12.3.2012 | 12:02
Lítið að frétta!
Góðan daginn kæra dagbók !
Ekki miklar eða stórar fréttir af prinsessunni nema hvað hún hefur töluvert fundið fyrir bauninni að undanförnu en þá hefur tengdamamma hennar komið og skutlað kæratanum á sjúkrahúsið til að það myndist ekki lognmolla þar . Kærastinn sér nefnilega til þess að læknar og hjúkrunarfólk á þessum bæ hafi eitthvað að sýsla. Komið hefur í ljós að sveppasýkingin hans sést hér á svona fimm ára fresti og hefur hingað til verið afar illviðráðanleg en þökk sé framförum og rannsóknum í læknavísindum þá er nýkomið lyf á markaðinn sem hrekkir þennan svepp. Annað hvort lætur sveppurinn alveg undan eða hylkið hans lokar sig af og verður ekki til meiri vandræða. Síðasta sneiðmyndataka af lungum kærastans (sveppahylkið liggur þétt við lungun) sýndi að sveppurinn var á hröðu undanhaldi og svo er bara að sjá hverju framvindur. Kærastinn er töluvert slappur og ekki til stórræðanna en finnur sér alltaf eitthvað til dundurs á milli hvílda og vinnur að eigin uppbyggingu .
Jón er óðum að jafna sig af mjaðmabrotinu en það var alveg við hryggjarsúluna þannig að erfitt var við að eiga. Dvölin í hundabúrinu skilaði þó sínu vel þó að aðrir heimilismeðlimir hafi átt erfitt með að horfa upp á litla eftirlætið reyna að naga sér leið út úr búrinu, það hélt þó og er enn heilt. Jón losnaði úr prísundinni í áföngum og var farinn að skokka um og leika við mýsnar (keyptar í kuffulaginu) þegar stóri frændi tók eftir "gúlp" miklum eða vökvafyllingu undir húð við hægri afturfót á Jóni. Jón var drifinn til lækningakonunnar sem skoðaði hann vel og vandlega og boðaði í aðra komu morguninn eftir. Jón mætti klukkan 0800 að staðartíma með mömmunni sinni og stóra frænda og varð að "leggjast" inn til sýnatöku og rannskóknar . Rétt fyrir hádegi hringdi dýralæknirinn í ömmuna og sagðist hafa sogið 80 ml af glærum vökva úr læri Jóns, líklegast taldi hún að þetta væru afleiðingar af högginum sem hann fékk þegar hann brotnaði en þó þarf að fylgjast með honum. Jón var líka drifinn í röntgenmyndatöku og þar kom í ljós að brotið hafði gróðið vel svo að þessar erfiðu vikur hafa borgað sig .
Þar sem Jón var svæfður við þessar aðfarir þá var tækifærið nýtt og sett í hann örflaga til merkingar þannig að nú er hann merktur í bak og fyrir, með nafnspjald lafandi í ól, tattú í eyranu og örflögu undir húð . Mikið var samt erfitt fyrir Jón að ganga og borða þegar hann kom heim, afturfæturnir létu engan veginn að stjórn og hann missti matinn stöðugt út úr sé enda afar vankaður og að lokum lagðist hann ofan á "afann" sinn sem lá upp í sófa og þar sváfu þeir saman góða stund .
Jæja kæra dagbók prinsessan heldur áfram í baráttunni með kærastanum og bíður eftir vorinu eða öllu heldur hærri lofthita . Kærustuparið þakkar allar góðar fyrirbænir og parinu þætti vænt um að þeim yrði haldið áfram, takk!
Bless kæra dagbók og vonandi verður einhver dugur í prinsessunni til skrifa svona með hækkandi hitastigi og bjartari dögum .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2012 | 19:26
Jón, Jón og aftur Jón!!
Góðan daginn kæra dagbók . Kærastinn hefur jafnað sig nokkuð vel eftir aðgerðina í byrjun janúar og sárin hafa gróið vel. Hins vegar er enn verið að vinna á bakteríu-sveppa hólfinu sem liggur við lungun, Prinsessan veit í raun ekki alveg hvernig þau mál standa en vonandi verður fljótlega athugað hvort hólfið sé ekki örugglega að yfirgefa kærastann . Kærastinn fékk að koma í frí heim en ekki vildi betur til en svo að hann síktist af hálsbólgu og var sendur láréttur í snarhasti með afar "expensive- leigubíl" á sjúkrahúsið og var þá með rúmlega 40 gráðu hita og nú liggur hann flatur og fær enn ein lyfin til að vinna á hálsbólgunni. Það gengur en kærastinn er slappur en vonast til að komast heim á morgun .
Síðustu dagar hafa verið afar sögulegir hjá prinsessunni, litlu börnin fengu sömu flensu og pabbinn þeirra en voru misslæm og eru að ná sér . Tengdapabbi prinsessunnar var fluttur með svona "very expensive leigubíl" á bráðavaktina í Fossvogi og lagður þar inn en er allur að jafna sig og er komin heim að laga sér kaffi nú er bara að hann fari vel með sig.
Jón Leifs eðalköttur skreið á framlöppunum heim í gærkvöldi . Mamman hans gaf honum verkjalyf sem enn voru til eftir síðustu meiðsl. Þegar prinsessan kom heim var Jón í sínu bæli og dormaði svo prinsessan fór í sitt bæli en rumskaði nokkru sinnum í nótt þegar Jón litli var að væla og stynja . Prinsessan var mætt á hurðahúninn hjá dýralækninum með Jón við opnun í morgun og þurfti að skilja litla engilinn sinn eftir. Dýralæknirinn kvaddi með þeim orðum að þetta liti ekki vel út þannig að prinsessan var með athyglisbrest á hæðsta stigi meðan hún beið eftir símtali frá dýralækninum. Loksins klukkan hálf ellefu hringdi læknirinn og Jón reyndist mjaðmagrindarbrotinn, mjaðmagrindinn hafði losnað frá hrygg og ekkert hægt að spengja nema þannig að Jón yrði fatlaður á eftir eða jafnvel verra . Eina ráðið er að halda Jóni (hreyfiglaða) í bælinu næstu tvær vikurnar að minnsta kosti þ.e. hafa hann í stóru búri þar sem bæli, matur og klósett ásamt Jóni kæmist fyrir. Jón má sem sé ekki hopap upp á neitt né niður af neinu .Prinsessan fékk búr sem ætlað er fyrir stóran hund, t.d. labrador, fyrir Jón, náði síðan í litlu elskuna til dýralæknisins. Jón var útgrátinn, já tár og allt og sýndi viðbrögð þegar amman mætti og dýralæknirinn hafði á orði að auðséð væri að hann væri dauðfegin að hitta ömmuna sína. Núna er Jón í búrinu sínu og var að gæða sér á rækjum þegar amman fór að sinna kærastanum. Að sjálfsögðu er Jón ekki einn heima, mamman hans og stóri frændi voru bæði kyrrsett til að vera til taks ef Jón þyrfti að kvarta og til að verða við óskum hans .
Núna situr prinsessan á sjúkrahúsinu hjá kærastanum og fylgist með fréttum með öðru eyranu en horfir ekki. Kærastinn hefur áhyggjur af Jóni litla sem er einn heim með mömmu sinn og frænda, engin afi og amma að hugsa um hann .
Bless kæra dagbók og næst verða fréttirnar örugglega betri og bjartari af prinsessunni og hennar háaðli .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2012 | 13:47
Gaman og bráhollt!
Kæra dagbók nú brosir prinsessan eftir að hafa fengið þessar fínu kveðjur, jafnvel almúga fólk er farið að senda fyrirfólkinu kveðjur . Prinsessan og hennar kærasti þakka líka fyrir allar góðu fyrirbænirnar og ekki verra að fá meira af þeim (frekjan í fyrirfólkinu) . Kærustuparið veit að allar fyrirbænir og góðar hugsanir hafa áhrif, fyrir utan hvað þær eru bráðhollar fyrir alla aðila.
Prinsessan er með "Letina" í heimsókn í dag og hún er eflaust góður gestur sé hún ekki of oft í heimsókn en frú Leti kemur stundum í kaffi og þá er nú illmögulegt að gera eitthvað annað en sinna henni (svolítið frek á athygli þessi elska). Prinsessan hefur nú frétt af Frú Leti í öðrum húsum eftir áramót og hefur hún jafnvel gert svo víðreist að sögur fóru af því að hún hafi mætt í kaffi í ónefnt hús við ána á Selfossi þannig að prinsessan sér að Frúin þarf að "vísitera" víða svo ekki getur hún stoppað lengi við í prinsessuhúsum .
Nú þarf kærastinn að vinna á sýkingu sem er í lokuðu hólfi við lungun og grunur leikur á að þessi sýking sé komin nokkuð til ára sinna þar sem hún sést á myndum allt frá því í Svíþjóð 2009. Það er eins og aldrei hafi fullkomlega komist fyrir þessa sýkingu og ekki er afgerandi hvort þarna leynist bæði sveppur og bakteríur eða "bara" bakteríur þannig að kærastinn fær lyf við hvorutveggju og svo er fylgst vel með .
Prinsessan; þessi þolinmóða, er búin að fá alveg nóg af kuldanum á Íslandi og finnst nú alveg nóg komið og ætlar að fara fram á örlitla hlýnun, bara svona þannig að hún geti keyrt sjálf á milli staða án þess að setja "náungann" í lífshættu og geti gefið einkabílstjórunum frí . Alltof lengi hefur hún þurft að fara innpökkuð í heitan bíl hjá einkabílstjórum til að geta kysst kærastann á sjúkrahúsinu og síðan að láta sækja sig til að geta farið heim að knúsa Jón sætasta. Það er ekki lítið lagt á eina prinsessu að þurfa að sinna þessum tveimur sætu. Sem betur fer var prinsessan búin að koma sér upp syni og dóttur á fullorðins aldri sem geta hlaupið undir bagga með að knúsa Jón og létta lund kærastans með heimsóknum fyrir utan að skutlast með prinsessuna á milli staða .
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur og takk fyrir að fylgjast með kærustuparinu og senda þeim góðar hugsanir og fyrirbænir .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2012 | 20:47
Loksins og þó!!
Góðan daginn kæra dagbók . Mikið hefur á daga prinsessunnar drifið síðan þú heyrðir frá henni síðast!
Í lok október lést mamma prinsessunnar en það hryggði prinsessuna þó að "drottningin" hafi verið orðin afar þreytt á líkama. Alltaf gat prinsessan leita ráða og rætt hlutina við mömmuna sína en hún var djúpvitur kona og gaf góð rá, hvert á prinsessan að leita í dag . Margar minningar og hugsanir skjóta upp þegar fólk fellur frá og ekkert var öðru vísi hjá prinsessunni, mamman hennar hefði orðið 88 ára 15. desember síðastliðin hefði hún lifað.
Prinsessan á hins vegar góðar og fallegar minningar um mömmu sína og þær verða ekki teknar frá henni, ekki frekar en góðu ættingjarnir.
Kærastinn stendur enn í baráttunni við bráðahvítblæðið og hefur tekið margar hliðarbeygjur og útúdúra, alltaf að ljá læknunum verðug verkefni þeim til reynsluauka! Nú síðast fékk kærastinn gat eða göt á görnina og þurfti að fara í aðgerð sem reyndar gékk vonum framar og var hluti ristilsins, hægra meginn, numin brott en þetta á allta að jafna sig. Nú er bara að drífa sig í að klára hvítblæðið og fara að halda áfram þaðan sem frá var horfið við að dekra kærustuna .
Prinsessan hefur litlu börnin sín enn heima en þau eru í Háskóla Íslands að nema erlend tungumál sér til gangns og vonandi nokkurs gamans, þau eru einnig með smá vinnu með skólanum til að eiga fyrir stöku bíóferð. Jón Leifs er enn mjög ánægður með ömmu sína, prinsessuna á bauninni, nýtir reyndar hvert tækifæri sem gefst til að skríða upp í á meðan kærastinn er á sjúkrahúsinu og spurning hvar kærastinn sofi þegar hann kemur heim . Heitir þetta ekki að það sé kominn köttur í ból kærastans?
Jæja kæra dagbók vonandi verður prinsessan duglegri að láta heyra frá sér á næstunni þó hún sé enn önnum kafin við að lesa "jólabækurnar" . Bless kæra dagbók
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.5.2011 | 14:27
Hvar er sumarið?
Góðan daginn kæra dagbók . Margt hefur á daga prinsessunnar og hennar fólks drifið að undanförnu. Einkadóttirin útskrifaðist með glæsibrag og frumsýndi kvikmyndina sína og fékk myndin lof áhorfenda, bæði fyrir leik og alla vinnslu .
Kærustuparið fékk í gær fyrstu góðu fréttirnar síðan um áramót af sjúkdómi kærastans . Hann byrjaði á nýjum lyfjum, þessi meðferð hefur ekki verið reynd á Íslandi áður og er í raun nýkomin úr prufukeyrslu erlendis. Á fimmtudaginn var tekinn mergástunga og svarið kom á föstudag "Tosast í rétta átt, þó sjúkdómurinn sé enn til staðar." Þó er kærastinn bara hálfnaður með fyrstu umferð svo kærustuparið er ánægt.
Prinsessan hefur allt frá byrjun dagbókarfærslna af henni íhugað hvort hún ætti að hafa dagbókina opna eða lokaða eða hvort hún yfirhöfuð að vera að láta út einhverjar fréttir af sér og sínum. Prinsessan ætlar að taka sér nokkra daga í að íhuga hvor kosturinn verður fyrir valinu, þ.e. loka eða hætta.
Prinsessan biður alla þá sem hún hefur sært eða fengið til að misskilja fréttir af kærastanum innilega afsökunar. Þetta hefur verið mjög erfitt stríð og afskaplega gott já alveg ótrúlega uppörvandi að fá kveðjur frá vinum og vinnufélögum í gegnum dagbókina. Það hefur í raun verið ástæðan fyrir færslunum að vita af því að einhver fylgist með manni. Eins hefur verið ótrúlega gott hvað vinir hafa verið duglegir að bjóða í mat en það hefur létt lundina og eins hafa góðar sendingar borist sem er alveg ómetanlegt, kærustuparið þakkar innilega fyrir sig .
Bless kæra dagbók .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.4.2011 | 13:14
Gleðilegt sumar!
Góðan daginn kæra dagbók hér koma smá, örlitlar fréttir af prinsessunni en lítið hefur heyrst frá henni að undanförnu. Ástæðan er einfaldlega fingraleti og meiri svona handleggja dugnaður .
Prinsessan hefur kærastann að mestu heima hjá sér þessa dagana og er hann að jafna sig eftir lugnabólgu og veikindi undanfarna mánuði og síðan er það áframhaldandi barátta við hvítblæðið.
Jón Leifs alias ormur er nokk til friðs þessa dagana og virðist mjög ánægður með það að hafa ömmu og afa heima flesta daga og svo skokkar hann í göngutúra með parinu .
Prinsessan hélt til höfuðborgarinnar á þriðjudaginn og varð sér úti um Skólastjórasúpu (ekki það að sú staða sé markmiðið) og kaffi og súkkulaði í eftirrétt. Þar hitti prinsessan eiturhressar "bókhaldsdömur" sem þó minntust hvorki á debet né kredit. Þessar dömur eru ótrúlega jákvæðar og hressar þrátt fyrir að hafa verið atvinnulausar um lengri tíma og reynt af fremsta megni að lifa á bótum þær hafa verið duglegar að sækja hin ýmsu námsskeið og jafnvel að leika í kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum . Alla vega hafði prinsessan mjög gott af því að hitta þessar skvísur og á áætlun er að neyða þær hingað út á landsbyggðina og hver veit nema boðið verði upp á "atvinnubóta" súpu eða bara kaffi .
Nú er prinsessan hins vegar að fá flotta dömu í kaffi, þessi dama gerir ekkert annað en að safna barnabörnum þessa dagana .
Klukkan fimm ætlar svo prinsessan ásamt frumburðinum til höfuðborgarinnar og þar ætla þau að fylgjst með einkadótturinni að taka þátt í módelfitness en prinsessan vakanði fyrir allar aldir í morgun og málaði dótturina dökk brúna á allan kroppinn .
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur frá kærustuparinu sem reynir að fara í þrjá örstutta göngutúra á dag (á milli hryðja) og vinnur hörðum höndum að uppbyggingu sem gengur bara vel .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2011 | 15:35
Áfram fingraleti!
Góðan daginn kæra dagbók enn er prinsessan illa haldin af fingraleti þetta nær meira að segja til prjónanna, ekki gott mál .
Prinsessan hefur kærastann heima hjá sér núna og fengu þau mjög góða gesti í hádegiskaffi en þá var kærustuparið búið að mæta á kjörstað og gera sínum atkvæðum góð skil. Fámennt og nokkuð góðmennt var á kjörstað upp úr klukkan 09:00 á "Greenwitch time" en eitthvað átti konan sem kaus næst á undan kærustuparinu erfitt. Prinsessan er ekki alveg með á hreinu hvort hún kaus rétt eða rangt, enda bannað að nota sömu orð á kjörstað í dag og bönnuð eru í "Frúnni í Hamborg" svo ekki þorði prinsessan að spyrja, vildi ekki fá lögreglufylgd út af kjörstað . Alla vega þessi kvenmaður tók sig til og hnerraði þrisvar með miklum tilþrifum þegar hún hugðist stinga atkvæðaseðlinum ofan í kjörkassann, prinsessunni varð á orði (talandi út frá eigin reynsluheimi) "þú ert með ofnæmi fyrir kjörseðlinum". Kvenmaðurinn dreif sig í að troða seðlinum í rifuna og tók á rás út, prinsessan var að hugsa um að hlaupa á eftir henni og spurja hvað hún hefði kosið, þar sem líklegasta skýringin á hnerrunum er að hún hafi kosið rangt .
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur frá kærustuparinu sem hefur það gott saman og ætlar að fá gott að borða í kvöld og meira að segja rauðvín með og jafnvel að ná að vaka eitthvað yfir kosningarsjónvarpinu .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2011 | 11:33
"Holliday"
Góðan daginn kæra dagbók þar sem að prinsessan á bauninni er illa haldin af fingraleti þessa dagana þá ætlar hún voða lítið að tala við þig í dag .
Prinsessan hefur verið nokkuð til friðs undanfarna daga og ætlar að vera það fram yfir helgi. Prinsessan er svo heppin að kærastinn er hitalaus og fær því að vera heima um helgina og líka að gista . Hann kom heim seinnipartinn í gær með fullan poka af lyfjum og á morgnanna mætir hjúkrunarfræðingur og gefur kærastanum lyf í æð en að öðru er hann nokkuð laus við en þó ekki til stórræðanna. Hins vegar hefur kærustuparinu verið boðið í mat hjá góðum vinum í kvöld og ætla þau að þekkjast boðið í þeirri von að börnin verði heima að passa Jón, ekki er hægt að skilja hann einan eftir .
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur frá kærustuparinu .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2011 | 14:35
Söngkonan!
Góðan daginn kæra dagbók nú var prinsessan að setja inn þessi líka fínu myndbönd. og næsta myndband.
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur frá kærustuparinu .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2011 | 16:54
Naglinn!
Góðan daginn kæra dagbók þú færð iðulega einhverjar fréttir og sögur af prinsessunni á bauninni og eitthvað er örlítið minnst á hennar nánustu fjölskyldumeðlimi svo sem eins og kærastann. Prinsessan er viðkvæmi á ytra byrði en mikill nagli á því innra að eigin sögn . T.d. léti prinsessan það ekki um sig spurjast að hún væri að tárfella við brúðkaup, skírn eða við það að fá lítið ungabarn í fangið, nei nei og kærastinn er bara alveg álíka mikill nagli. Orðlaus verður prinsessan ekki og erfitt að koma henni í svo opna skjöldu að hún sýni ekki viðbrögð. En svo bregðast krosstré sem aðrir raftar því prinsessan varð bæði orðlaus og tárfelldi á föstudagskvöldið já og varð að setjast niður. Prinsessan fékk nefnilega smá heimsókn sem varð reyndar söguleg að öðru leiti því þegar heimsækjandinn bankaði á útidyrahurðina þá gargaði prinsessan "opnaðu sjálf ég er ber" úps, þetta glumdi um hverfið því allir gluggar voru opnir. Hins vegar kom heimsækandinn með bleikan pakka og kort með mynd af prinsessunni en á því stóð að þetta væri til prinsessunnar og prinsins (sem sé kærastinn er prins í einhverra augum) frá fyrrverandi starfsfélögum prinsessunnar í Setbergsskóla. Alltaf er þetta sama fólk að gleðja kærustuparið með kveðjum og að fylgjast með ástandi mála og þetta er í annað skiptið sem pakki berst frá þeim. Prinsessan komst við og eins var með kærastann þegar hann fékk fréttirnar en þar sem kærustuparið er hlýðið og vel upp alið þá ætlar það að fara eftir fyrirmælunum á kortinu og pakkanum verður komið í góða geymslu og verður svo nýttur vel þegar kærastinn verður kominn til betri heilsu, já strax í endurhæfingunni . Þarna kemur enn og aftur í ljós hvað gott er að eiga góða að og í raun ómetanlegt og í raun eru allar kveðjurnar og hlýhugurinn alveg yfirdrifið nóg fyrir kærustuparið í gegnum þessa áreynslu tíma .
Svo einhverjar fréttir berist af kærastanum þá er hann á veika tímabilinu, fær háan hita og hitalækkandi til skiptis og er á mjög breiðvirkum sýklalyfjum, hitatoppunum hefur fækkað í dag og líklegt að lyfin séu að vinna á sýkingum. Þetta er svo sem eins og það á að vera en samt þreytandi til lengdar .
Kærustuparið er búið að endurheimta einkasoninn og frumburðinn (einn og sami maðurinn) frá henni "Emeríku" . Barnið hefur verið að heiman í tvo mánuði við kvikmyndatökur, fyrst í Evrópu og síðan handan Atlantshafsins. Kvikmyndina vinnur hann ásamt vinum sínum og fellur hún í flokk fræðslu- eða fréttamynda. Félagarnir hafa átt viðtöl við málsmetandi menn um stjórnarfar, stjórnmál, lýðræði og fleira. Mjög ólík sjónarhorn og menn með ótrúlega ólíkan bakgrunn koma fram í þessum viðtölum og verður forvitnilegt að sjá útkomuna .
Af Jóni er það að frétta að hann er við hestaheilsu og sýnir "bíbí" heldur mikinn áhuga þessa dagana .
Heimasætan ætlar að synga fyrir gesti og gangandi á Café Rosinberg í höfuðborginni í kvöld og þangað ætlar prinsessan að mæta vopnuð vídéó-upptökuvél. Þetta er hluti af útskrift hennar frá Kvikmyndaskólanum en þeir nemendur sem útskrifast í vor frá leiklistadeildinni koma fram og skemmta gestum með söng frá klukkan níu í kvöld .
Bless kæra dagbók og bestu kveðjur frá kærustuparinu sem vinnur nú hörðum höndum að því að komast í stand að nýta pakkann góða .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar