Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
31.5.2009 | 10:34
Aumingja tengdamamma!!
Kæra dagbók nú sé ég það alveg fyrir mér að tengdamamma situr í öngum sínum því klukkan er orðin 10:00 heima og ekkert blogg, hún sem dreif sig á fætur, fyrir allar aldir, til að lesa þessi stórgóðu skrif hjá tengdadótturinni en hvað? Er frúin í Svíþjóð hætt eða löt hvað hefur gerst. Þá er sko komið að mér að kvarta já já fyrst fer Eyjólfur að geta talað eftir nær tvær vikur í þögn og þá átti maður sko góðar syrpur, ég held hann hafi aldrei talað eins mikið og eftir þögnina. Hvað með mig þá, jú ég get rétt skotið inn eins atkvæðisorðum með löngu, afar löngu millibili. Svo núna þá er hann orðinn svo hress að hann einokar tölvuna, búin að lesa Moggann og ég veit ekki hvað og hvað í morgun. Ég náði að kippa henni til mín þegar hann skrapp á salernið og nú er um að gera að vera snögg .
Ég varð fyrir yfirnáttúrulegri reynslu í gær nema einhver haldbetri og eðlilegri skýring sé til en þangað til er þetta ótrúlegt . Sem sé í gær sat ég og var að "vafra" á netinu, af því ég hef svo mikið að gera, nema fór inn á bloggsíðuna hann Sigurjóns bróður, redlion og skoðaði þar nokkra tengla og náði að kvarta í hann að það væri enginn tengill á mig en þessi elska var nú fljótur að kippa því í liðinn! Fór svo að skoða tenglana hans og þar er tengill á Siglufjörð, svo ég fór að skoða, enda hef ég verið að hugsa tölvert norður í fjörðinn fagra og áætla að drífa mig fljótlega í heimsókn. Sé ég ekki mynd á síðunni af honum frænda mínum Jóni Andrjesi þar sem honum var óskað til hamingju með afmælið 19. maí, fleiri myndir voru þarna af ættingjum mínum t.d. ömmu og afa og staurnum sem langafi er á og fleira sem ég á eftir að skoða betur. Þarna uppgötvaði ég að Hinni frændi var bara nokkuð lunkinn við myndavélina. Ýmsar útskýringar fannst mér vanta við myndirnar og sendi Sigurjóni bróður póst um að bæta úr þessu og hana nú. Þá kemur að þessu yfirnáttúrulega: sem ég fer út af Siglufjarðarsíðunni fer ég á bloggið mitt til að athuga hvort einhver elskulegur hafi ekki sent okkur kveðju, nema hvað er ekki þarna kveðja úr firðinum fagra frá Jóni Andrjesi frænda og ég fer ekki ofan af því að þetta er ótrúleg tilviljun, trúi því ekki að Sigurjón hafi hringt í hann og sagt honum frá nöldrinu í mér og ólíklegt að nöldrið skili sér á korteri, nei ekki allavega frá Sigurjóni! Allavega bestu kveðjur frá okkur hjónum norður á Siglufjörð og ég man enn textann sem Jón Andrjes söng "Skín við sólu Skagafjörður skí...." já já.
Hér er sól og hiti og við stefnum á smá göngutúr seinna í dag en okkur finnst mjakast í rétta átt og erum ánægð. Bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.5.2009 | 08:58
Þvílík og önnur eins vitleysa í einni frú!!
Kæra dagbók þá er runninn upp sólríkur og heitur sumardagur.
Ég er svo hneyksluð á henni mér að vera að rembast í fitnessinu og verða svo bara þreytt í vöðum á eftir og með vott að strengjum, væri bara ekki betra að hreyfa sig minna og fá bara strengi í kjálkavöðvana. Til að toppa vitleysisganginn hentist frúin á lappir fyrir allar aldir, eða þannig, henti í þvottavélar og skaust út að skokka á þessum líka gífurlega hraða. Ég er viss um að ónefnd kona á leið upp Snæfellsjöku er ekki nema á tvöföldum mínum skokkhraða á uppleiðinni, ég ætla ekki að ræða niðurleiðina. Mér sýnist hún fá gott veður á toppnum, samkvæmt mbl.is, og óska að það sé rétt.
Ekki góðar fréttir af jarðarhristingi heima á fróni, var sá ljóti að fagna eins árs afmælinu, eða voru orð Völvu vikunnar að koma fram. Valvan spáði sterkum jarðskjálfta á suðvesturhorninu í maí, svo má deila um hve sterkur þessi var.
Vona að hún dóttir mín hafi orðið vör við hann, hún er búin að bíða síðan þjóðhátíðarskjálftinn var að finna jarðskkjálfta, mjög spennt. Þá gerði hún þvílíkar ráðstafanir í herberginu sínu eftir fyrsta skjálfann sem var um miðjan dag á 17. júní og við niðri á Víðistaðatúni og að sjálfsögðu varð hún ekki vör við neitt. Næsti skjálfti var um miðnætti, daginn eftir að mig minnir, þann svaf hún af sér og allir minni skjálftar fóru framhjá henni. Fyrir ári var frökenin í vinnunni og skrapp á salernið og einhver var svo óforskammaður að slökkva ljósin! En þegar hún kom fram voru allir að tala um jarðskjálfta og að rafmagnið hefði slegið út. Móðirin fékk áhyggjukast og hringdi þá var mín bara fúl yfir að hafa ekki fundið neitt. Sonurinn hefur hins vegar ekki farið varhluta af jarðskjálftum og stóð í fyrra í búðinni nýbúin að raða vörum í hillur og allt fór af stað.
Hér hins vegar hristast bara vöðvar sem lítið hafa verið notaðir í vetur og má jafna því við 6-7 á ricther .
Eyjólfur er á hægum batavegi og svaf vel í nótt. Við fórum út í sænska skógaloftið í gær og það endaði með samkomu íslensku hvítblæðissjúklinganna og aðstandenda á Karolinska! Þau eru þrjú í meðfer hér núna en við höfum ekkert hist, ein er á sama róli og Eyjólfur, einum degi á undan og þau hafa bæði verið í einangrun sem eðlilegt er, þriðji kom síðasta mánudag og er að hefja ferlið. Það var gott að hittast þarna úti í sólinni og bera saman bækur sína og undrast á tryggingastofnun.
Jæja kæra dagbók þú ættir bara að vita hvað við erum að fá mikið af góðum kveðjum jafnvel frá gamalli skólasystur sem fær örugglega gott veður í dag í golfið og tekur einn aukahring fyrir mig. Annars er víst mjög góð golf aðstaða hér og stutt að fara og vallargjöld með því allra lægst í Evrópu, tékka á því síðar. Bless kæra dagbók
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2009 | 09:15
Framhaldssga!
Kæra dagbók eins og ég nefndi við þig í gær þá var ég að fara að kaupa garn . Ég ætlaði nú ekki að láta einhverja "grumpy" saleswoman vera fúla við mig . Hún á örugglega ekki elskulegan mann og frábær börn og kemur eflaust frá Svalbarða og á bágt en ég ætlaði samt ekki að láta hennar "frustriasjónir" eyðileggja minn dag, hún hafði ekkert með það að vera svona eigingjörn. Ég náði í orðabókina og æfði mig alla leiðina í lestinni, það tekur alveg eina og hálfa mínútu (1og1/2 mín) að fara þessa vegalengd. Ég sat í þungum þönkum og æfði setninguna "ni er mycket oartig mod en ljushårig kvinna fra Island" sú skyldi sko fá að heyra það. Ég hraðaði mér úr lestinni arkaði ákveðnum skrefum að garnabúðinni og snaraðist inn og gékk beint að garninu, tók tvær dokkur og beint að afgreiðsluborðinu. Stendur ekki þarna eldri kona (örugglega tveimur árum eldri en ég) og hún bara brosir fallegu brosi til mín og segir "hej, nu ha vi regn". Ég stóð þarna gjörsamlega óundirbúin og stundi upp "hej" , sú eldri brosti og sagði "någet annat?" og ég stundi "nej tack" , hvað var eiginlega að gerast! "Så er det attioåtta" og ég "Varsågod og tack så mycket". Ég snaraðist út úr búðinni og var jafnmikið miður mín og þegar "grumpy" hafði afgreitt mig, hvernig gat ég hugsað svona illa til afgreiðslustúlku og svo var þessi broshýra og almennileg kona að afgreiða. Hér með er ég hætt að tuða yfir fúlu afgreiðslu fólki, þar til næst.
Eftir sögulegan gærdag dreif ég mig á lappir í morgun, heldur seint og dreif mig í fitnessið. Þar tók ég bara nokkuð stífa æfingu, að mér fannst veit ekki hvort frú Sigríður einkaþjálfari er sammála en ég varð rennandi blaut og þreytt í vöðvunum. Mér var ekki boðið upp á kaffi en ég fann örugglega kaffilykt svo kannski næst! Það var illa mætt í fitnessið, við vorum tvö, almennilegi Svíinn var á staðnum og bauð góðan daginn og virtist alveg vera búinn að fyrirgefa mér lögguna og slökkvuliðsbílana sem mættu síðast þegar ég hitti hann. Svo ég fór heim sæl og glöð en kaffilaus.
Nú er mættur næringafræðingur til að kenna okkur hvernig fæða er æskileg á næstunni fyrir Eyjólf. Hann er mun sprækari í dag og er komin á lyf til að bæla höfnuna og þau eru þegar farin að virka.
Jæja kæra dagbók þá er að taka til við mataruppskriftirnar og fara að prjóna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.5.2009 | 08:17
Hresskellur!
Kæra dagbók nú er ég sem sé smituð! Ég fór að lesa yfir "fésið" í gær og sá að ótrúlegustu "Hresskellur" voru farnar að sofa yfir sig og "skrópa" í ræktinni, hvað er að gerast þarna á Íslandi. Ég hins vega tók til "fitness" dressið í gærkvöldi svo ég þyrfti nú bara að hoppa í það í morgun og mæta spræk og styrkja "kroppinn". Ég vaknaði klukkan 07:03 hress og til í allt, snéri mér á hina hliðina og þá var klukkan skyndilega orðin 08:15, hvað gerðist er mér hulin ráðgát en vegna reglusemi minnar var þetta of seint fyrir mig í ræktina. Ég sturtaði mig bara og fékk mér vænan morgunverð og var svo heppinn að hitta á frænku Emils í Kattholti svo við snæddum saman og böbbluðum á ensk-sænsku, það var hressandi og ekki síðra en ræktin.
Úti er helli rigning og logn alveg frábært veður til að fara út að labba í pollagallanum því það er vel hlýtt um 15-16°C. Reyndar ætla ég að ferðast aðeins á eftir því mig er farið að vanta garn. Ég ætla í Huddinge-center og hitta "Grumpy old saleswoman", hún selur úrvals garn. Hún fór á námskeið áður en hún gerðist garnsölukona, námskeiðið fólst í því að læra að vera fúl og örg sölukona, hún stóðst námskeiðið með prýði og útskrifaðist með bókaverðlaun og í bókinni kemur fram hvernig hún getur viðhaldið þekkingunni. Ég get vottað það að hún stendur sig með stakri prýði og leggur sig í líma við að vera óalmennileg við ljóshærðan kvenmann frá Íslandi sem kann ekkert í sænskri tungu, hún neitar að tala ensku en sem betur fer er allt í lagi með hendurnar á þessari íslensku ljósku.
Læknirinn hún Susan var að tala við okkur áðan og sagði okkur að Eyjólfur væri komin með GVHD eða höfnunar einkenni. Þau geta komið fram á ýmsum stöðum í líkamanu meðal annars í meltingarveginum, og að sjálfsögðu fékk Eyjólfur einkennin þar því hann fékk sýkingu á niðurbrotstímanum í meltingarveginn. Þetta er meðhöndlað með lyfjum og tekur einhvern tíma þar til honum fer að líða betur og svo fer næringafræðingur í gegnum mataræðið með okkur en það þarf að passa á með þetta gengur yfir. Blóðprufurnar koma mjög vel út og allt í góðum gangi þar.
Bless kæra dagbók þá fer ég að undirbúa mig undir að hitta "vinkonu" mína í garnabúðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.5.2009 | 08:31
Það er skýjað!
Kæra dagbók þá er að greina þeir frá stöðunni! Eins og þú veist áætlaði ég að "fitnessa" mig í morgun en þar sem mig dreymdi Hrönn Bergþórsdóttur í alla nótt. Hún hafði svo mikið að gera í draumnum og var samt að hlaupa, sem sé að bjarga heiminum á meðan hún var að hlaupa svo ég ákvað að taka smá skokkhring í morgun. Snákarnir (ekki sniglar)héldu sér í hæfilegri fjarlægð svo skokkið gékk átakalaust fyrir sig ef það er átakalaust að skakklappast lafmóður um dúkkuhúsahverfi stórborga. Ég steingleymdi Flensborgartröppunum (skrítið) þó fannst mér ég hafa unnið kraftaverk þegar ég stóð í sturtunni eftir hlaupin.
Ég er afar kyssuleg núna með frunsu á innanverðri neðri vör og enn stærri á efrivörinni og afsaka letina, að hún sé afleiðing frunsanna. það er svo gott að geta afsakað sig.
Við sitjum hér kærustuparið annað að lesa Eric Clapton og hitt að blogga og höfum það ágætt. Við bíðum eftir frekari fréttum af því hvað er næst á dagskrá hjá Eyjólfi.
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur til allra heima á Ísalandinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2009 | 08:42
Í sól og sumaryl...
Góðan daginn kæra dagbók! Hér er sól og sumarylur og frú Rannveig skellti sér bara í góðan klukkutíma göngutúr í morgun, var ekki tilbúin í skokkið, klikkaði eitthvað á asmalyfjunum í Íslandsförinni. Verð komin á skokkið innan skamms.
Ég gékk út í þeirri góðu trú að snákar héldu sig í vari í sól og hita, nei nei blasti ekki við mér á miðjum göngustíg þessi líka bígsperrti snákur með ótrúlega stórann kjaft. Hann glotti þarna á miðjum stígnum svo ég fór að velta því fyrir mér hvorum megin ég ætti að fara fram úr. Ég stóð þarna með sólgleraugun og horfði á kvikendið en þá virtist renna upp fyrir snáknum að hann ætti ekkert í gleraugnaslöngu svo hann snaraðist út af og ég hélt áfram alsæl á minni morgungöngu.
Eyjólfur er orðinn nokkuð góður í munninum og kokinu og á ekkert erfitt með mál hvernig ætli fari þá fyrir mér. Í dag á að athuga hvernig meltingavegurinn hefur farið í þessum sýkingum og síðan getum við farið að láta okkur hlakka til að flytja í ibúð og koma bara í styttri heimsóknir hér á spítalann til eftirlits og eins vegna höfnunar sem gera má ráð fyrir en þær þurfa ekki að vera miklar, einhverjar eru þó æskilegar.
Ég bíð eftir að fá sendar myndir frá útskriftinni og veislunni til að setja inn á bloggið en ég tók ekki nema 3 myndir sem ég set inn hér á eftir.
Bless kæra dagbók nú er bara að fara að hugleiða og undirbúa að komast í fitnessið á morgun og hitta alla "skemmtilegu" karlana sem eru svo óskaplega broshýrir í morgunsárið og konuna sem aldrei býður mér upp á kaffi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2009 | 08:44
Rétt nafn á bloggi!
Kæra dagbók þá er ég bara vöknuð, svaf vel og lengur en vanalega enda þreytt, hafðí engan tíma til að sofa á Íslandi.
Úti er glaða sólskin og 18°C sem er mjög gott, við ætlum að reyna að skoða aðeins góða veðrið í dag.
Ein indæl ung kona sem oft færir mér kaffi kom hér inn áðan til að skipta á rúminu og sagði svona í framhjáhlaupi við mig "voða var það sætt af þér að ætla að koma með hjólastólinn hans Johns". Nei Rannveig-gamla hafði gjörsamlega alveg gleymt stólnum , ég hafði semsé lofað þegar ég fór til Íslands að þegar ég kæmi aftur ætlaði ég skila hjólastól sem "íslensk" hjón höfðu verið með í láni en þau voru mér samferða til Íslands. Ég hafði gjörsamlega gleymt stólnum en svaraði með þessu líka indæla brosi "já ég kem með hann eftir hádegi"
Kæra dagbók ég er þreytt í dag og hef því ekkert verið að reyna á vel varðveittan vöðvaforða en "koma dagar koma ráð, segir máltækið.... "já já, ég segi bara bless og bestu kveðjur í rigninguna og það verður betra veður hjá ykkur á morgun, ég ætla að fara að horfa til himins því ég á von á fallhlífastökkvara hér á eftir .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2009 | 17:30
Svíþjóð ídag!
Kæra dagbók þá er ég bara mætt í Svíþjóð eftir gott flug og enn betra skutl á "Leif Eiríksson", sætahitarar eru lífsnauðsynlegir í bíla.
Dagurinn í gær gékk mjög vel, allir boðnir og búnir til aðstoðar, útskriftarathöfnin var löng en ekki verið að eyða tímanum í kjaftæði. Við Vigfús sáum/heyrðum að Rektor og Konrektor við MH þurfa mun minna að tala en Skólameistari og Aðstoðarskólameistari vð Flensborarskóla. Núna útskrifuðust 153 nemendur úr MH en okkur til þæginda var ein ung stúlka sem tók að sér nær öll námsverðlaunin svo afhendingin tók mun skemmri tíma en ef fleiri hefðu verið um hitunina, takk kærlega. Dúx MH var með meðaleinkunnina 9.93 og tók yfir 220 einingar á 4 árum, semsé fjórar níur og restin tíur og aldrei betri námsárangur í sögu skólans.
Inga María stóð sig mjög vel og var glæsileg að vanda og veisla fór vel fram, engin slagsmál brutust út, húsnæðið frábært og ótrúlegt hvað vel rúmaðist. Huldar útbjó DVD disk úr upptökum úr veislunni og frá athöfninni og það vorum við Eyjólfur að skoða eftir að ég lenti í dag, frábært.
Áðan kom íslenski hjúkrunarfræðingurinn "okkar" inn og lét okkur í té nýustu tölur úr blóð "kjördæminu" og þær eru sérdeilis góðar og henni fannst þetta svo flott að það var eins og hún væri að færa okkur gullpottinn og þetta er það reyndar í okkar huga.
Núna ætla ég að fara að pússa sólgleraugun því að á morgun þarf ég að líta til himins til að sjá fallhlífarstökkvarann svífa hér til jarðar því ég veit að ónefnd vinkona á eftir að sjá að sér og hoppa úr fluvélinn á leið til Finnlands, enda ég meina hvað hefur Finnland að bjóða sem ég hef ekki, ekkert.
Við sendum okkar bestu kveðjur til allra og takk fyrir alla frábæru hjálpina. "Gamla" samstarfsfólkið mitt í Setbergsskóla fær sérstakar kveðjur og þakklæti frá okkur hjónum
Nú er mín bar orðinn þreytt og segi því bless bless kæra dagbók!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.5.2009 | 08:21
Ísland í dag!
Kæra dagbók þá er frúin bara að þvælast á Íslandi þar til í fyrramálið. Hér eru mætar kjarnorku stúlkur og ætlað að útbúa sushi á meðan við mæðgur förum í klippingu, lúksusgellur. Allt er að verða tilbúið fyrir veisluna þökk sé vinum og ættingjum og svo náttúrulega Inga Maríu.
Úlistun á athöfn dagsins og veislunni verður á morgun en ég talaði við Eyjólf á skype-inu í gærkvöldi, ég var þá heima hjá tengdaforeldrunum svo að Eyjólfur yrði þeirrar gleði aðnjótandi að sjá sína .
Hann var orðinn betri í munninum og koki þannig að greiðlega gékk að tala. Hann er kominn úr einangrun en verður samt að fara varlega.
Jæja þá er það klippinginn bless bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2009 | 07:34
Flugdagur.
Kæra dagbók þá er min bara að fara að yfirgefa eiginmanninn í tvo sólahringa, það er ekki fallegt! Ég ætla að vera fulltrúi okkar beggja, tveggja manna maki ekkert mál.
Skrítið bæði litlu börni verða sem sé orðnir stúdentar á morgun og þá hendi ég þeim að sjálfsögðu að heiman, geta séð um sig sjálf, reyndar gera þau það nú þegar og gengur mjög vel, duglegir ungar
Vigfús Almar útskrifaðist rétt eftir að pabbinn greindist í desember og var reyndar í prófum þá en stóð sig vel. Þá var smá gleiði og pabbinn komst aðeins heim í köku en ekki mikil veisla en góð. Inga María hefur alveg haldið sínu striki þrátt fyrir álagið sem á henni hefur verið og klára stúdentinn á þremur árum, "sem er mjög gott" og við ætlum að blása til veislu. Ég geri náttúrulega ekkert nema fara í klippingu er búin að fá frábært fólk til að aðstoða og sendi nöfnu hennar með hana í bæinn að finna kjól, það gékk víst mjög vel og amman segist enn vera við hestaheilsu, ég á reyndar eftir að sjá útkomuna já bæði á ömmunni og kjólnum
Eyjólfur er fremur slappur eftir erfiði síðustu vikna en öll gildi í blóðinu rjúka upp, við og hjúkrunarfólkið erum mjög ánægð með það. Hann ætti að ná góðri hvíld næstu tvo sólahringana Ég hlakka til að hitta alla, næstum, þegar ég kem heim og ég veit að hugur Eyjólfs verður með mér.
Bless bless kæra dagbók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 1056
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar