18.3.2011 | 14:50
Vorið er handan við hornið!
Góðan daginn kæra dagbók þá er kærastinn byrjaður á nýrri törn. Hann er hress og íþróttaálfurinn kemur daglega og fær sér göngutúr með kærastanum og síðan eru það nokkrar styrktaræfingar. Annað með prinsessun sem eltist við Ágústu Johnson á morgnana heima í stofu og eitthvað gengur Ágústu illa að halda takti og svo kann hún heldur ekki að telja. Já prinsessan er búin að finna þetta út því þegar prinsessan gerir æfingarnar þá er Ágústa alltaf á undan og svo segir Ágústa "og 2 í viðbót" og gerir svo fjóra, "common" .
Prinsessan er búin að ákveða að vorið komi eftir helgi, prinsessan er að tala um íslenskt vor . Það er hret öðru hvoru en sjaldan og að mestu hlýnandi veður og páskaliljur að springa út . Prinsessan vill fara að komast á kaffihú,s hitta fólk og í göngutúr(a) enda prinsessunni í "barnsminni" hvernig það er að fara út að ganga. Prinsessan hefur líka hug á að komast í ræktina því ef satt skal segja þá er það henni töluvert erfitt að horfa upp á hana Ágústu á hverjum morgni og aumingja Jón liggur skelfingu lostinn uppí "ömmurúmi" á meðan ósköpin ganga yfir .
Tengdamóðir prinsessunnar fór ásamt hinum syninum og fjölskyldu í "íþróttaferð" til Siglufjarðar um daginn og í fyrstu hafði prinsessan svolítlar áhyggjur af þessari ferð. Prinsessunni var nefnilega hugsað til æskuáranna þegar hún sjálf dvaldi oft á Siglufirði undir því yfirskini að heimsækja ættingjana. Prinsessan hafði alltaf í öruggt hús að venda en hún vissi nú samt til þess að sumt aðkomufólk þurfti að gista á tjaldistæði sem var staðsett inn í firði. Sem betur fer fékk tengdamamma hús til afnota og þurfti ekki að nýta sér tjaldsvæðið svo áhyggjur voru óþarfar í bili alla vega.
Tjalstæði þetta lá við berjaland og þangað ákváðu frænka (reyndar gift föðurbróður) og móðir prinsessunnar að halda einn daginn og týna ber í sultu og saft . Í einhverju bjartsýnistkasti þeirra mákvenna þá álitu þær að dæturnar á svipuðum aldri væru upplagðar í að hjálpa til við berjatýnsluna, ja það sem fullorðnu fólki getur dottið í hug . Eftir að ungu frænkurnar höfðu náð að botnfylla sín ílát þá ákváðu þær að nú væri nauðsynlegt að bregða sér á kamarinn á tjaldsvæðinu. Ja þvílíkur töfrakamar!!! Þarna voru fjórir samfastir kamrar/klefar sem lágu við árbakka ofan á láréttum staurum en staurarnir lágu þvert yfir ána, frá einum bakka til annars. Svo "skemmtilega" var kömrunum fyrirkomið að allt sem menn létu frá sér á kamrinum féll beint ofan í ána og auðvelt að sjá hvað niður féll. Þetta voru frænkurnar fljótar að uppgötva og skemmtu sér við að fylgjast með hvað kom frá hvor annarri og svo eins hverju þær hentu niður í gengum kamarinn, eitthvað reyndu þær líka að fá ferðafélagana til að athafna sig á kamrinum en undirtektir voru afar dræmar. Skemmst er frá því að segja að prinsessan gékk hölt nokkra mánuði eftir að hafa misstigið sig af spenningi við að hlaupa að ánni til að sjá hvað kæmi niður og þegar prinsessan var um fertugt var reynt að gera við þessi meiðsl því ristarbein hafði brotnað og ekki lagað strax enda ekki hægt að kvarta of mikið yfir "kamarmeiðslum" . Það er hins vegar af frænkunni að segja að hún lagðist daginn eftir í 40 stiga hita , kvef og hálsbólgu og var hás í mörg ár á eftir og gott ef hún er það ekki enn í dag. Er það nema von að prinsessan hafi haft áhyggjur af tengdamömmunni .
Bless kæra dagbók, kærustuparið situr á sjúkrahúsinu og dundar við lestur, prjónaskap og tölvuleiki en prinsessan vonast til að fá kærastann í smá heimsókn heim yfir daginn einhverja næstu dagana .
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 1053
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Bestu kveðjur til ykkar kærustuparsins, alltaf gaman að fá að fylgjast með skemmtilegum pistlunum þínum og hvernig jákvætt hugafar fleytir ykkur í gegnum þessi hríðarél , bæði heilsufarslega og veðurfarslega sendi góða strauma bæði á lansann og í norðurbæinn ! Sigrún
Sigrún Björg (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 18:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.