Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
11.8.2009 | 11:25
Alltaf á iði!!
Kæra dagbók nú er prinsessan svolítið sein með dagbókina en rekin fyrir allar aldir á lappir til að fara með kærastanum upp á sjúkrahús í blóðprufu . Klukkan hringdi 10 mínútum fyrir sjö sem þýðir fyrir fimm að nóttu á íslenskum tíma, allt í lagi að aðlagast sænsku krónunni en prinsessan heldur sig við íslensku klukkuna þegar henni hentar . Nú er kærustuparið komið heim og er að sjálfsögðu örþreytt því vaninn er að skríða ekki framúr fyrr en um átta leytið, sex að íslenskum tíma, það þykir alveg nógu snemmt samt.
Í gær fór kærustuparið í óopinbera heimsókn í "Drottningholm" en þar býr sænska konungsfjölskyldan. Siglt var með ferju sem er smíðuð árið 1909 en lítur mjög vel út og er stöðug. Kærustuparið fékk sér að borða á leiðinni, ágætan mat og naut þess að fylgjast með landslaginu . Heitt og gott veður var í "Drottningholmen" og þar er fallegt um að litast en ekki var farið í miklar skoðanaferðir innan dyra þar sem Karl Gústav er ekki búin að lyftuvæða hýbýli sín. Gardínur sáust bærast í konungshöllinna og var það eflaust fjölskyldan að fylgjast með hinum tignu gestum sem spígsporuðu um hallargarðinn , vonandi að gestirnir hafi ekki vakið ugg hjá konungsfjölskyldunni því ekki var á áætlun að nema land í hólminum, aðeins að skoða sig um og láta Hagaparken duga, í bili allaveg . Eitthvað er þó í undirbúnini það sést best á því að við inngang hallarinnar eru blómsturker á súlum og á þeim er fangamark kærastans, ERS, eins og sést á meðfylgjandi mynd .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.8.2009 | 08:30
Slysavarnarkonan!
Kæra dagbók nú gaus slysavarnakona upp í prinsessunni í gær já í stað þess að rjúka í hjólatúr með kærastann sem er rétt að ná því að verða hálfur maður þá ákvað prinsessan að stuttur göngurtúr og bókalestur á bekk væri betur við hæfi. Já kærustuparið tók því rólega fyrripart dags á "landareigninni" með nesti og bækur. Síðan var farið í smá göngutúr, upp í móti, á kaffihús upp á hæð í skóginum. Þar afgreiddu broshýrir ungir piltar og báru fram þessar líka fínu kökur en því miður er bara opið um helgar . Þannig að það verður eitthvað erfiðara fyrir prinsessuna að ná upp kílóunum sem kærastinn missti .
Eftir kaffihúsið var gengið heim og kærastinn fór í hvíld en prinsessan fór í leiðangur um landareignina á hjóli, til að ná meiri yfirsýn . Margir voru í heimsókn á landareigninni, ýmist að grilla með fjölskyldunni, skokka, ganga eða hjól en allir að njóta góða veðursins . Prinsessan myndaði kopartjöldin sem hún hafði verið svo ósmekkleg að halda að væru einhver "Hollywodd" fyrirbæri, samanber samnefnt hús sem stóð við Strandgötuna í Hafnarfirði og bar feikilega "glæsilega" framhlið en var dæmigert hafnfirskt íbúðarhús aftanfrá. Þessi í Hagaparken voru byggð 1760 fyrir varðsveitir konungs .
Slysavarnakonan gaus aftur upp í hjólatúrnum hjá prinsessunni þegar hún horfði á fólkið grilla á einnota grillunum og fór hún að velta fyrir sér skógareldunum á Spáni en ekkert bar á sírenuvæli í gærkvöldi svo að allt hefur gengið vel .
Nú ætlar kærustuparið að gera eitthvað sniðugt í dag og þú fréttir af því síðar .
Bless kæra dagbók og nú fer að styttast í Íslandsför kærustuparsins en áætluð heimför er 1. september, kveðja til allra .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2009 | 08:43
Lyftubilun og önnur bilun!!
Kæra dagbók um hádegisbil í gær fór kærustuparið hjólandi lengstu vegalengdina síðan komið var til Svíþjóðar, um fjóra kílómetrar . Þetta reyndi töluvert á kærastann þó allt væri niður á við eða lárétt, smá upphalli undir lokin. Nú átti að taka lyftu upp á hæðina þar sem jazz-veitingastaðurinn er, lyftugarganið reyndist lokað/bilað og þá voru í boði ca. 200 tröppur eða að ganga stóran hring og allt upp á við, fjallganga. Kærastinn valdi tröppurnar þó læddist að prinsessunni að hætta við og snæða annars staðar eða bara taka leigubíl en þar sem prinsessan er svo hógvær þá réðst hún á tröppurnar með kærastanum í 27° hitanum og sterkri sólinni . Prinsessan hafði nú ekkert nema gott af þessu þrammi og hefði alveg mátt fara fleiri ferðir, kærastinn hins vegar kláraði sig , fékk sér að borða, hlustaði lítið á tónlistina og beint í leigubíl og heim. Eftir að hafa lagt sig í tvo tíma var hann orðinn eitursprækur aftur og er enn þannig að hann hafði ekkert slæmt af þessu nema þá slæma samvisku prinsessunnar . Hún lagðist hins vegar í sólbað á landareigninni, las og prjónaði með móral yfir biluninni en þá birtist kærastinn með rauðköflóttu kælistöskuna og dró upp tvö glös og litla freyðivíns flösku, ískalda, æðislegt .
Hér er sama blíðan í dag og áætlað er að æfa lítið og rétt í dag, taka smá hjólatúr inn í Hagaparken og skoða sig betur um. Prinsessan er búin að uppgötva að byggingar (læt mynd inn seinna) sem hún hélt að væri einhver óskapnaður settur upp fyrir svona 10 árum, er í raun frá 1760 og kallast "Koppartälten" eða kopartjöldin á íslensku. Eins og nafnið gefur til kynna þá lítur þetta út eins og tjöld, reyndar eins og tjöldin í Ástríki, rómönsk hertjöld bara úr kopar. Þetta var húsnæði fyrir konunglegar varðsveitir en þarna er núna safn og veitingastður ásamt því að hýsa leiksýningar. Kærustuparið hefur það á áætlun sinni í dag að kanna þessi "tjöld" nánar og umhverfi þeirra .
Bless kæra dagbók og prinsessan ætlar að reyna að bila ekki í dag en áhættan er fyrir hendi, bestu kveðjur .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2009 | 08:55
Letilíf!!
Kæra dagbók það má með sanni segja að prinsessan á bauninni lifði sannkölluðu prinsessu lífi í gær Það er annað sem af er þessum degi . Prinsessan er búin að standa í stórþvotti síðan uppúr sjö í morgun, agalegt að leggja þetta á eina prinsessu, tvær þottavélar í einu, heill þurrkari og upphengjur, þvílíkt álag og ofan á þetta baðherbergisþrif, örugglega hátt í 3 fermetrar. Ekki er allt búið heldur þurfti prinsessan líka að næra sig, ja hérna . Annað var með gærdaginn þá lá prinsessan ásamt kærastanum á landareigninni, fáklædd og naut sólar . Prinsessan stundaði einnig kvenlegar dyggðir, sat að prjónaskap á eigin hönnun ásam því að lesa bókmenntir, "Leynda kvöldmáltíðin". Kærastinn sat við lestur á rónabekk í skugganum og virtist una glaður við sitt enda nóg af nesti með í för, kaldir drykkir í fínu rauðköflóttu kælitöskunni, snúðar og súkkulaði og hvíld á teppi þess á milli .
Nú er að taka til við konunglegt líferni aftur og drífa sig á hjólin og láta sig renna niður í bæ og yfir í Södermalm fara þar í brunc og hlusta á lifandi jazz á meðan snætt er. Staðurinn heitir "Mosebacke" og þar er góður matur og góð tónlist svo dagurinn ætti að hæfa kærustuparinu .
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur til ykkar sem eruð að nýta íslenska sumarið ykkur til gagns og gleði!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.8.2009 | 09:13
Opinbermóttaka!
Kæra dagbók þá fór fram fyrsta opinbera móttaka prinsessunnar á kærastans á landareigninni í gær . Mættir voru gestir frá Íslandi, fyrrverandi samstarfsfólk kærustuparsins, Kristbjörg og Gulli. Hirðljósmyndarar voru á svæðinu og var aðburðuinn festur á filmu bæði hreyfimyndir og ljómyndir. Gerð var úttekt á kaffihúsi í garðinum sem býður upp á heimabakað bakkelsi en einungis er opið í góðviðri sem að sjálfsögðu er alla daga. Snætt var í utandyra og valið að sitja í skugga, þannig að hægt var að sitja lengi og njóta veðursins, umhverfisins og ekki síst samverunnar . Kaffihúsið fær ágætiseinkunn, frekar hrátt og mætti alveg fá mýkri stóla en veitingar góðar og vel útilátnar og verðlag gott sem og glaðleg þjónusta. Örlítið var gengið um landareignina og aðstæður kannaðar, einungis ein lítil kanína heilsaði upp á prinsessuna og samferðarfólk sem er mun minna en vanalega og lítð bar á flugu, engar athuganir voru gerða á veiði. Endað var á Ynglingagatan 3 þar sem einungis "unglinar" voru þarna á ferðinni.
Áður en að móttökunni kom hafði kærustuparið heiðrað sjúkrahúsið í Huddinge með nærveru sinni og var almenn ánægja lækna og hjúkrunarfólks þar með kærastann og því er kærustuparið sælt og ánægt og ætlar að njóta góða veðursins í dag.
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur til allra og sérstaklega til þeirra sem fylgjast með skrifunum um prinsessuna og hennar duglega kærasta .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.8.2009 | 08:48
Ævintýraverur!
Kæra dagbók þegar að prinsessan á bauninni er annars vegar eru aðrar furðu verur óneitanleg á næsta leyti . Þannig var það allavega í gær, þá átti kærustuparið stefnumót við frú Sigríði Ólöfu sem gerði hér stutt stopp á ferð sinni til Eskilstuna en þangað fór hún til að heimsækja barnabarnið og óhjákvæmilega fylgja þá foreldrar barnsins með .
Kærastinn bar fram þá ósk að snæddur yrði "lunc" á uppáhalds hádegisverðarstað hans, uppáhalds rétturinn. Þetta kom sér vel fyrir prinsessuna og ÖMMUNA því þetta er veitingastaður sérhæfður í fiskréttum en AMMAN og prinsessan eiga það sameiginlegt, ásamt ýmsu öðru, að vera með ofnæmi fyrir fiski. Einn réttur á matseðlinum inniheldur ekki fisk og sem betur fer er ekki verið að þynna hvítvínið með fisksoði þannig að kvenpeningurinn undi glaður við sitt . Ævintýrafólkið naut dagsins og AMMAN náði lestinni, á síðustu stundu þó og gat tekið ferðatöskuna með . Rétt áður en AMMAN kvaddi rétti hún prinsessunni fríhafnarpoka og sagðí: "hélt ykkur vantaði þetta". Áður var nú kærustuparið búið að reyna að sannfæra ÖMMUNA um að ekkert vantaði í SVíþjóð . Eftir að hafa kíkt í pokann er prinsessan sannfærð um að AMMAN er rammgöldrótt gott ef hún flýgur ekki um himinhvolfin á næturnar á strákústi . Upp úr pokanum kom hvítvíns flaska og íslenskt lakkrískonfekt. Kvöldinu áður hafði kærustuparið ákveðið að kaupa hvítvínsflösku á heimleiðinni frá stefnumótinu, eins hafði kærastinn nefnt að kannski hefði hann átta að biðja frú Sigríði Ólöfu um að koma með lakkrískonfekt en nei of mikil framhleyppni. ERGO frú Sigríður Ólöf er galdranorn af bestu sort .
Eftir hádegið er blóðprufa á sjúkrahúsinu og síðan á að hitta aðra ferðalanga frá Íslandi en stefnumótið er á landareign prinsessunnar. Þessir ferðalangar eru sem sé í eftirlitsferð og ætla að tékka á kaffinu og heimabökuðu kökunum í Hagaparken með kærustuparinu .
Bless kæra dagbók hér er sól og sæla og vonandi eru ónefndir Íslendinar ekki að gera útaf við sig með hjólataúrum, hlaupum og fjallgöngum því eitthvað verður að vera eftir fyrir prinsessuna þegar hún kemur heim .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.8.2009 | 09:37
Aftur til fortíðar!!
Kæra dagbók þá hefur prinsessan á bauninni enga afsökun lengur og brá því á þann gamla vana að fara út að skokka í morgun á landareigninni . Prinsessan stóð sig þetta líka vel að þegar hún komst í endabúðir biðu tveir hérar og fögnuðu henni, þeir voru mjög ánægðir að sjá prinsessuna aftur á skokkinu og hneigðu sig þegar hún kom í mark .
Dagurinn í gær var rólegur hjá kærustuparinu og veðurblíðan nýtt til hins ítrasta, setið í "Bellevue parken" en þar þarf að fara í gegn til að komast í "Hagaparken" sunnan megin frá. Þetta er sá hluti sem prinsessan nam fyrst land í en hefur nú töluvert fært út kvíarnar og er þetta eingungis inngangurinn. Þarna er gott að sitja, bæði í grasinu og á bekkjum. Prinsessan las, prjónaði og sólaði sig en ekki allt í einu. Kærastinn las og hvíldi sig í skugganum og að sjálfsögðu var nesti með í för, ískalt gos og vatn, alveg satt og nýbakað "crossant".
Í dag á kærustuparið hins vegar stefnúmót við Íslending í miðborginni og ætlunin er að snæða "lunc" saman en Íslendingurinn, Frú Sigríður Ólög, ætlar bara að stoppa hér í nokkra klukkutíma til að hitta hefðarfólkið .
Bless kæra dagbók hér er spáð einmuna veðurblíðu út ágúst þannig að nú er hægt að byrja að pakka peysum og hlýrri fatnaði .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.8.2009 | 08:11
Prinsessa eða ekki prinsessa!!
Kæra dagbók það er nú eins gott að prinsessur hafi einhverja aðra til að hugsa fyrir sig annars er aldrei að vita hvernig færi fyrir prinsessum sérstaklega þessari á bauninni. Prinsessan á bauninni er prinsessan á bauninni vegna þess að ýmislegt sem "almenningur" verður lítt eða ekki var við veldur prinsessunni óþægindum í besta falli og lífshættu í versta falli . Oft á prinsessan í mestum vandræðum að átta sig á "óþægindum", henni er nú vorkunn blessaðri en hér um árið sýndi hún frábæra útsjónarsemi sem hefur oftar en ekki bjargað henni. Fyrir rúmum þrjátíu árum þáði hún dans hjá ungum sveini og hefur haldið fast í þennan svein síðan og það varð enn einu sinni henni til bjargar núna .
Undan farnar vikur hefur þreyta ágerst hjá prinsessunni og hún er að vakna með bjúg eins og eftir viku fyllerí sem náttúrulega er ekki hennar deild og eins hefur borið töluvert á asma og öðrum ofnæmis einkennum þrátt fyrir að taka lyfin rétt og einkennin hafa verið hunsuð, gjörsamlega . Þetta hefur leitt til lítillar líkamsræktar og afslöppunar á vöðvum sem hefur valdið enn meiri lúa . Prinsessan var með skýringar á reiðum höndum; "þetta er bara eðlilegt eftir allt sem á undan er gengið nú er bara að hvíla sig" og svo var hvílt og hvílt og hvílt og prinsessan varð bara þreyttari og þreyttari og þreyttari og bólgnari og bólgnari og bólgnari . Þannig að þá vitið þið það prinsessan er ekki feit hún er bara svo bólgin!!! Kemur þá að þætti kærastans hann sér nefnilega um að hugsa í þessu sambandi og framkvæmir í kjölfar hugsunar, prinsessan hins vegar framkvæmir og talar áður en hún hugsar . Sem sér kærastinn uppgötvar að út um alla íbúð eru mottur ofan á parketinu og þar sem kærastinn hugsar og framkvæmir svo þá tók hann allar mottur af gólfum og lét inn í geymsluskáp því hann mundi alveg að prinsessan þolir ekki ryk, líkamlega en alveg andlega. Í ljós kom að motturnar voru mettaðar af ryki og skít og gólfin undir þeim, svo nú dreif hann sig í að ryksuga og þetta gerðist allt á meðan prinsessan var úti að versla í matinn, nema hvað. Þegar prinsessan kom heim æddi á móti henni betra loft og allir gluggar opnir upp á gátt og prinsessunni líður strax miklu betur líkamlega en er alveg í rusli yfir því hvað hún getur alltaf verið fattlaus. Hér sannast enn og aftur að prinsessan á bauninni er það með rentum .
Kæra dagbók nú er það bara spurning hvort prinsessan fari að verða svo hress að hún haldist ekki heima við heldur verði á hlaupum útum alla borg og vanræki þig, nei það gerist ekki og skilaðu nú bestu kveðjum til allra líka þeirra sem stelast í tölvunrnar hjá mömmunum sínum !!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.8.2009 | 07:58
Ein á hraðferð.
Kæra dagbók þá er prinsessan aldeilis á hraðferð í dag því hún er að fara með kærastanum í tékk upp á sjúkrahús . Búin að hlaupa útí "kuffulag" á þeirri forsendu að það vantaði nýtt brauð en laumaðist til að versla sér eitt stykki af "fræðsluefni" . Í því blaði er allt upp brjósta minnkanir, já nú eru Victoría Becham og þær "frýr" allar að láta minnka á sér brjóstin, hvað gera prinsessur sem aldrei fóru í brjóstastækkun þá? Það sem hins vegar vakti mun meiri áhuga hjá prinsessunni var stór og mikil grein um tilvonandi "leiguþý" prinsessunnar þar sem verið var að fjalla um veikindi Daníels (kærasta Victoríu krónprinsessu Svía). Faðir Daníels gaf honum nefnilega nýra úr sér í vor þar sem Daníel er með nýrnasjúkdóm frá fæðingu og heilsa hans í hættu en nú er allt á góðri leið. Hvar heldur þú kæra dagbók að aðgerðin hafi farið fram nema á Karolinska sjúkrahúsinu í Huddinge , þannig að við prinsessurnar tvær vorum þarna með kærastana inni á sama tíma og þar afleiðandi báðar að vafra um ganga. Furðulegt að við skildum ekki rekast á hvor aðra, kannski að einhver hafi bara komið í veg fyrir það, of mikið álag á eitt sjúkrahús! Daníel mætir líka í reglulegt eftirlit á Huddinge svo nú er bara að drífa sig upp eftir og athuga hvort prinsessan rekist ekki á tilvonandi "leiguþý" sitt og geti farið að ræða samningana.
Bless kæra dagbók hér er sól og blíða eins og í gær og allt í góðu gengi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.8.2009 | 09:09
Íslendingar = Hafnfirðingar!
Kæra dagbók þá má nú segja að prinsessan og hennar kærasti hafi átt góðan dag í gær . Kærustuparinu var sem sé boðið til mannfagnaðar og því var ákveðið að taka því rólega fyrri hluta dags. Prinsessan tók að sér það óeigingjarna hlutverk að hjálpa kærastanum við hvíldina og því hvíldi hún sig af krafti fyrri hluta dags . Upp úr þrjú skreiddist prinsessan þó í sturtu og tók svo til við að hafa sig til og komst að því að þegar pakkað var í vor var ekki gert ráð fyrir boðum á nokkurn hátt og því fátt um fína drætti í fataskáp prinsessunnar. Þar sem hún er nú einu sinn prinsessa dó hún ekki ráðalaus og náði í sparibrosið og glossið og var tilbúin.
Þar sem prinsessan lærði til kennslukonu á yngri árum og er haldinn þeirra áráttu hegðun að hafa hlutina á hreinu þegar lagt er upp í "langferðir" þá skrifaði hún nákvæmlega niður heimilisfangið á áfangastað á tvo aðskilda miða ásamt því að skoða vegakortið ítarleg, allt á hreinu. Þegar leigubíllinn mætti svo á svæðið var leigubílstjórinn, kvenmaður að þessu sinni, tekinn í kennslustund og fylgst var vel með þegar pikkað var inn í leiðarkerfið að allt væri nú rétt þannig að við enduðum á réttum stað . Nú átti sko að fylgjast með að ekki yrði villst af leið því leiðin var löng og ekki á bætandi með villu útúrdúrum. Að þessu sinni var önnur hver gata lokuð í miðborginni vegna framkvæmda eða þá vegna Gay-pride sem er hér þessa dagana. Þar sem við urðum að fara í gegnum miðborgina varð þetta til að breyta út af leið og þá varð nú blessuð prinsessan svolítið rugluð (stressuð) en sem betur fer áttaði hún sig þegar komið var til "SöderMalm" og gat gripið inn í stjórnina ef eitthvað skyldi nú bregða út af, prinsessan sat uppspennt í aftursætinu og taldi götur og las skilti . Loks nam bifreiðin staðar við fallegt hús þar sem einungis tvær fínar bifreiðar stóðu við, úps ; rangt hús, rangur tími, rangur dagur eða boðinu aflýst, leigubílstjóranum leist heldur ekkert á þetta og bauðst til að hinkra sem var að sjálfsögðu þegið með þökkum. Prinsessan hringdi á bjöllu og til dyra kom stórglæsileg ung kona, á íslensku spurði prinsessan "er ég á réttum stað" með öndina í hálsinum, unga konan svaraði um hæl "já! velkomin" á lýtlausri íslensku, ! Auðvita var þessi unga kona íslensk svona líka glæsilega og elskuleg. Þarna var hópur af glæsilegum Íslendinum samankomin og stærsti hlutinn voru Hafnfirðingar eða tengdust Hafnarfirði á einhvern hátt. Kærusuparið naut sín og átti skemmtilega kvöldstund með skemmtilegu og elskulegu fólki. Þarna sannaðist hið fornkveðna "maður er manns gaman" alla vegamannfagnaður er kærustuparsins gaman .
Kæra dagbók hér er sól og sæla og kærustuparið sendir bestu þakkir til veisluhaldara, þetta var góð vítamínsprauta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar