðurspána: sól, smá ský, 16°C og 3-4 m/sek, fínt göngutúra veður og nú ætlaði frúin að taka lestina á næstu stoppustöð, Huddinge-center. Þar eru nokkrar verslanir og var ég búin að "spotta" garnverslun og hugðist kaupa almennilegt garn ekki eitthvað 100% acryl eins og fæst í kuffulaginu og ég hef verið að hekla úr. Ég veita að hann Siggi stormur hefði nú staðið við sína spá ekkert verið að lofa einhverri sælu og standa svo ekki við það, hvað er þetta eiginlega með sænska veðurfréttamenn vita þeir ekki að það á ekki að lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við og hana nú, koma svo með sólina!!

Ég "fitnessaði" svolítið í morgun var mætt rúmlega 07:00 að staðartíma, 05:00 á Greenwitch tíma (íslenskur tími). Svíarnir í þessu hverfi (mikið innflytenda hverfi) eru sko ekkert að mæta svona á næturnar, ég átti staðinn og starfsstúlkan þreif bara á meðan en bauð ekki upp á kafffi, hvað er eiginlega að veit hún ekki að ég mæti í ræktina/fitnessið til að fá sterkt kaffi. Ég gæti alveg talað við hana líka sagt henni nokkrar slúðrur frá Íslandi (fann gamalt Séð og heyrt hér á sjúkrahúsinu), nei henni er nær má ég þá biðja um Ástu mína eða hana Ednu mína takk fyrir.

Eyjólfur er eitthvað hressari í maganum í dag og er að lesa "Moggann" sem heitir hér "Stockholm city" rosaleg sænskt eitthvað. Okkur fer fram dag frá degi í sænskunni og getum ekki bara beðið um hvítvín, kók og kaffi heldur líka ristað brauð með marmelaði og svo getum við líka þakkað fyrir okkur á sænsku, þvílík málaséní sem við hjónin erum.

Jæja kæra dagbók þá vil fara að fá þessa sól sem mér var lofað því mikið er mig farið að vanta garnið! Bless í bili.


Hvíldardagur!

Kæra dagbók þá er sól og sæla úti en ég var ekkert að leggja það á mig að fara út að skokka í morgun fór þess í stað í góðan göngutúr og kom við í kuffulaginu og verslaði í gogginn. Það var vís kona sem sagði mér að mikil hreyfing borgaði sig ekki, samanber skjaldbakan "ekki hreyfir hún sig mikið samt verður hún 200 ára".

Ég tók nokkrar myndir á leiðinni hingað yfir á sjúkrahúsið og var að setja þær inn, veðrið er að vísu betra núna en fyrir klukkutíma. Ég tók engar myndir úr sameiginlegu aðstöðunni í húsinu en hún er líka mjög fín.

Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að hann mágur minn hlaupi úti alla daga og mér er mikið létt því með þessu áframhaldi þá næ ég aldrei dönskukennurunum og er því komin með "plan B" Huldar nær dönskukennurunum og fer fram úr ég bíð svo á marklínunni með drykki, frábært!

Eyjólfur er ekki orðinn góður í maganum en kannski kemst hann aðeins út seinni partinn, það er svo hressandi.

Jæja kæra dagbók bless þar til næst.

 

 


Annar dagur!

Kæra dagbók þá upprunninn laugardagur. Stofnfrumurnar runnu vel inn hjá Eyjólfi í gær og hjúkrunarkonan, Sigrún sem er íslensk, var hjá okkur allan tímann orðaði þetta svo "ykkur kemur svona vel saman, þér og þjóðverjanum". Mjög algengt er að stoppa þurfi í gjöf og gefa stera eða bælandi lyf vegna þess að einhver ofnæmisviðbrögð koma fram en þetta bara rann inn og ekkert mál. Það var mjög gott því óneitanlega vorum við svolítið stressuð. Eyjólfur er með í maganum, einhverja bakteríu í þörmunum sem er ekki tengt við stofnfrumugjöfina en blossar oft upp hjá fólki þegar ónæmiskerfið er skert, þetta er þreytandi og erfitt en á að ganga yfir á tveimur dögum því hann fær lyf við þessu.

Í morgun rigndi eins best gerist úr góðri sturtu, logn og svo flott veður til að hlaupa eða skokka í, alveg óskaveður. Prinsessan á bauninni féll þó ekki í þá freistni að fara út að skokka heldur fór að þvo og pússa spegla. 

Ég gisti hér á spítalanum hjá Eyjólfi í nótt, reyndar ekki til að hugga hann heldur vegna þess að við gleymdum okkur yfir bíómynd í sjónvarpinu og ég nennti ekki og þorði ekki að labba heim þessa 200 metra ein í svarta myrkri og rigningu. Leiðin er samt mjög skemmtileg og öll upplýst í gegnum skógarrjóður og á leiðinni eru vísanir í ýmis ævintýri eins og "Bróðir minn Ljónshjarta" og ýmislegt annað sem á að gleðja börnin sem dvelja hér á spítalanum og hafa svo ásamt fjölskydu aðstöðu í Ronalds McDonald húsi eins og við sem fylgjum mergskiptasjúklingum um langan veg til lækninga.

Bestu þakkir fyrir allar góðu kveðjurnar í bundnu og óbundnu máli.

Bless bless  kæra dagbók.


8. maí!

Kæra dagbók þá er 8. maí runnin upp og á þessu augnabliki sitjum við gamla settið og bíðum eftir stofnfrumunum sem koma líklega fljúgandi frá Steinríki um hádegi.

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag... heppinn Sólveig að ég er ekki nálæg til að syngja því það á allsekki að pína afmælisbörn, til hamingju með daginn og við óskum þér alls hins besta í framtíðinni. Nú komum við til með að eiga þennan dag saman. Hafðu það sem allra best í dag, þú ert jú að ná okkur og eins gott að Huldar fari vel með þig : ) 

Eyjólfur er búinn að uppgötva að það er slæmt að hafa "viðhald", erfitt að hreyfa sig um herbergið og fara á klósettið, muna að halda alltaf utanum það við minnstu hreyfingu en núna er bara einn kútur á viðhaldinu.

Úti er sól og 15°C, svolítill vindur en það er ekki svona gott heima, þar kæmist ég ekki út í dag samkvæmt veðrinu á mbl.is en hér sit ég inni og veit að ég get skroppið í göngutúr á eftir, æðislegt. Enda er ég búin að minnka asmalyfin um helming síðan ég kom hingað, var komin á fjórfaldan skammt sé fram á að komast í eðlilegan skammt áður en ég skrepp heim í útskrift og eins gott að Ísland taki vel á móti mér.

Jæja kæra dagbók kannski verða einhverjar fréttir seinna í dag en allavega bless þar til næst kæra dagbók.


Hikkstinn ógurlegi!

Kæra dagbók núna er þriðji dagur í hikksta hjá Eyjólfi, ég væri orðinn geðveik, hann er nokkuð þreyttur á þessu. Einu sinni var mér sagt að þrýsta á ákveðinn blett við eyrað þá hyrfi hikkstinn, málið er að við  munum ekki hvar þessi blettur er : ( só!

Á morgun eru það svo stofnfumurnar en við vitum ekki klukkan hvað í raun veit það enginn fyrir víst, bara um leið og þær koma frá Steinríki.

Ég skokkaði í morgun, þetta var næstum því hlaup og með þessu áframhaldi þá mega dönskukennararnir fara að vara sig þeir fara að sjá í iljarnar á mér, ég kem til með að ná heilum hring á sama tíma þeir lötrast fjóra í lok sumars. Annars er ég búin að skrá allan hlaupahópninn í Stokkhólmsmarathon 30. maí næstkomandi, gisting hjá mér í flatsæng, drykkir á eigin kostnað.

Nú fer að styttast í útskrift hjá litla barninu mínu. Ég áætla að koma heim síðdegis 22. maí og fljúga út aftur eldsnemma 24. ef allt gengur vel. Þann 23. er útskrift og daman er enn skólaus, ó mæ god.  Víð mægur erum að ráðgera veisluhöld, okkur og vinum og vandamönnum til mikillar ánægju. Því miður litaðist útskrift Vigfúsar um jólin af veikindum Eyjólfs því hann var þá ný greindur og í fyrstu meðferð. Vigfús var samt flottastur og fékk kökur og við skáluðum í freiðivíni. Ég er  búin að ráða afskaplega fínar uppvörtunardömur (eins og voru á Hressingarskálanum í gamla daga) og fá inni hjá tengdaforeldrunum (veit ekkert hvernig ástandið verður heima þar sem á að vera búið að skipta um parket en er ekki byrjað og ekkert á sínum stað) en meira er ekki búið að undirbúa. Jú reyndar frú Sólveig svilkona sem einhverra hluta vegna hefur fengið úthlutað 36 tímum í sinn sólahring, já ég er sko búin að fatta af hverju hún kemur svona miklu í verk, hún á að vera gestur í veislunni ekki að vinna en hún er allavega komin með eitt verkefni fyrir veisluna og svo finn ég örugglega fleira eitthvað verður konan að hafa að gera með allan þennan tíma.

Kæra dagbók þá kveð ég að sinni og við þökkum fyrir allar góðu kveðjurnar sem við höfum verið að fá bæði á bloggið og í tölvupósti, takk allir það er svo gaman að heyra frá ykkur.


Myndir!

Kæra dagbók ég vildi aðeins taka fram til að forðast allan misskilning að skoði maður kort af Gallíu þar sem Ástríkur og félagar bjuggu þá náði hún yfir í Þýskaland en var ekki einvörðungu þar sem Frakkland er nú.

Ég var að bögglast við að setja myndir inn á þig kæra dagbók og ef maður smellir á þær þá er hægt að skoða þær nánar og bullið sem fylgir þeim.

Ég skellti mér í Fittness-senterið í morgun og reyndi að endurvekja vel hvílda vöðva og nú spyrjum við bara að leikslokum. Hress er bara miklu betra. Það var engin sturtusápa, enginn blásari og ef einhver hefði opnað hurðina á búningsklefanum þegar mín væri að "tilbúa" sig þá væri einhver í sjokki núna svo vel sést inn en guði sé lof fyrir hina sem í stöðinni voru þá átti enginn annar leið um klefann á mínum sturtutíma, heppnir "fittness" iðkendur. Það sem ég saknaði þó mest var kaffisopinn og hressu hressvinirnir. Þið verðið nú bara að skoða málið, ég er með gistipláss og svo er bara að koma upp kaffiaðstöðu.

Nú er farið að draga af Eyjólfi, "eiturefnin" farin að segja til sín og ef hann mætti ráða lægi hann upp í rúmi undir sæng (laki) en nei nei: fram úr og ekkert væl ef hann væri ekki tengdur við viðhaldið þá væri búið að reka hann út í göngu. Svona er konan hans ákveðinn, nei  svona er þetta bara í henni Svíþjóð.  Hann er allur að vilja gerður að fara rétt og vel eftir öllu, gera æfingjar, borða og fara fram úr en ég sé að þetta er ekki auðvelt.

Jæja kæra dagbók ég nenni ekki að tala við þig lengur.

 


Nýjar fréttir.

Kæra dagbók við vorum að fá þær fréttir að merggjafinn er þýskur og eins og læknirinn orðaði það "identical" og hann var mjög ánægður með samsvörunina.

Sem sé það er einhver góður þýskur karl með eins merg og Eyjólfur. Einhverra hluta vegna áttum við frekar von á Norðmanni eða Svía en okkur hefur alltaf líkað svo rosalega vel að ferðast um Þýskaland og Eyjólfi ekki síður, þarna  er kannski einhver skýring. Ég er viss um að Ástríkur og Steinríkur eiga einhvern hlut að máli, allavega eru kraftar Eyjólfs í ætt við Steinrík og ég er ekki frá því að rólegheitin eigi þeir líka sameiginleg, báðir seinþreyttir til vandræða.

Læknirinn er mjög ánægður með gjafann en við fáum ekkert að hitta hann, það fer hjúkrunarfræðingur héðan og nær í merginn til Þýskalands og flýgur svo beint hingað.

Bless bless kæra dagbók.


5. maí

Kæra dagbók af mér er allt gott að frétta, ég villtist ekki í dag, skokkaði bara í hringi og lenti tvisvar á Ronald McDonald. Reyndar var mér fróðari teiknimyndaáhorfandi að fræða mig á því að Ronald McDonald væri trúðurinn í Simson en ég verð nú að segja að hús er mun vinalegra en trúðurinn vansæli.

Eyjólfur var tengdur við flöskur í allan gærdag 12 klukkutíma en er bara hress.Hann verður eitthvað minna tengdur í dag og kannski kemst hann í matarboðið með mér í kvöld á títt nefndum Ronald.

Við  fengum mjög góða heimsókn áðan. Gamall nemandi minn (reyndar kornung stelpa) sem verið hefur hér í sömu meðferð og Eyjólfur leit við hjá okkur. Það var mjög gott að hitta hana og manninn hennar og sjá þau svona hress en þau eru búin að vera hér síðan 17. janúar og fara heim á föstudaginn.  Þau bera öllu vel söguna og það er voða gott að fá svona fréttir og hitta svona jákvætt fólk.  

Gaman að sjá kveðjurnar frá lesendum á blogginu, bestu kveðjur til ykkar allra sem nennið að lesa þetta bull!

Jæja kæra dagbók þá segi ég bara bless þar til næst.


Mánudagur!

Kæra dagbók þá er það nýr dagur með engum axarsköftum enn!

Ég fór í morgun og skoðaði líkamsræktarstöðina og mér líst bara vel á, alveg tilvalið að horfa á hana.

Við fengum góðar upplýsingar og útskýrinar á framhaldinu hjá yfirlækni, aðstoðalækni og yfirhúkrunarkonu beinmergsskiptanna. Óþjált, utleggst þrír aðlilar sem sjá um beinmergsskiptinn komu og útskýrði ferlið mjög vel fyrir okkur hjónum.

Eyjólfur verður meira og minna tengdur við poka í dag en við gerum ráð fyrir göngutúr eftir 18:00 að staðartíma, þar sem Íslendingar eru svo langt á eftir þá er klukkan bara 16:00 á Íslandi.

Kæra dagbók okkur hjónum líður bara vel ennþá en þú færð að heyra frá mér síðar!


Hvað lærði ég á sjónum?

Kæra dagbók mikið er nú gott að eiga þig að þagmælska og prúða! Í morgun fór mín út að hlaupa, hraðinn fyrstu fimm lögin var það mikill að ákveðnir dönskukennarar hefðu rétt slefað fimm sinnum lengri vegalengd á sama tíma ef þeir hefðu ekki verið að flýta sér. En... eftir fimmlög taldi ég mig vera á heimleið en eitthvað var sólinn á röngum stað á himinhvolfinu og í stað þess að taka mið af því eins og ég veitað á að gera þá ákvað ég að ég væri að hlaupa til baka. Þó var ég ósátt við sólaganginn og eftir að hafa ýmist skokkað eða gengið götu eftir götu í "litla" fallega mannlausa dúkkuhúsahverfinu var mér eiginlega hætt að lítast á að ég kæmist til Eyjólfs fyrir Jónsmessu en guði sé lof fyrir hunda og þeirra eigendur (þetta hélt ég að ég ætti aldrei eftir að segja) þá mætti ég slíkum félögum að viðra hvorn annan og gat spurt þá til vegar á minni líka góða sænsku. Annar félaginn svaraði mér á sænsku og ég fór eftir þeim leiðbeiningum og komst á réttan skógastig og heim í sturtu. Ég lærði sem sé tvennt í dag: 1. Aldrei að hætta að nota það sem hingað til hefur gefist mjög vel, í þessu tilfelli að fara eftir sólarstöðu og 2. ég er nú bara fjári góð í sænsku (ég gat líka pantað mér hvítvínsglas á bar í gær á sænsku og fékk hvítvínsglas sem sé get alveg bjargað mér á sænsku).

Núna sit ég upp á spítala hjá eiginmanninum, búin að sturta mig og borða góðan morgunverð. Hann er nokkuð þreyttur sem að vissu leyti skírist af daglegum göngutúrum síðdegis og æfingum tvisvar á dag sem ekki hefur verið á dagskrá lengi. Hann étur pillur í tonnavísu og ágætan mat á milli og er bara hress eins og frúin fljótfæra.

Jæja kæra dagbók þá segi ég bara bless í bili og hvet alla til að skrifa í gestabókina það er svo gaman að fá kveðjur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rannveig Vigfúsdóttir
Rannveig Vigfúsdóttir
Kennslulkona í leyfi frá störfum. Með mikla hreyfi þörf og ferðafíkill en sækist mest eftir hlýju loftslagi.

Færsluflokkar

Nýjustu myndir

  • Kærustuparið!
  • Taka tvö af Kærustuparinu!
  • Prinsessan!
  • Jón Leifs!
  • myndir student 055

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 105
  • Frá upphafi: 958

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 105
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband